Ímyndin um „hreina Ísland“

Fimmtudagur, 16. janúar 2014
Anne Maria Sparf

Margir vilja enn halda því fram að Ísland sé hreint og ómengað; land íss og elda þar sem hraustir afkomendur víkinga dvelja í sátt við náttúruna. Eitthvert ósamræmi virðist þó milli þessarar fögru ímyndar og raunveruleikans miðað við fréttir undanfarinna ára um mengun af ýmsu tagi víða um land. Stendur ímyndin um hreina Ísland á traustum grunni? Hverjir eru helstu mengunarvaldar af mannavöldum hér á landi og hve mikil hætta stafar af menguninni?

Loftmengun
Í samanburði við önnur Evrópulönd eru loftgæði á Íslandi almennt góð og verulega hefur dregið úr loftmengun í Reykjavík undanfarin ár. Útblástur bíla og svifryk geta þó valdið tímabundinni mengun, einkum í þéttbýli og í ákveðnum veðurfarsskilyrðum.

Loftmengun frá  iðnaðarstarfsemi hérlendis er vel vöktuð, nokkuð staðbundin og yfirleitt undir leyfilegum mörkum. Sem dæmi má nefna að þótt losun svokallaðra PAH-efna hafi aukist um 70% siðan 1990 sökum aukinnar ál- og kísilmálmsframleiðslu þá er talið að heilsuáhrif sökum efnanna má enn aðallega rekja til neyslu reyktra og grillaðra matvæla. Losun brennisteinsvetnis í andrúmsloft frá jarðvarmavirkjunum er hins vegar orðin sjöföld miðað við náttúrulegt útstreymi efnisins. Styrkur þess er yfirleitt það lágur að ekki er hætta á bráðum heilsufarsáhrifum,  en langtímaáhrif efnisins á eftir að rannsaka betur.

Loftgæði innanhúss eru ekki jafn vel þekkt hér á landi og gæði útilofts, en líklega er þó óhætt að fullyrða að lélegt inniloft hafi talsverð áhrif á lýðheilsu Íslendinga. Hættuleg efni gufa upp úr byggingarefnum, innréttingum, húsgögnum, textílvöru og gólfteppum og festast í rykögnum sem við öndum að okkur auk ofnæmisvaldandi efna úr hreinsiefnum og snyrtivörum. Við þetta bætist raki og mygla sem talin eru finnast í um 20% húsnæðis á Íslandi og geta haft alvarleg áhrif á heilsu.

Vatnsmengun
En hvað um hreina og tæra vatnið, stolt allra Íslendinga? Almennt er talið að grunnvatn hér á landi er í góðu ástandi og laus við sýkla. Styrkur uppleystra steinefna, þungmálma og annarra hættulegra efna er langt undir viðmiðunarmörkum. Staðbundið álag á yfirborðsvatn er hins vegar viða mikill.

Nýjustu gögn um skólpmengun hafa leitt í ljós að ástand fráveitumála hér á landi er með öllu ófullnægjandi og þótti flestum nóg um þegar myndir af fljótandi mannaskít í Ölfusá birtust í sjónvarpsfréttum RÚV í ágúst. Skólpmengun er vandamál við mörg þéttbýlissvæði landsins og talin sérlega mikil við m.a. Akureyri, Húsavík og Reykjanesbæ. Auk þess er vitað um mengun sökum losunar lífrænna efna frá fiskeldi, fiskvinnslum, landbúnaði og sláturhúsum ásamt efnalosun vegna jarðvarmavirkjana, sorpmeðhöndlunar, gamalla urðunarstaða og slippasvæða. Mælingum og viðmiðunargildum um efnainnihald fráveituvatns frá iðnaðarstarfsemi er í flestum tilfellum ábótavant og raunin er sú að mikil óvissa ríkir enn um umfang vatnsmengunar og áhrif hennar.

Hættuleg efni
Mengandi efni finnast alls staðar í nútímaheimi og geta verið mjög hættuleg lífríkinu og mönnum. Í nokkra áratugi hefur verið fylgst með efnastyrk þungmálma (s.s. kvikasilfur, kadmíum og blý) og þrávirkra lífrænna efna (m.a. díoxín, PCB, PAH, HCB og DDT) hér á landi. Helstu uppsprettur efnanna eru erlendis en þau berast til Íslands með haf- og loftstraumum og safnast m.a. fyrir í fituvefjum dýra. Styrkur efnanna hér á landi er langt frá hættumörkum, en mælast þó í lágum styrk m.a. í sjávarfangi, í fuglum, í blóði barnshafandi kvenna og í móðurmjólk.

Efnamengun frá iðnaði getur einnig valdið staðbundinni mengun, eins og fram kom árið 2012 þegar flúormagn í grasi í Reyðarfirði mældist óásættanlega hátt vegna starfsemi álversins. Ekki er talið að heilsu manna stafi hætta af flúormengun, en fylgst verður með áhrifum hennar á búfénað. Auk þess hefur díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum og áramótabrennum verið til umræðu undanfarin ár, en í raun hefur útstreymi díoxíns frá hérlendum uppsprettum minnkað um 90% síðan 1990 og styrkur díoxíns í jarðvegi er undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Umfang mögulegrar mengunar sökum heimabrennslu sorps sem lengi tíðkaðist á flestum sveitabæjum landsins er hins vegar óþekkt.

Hreint eða óhreint?
Þótt landið í heild geti enn talist minna mengað en mörg önnur lönd virðist misvísandi að tala um „Hið hreina Ísland“, einkum  í ljósi þess að stærstur hluti skólps rennur nánast ómeðhöndlaður út í ár og sjó. Auk þess eru umfang og áhrif vatns- og jarðvegsmengunar enn að miklu leyti ómetið og því óábyrgt að fullyrða að landið sé ómengað án nánari upplýsinga.

Hvað varðar heilsufarsleg áhrif virðist óhætt að fullyrða að lífsstíll okkar og matarvenjur vega í flestum tilfellum þyngra en umhverfismengun, en ekki er þó  alfarið hægt að útiloka áhrif mengunar á lýðheilsu Íslendinga. Ef við viljum halda áfram að byggja ímynd landsins á hreinleika er klárlega kominn tími til þjóðarátaks gegn mengun.

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 3.tbl.2013
Höf. Anne Maria Sparf