Jólin – notaleg neyslumartröð?

Miðvikudagur, 9. desember 2015
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Ég elska jólin og allt sem þeim fylgir. Að skreyta, baka, föndra, gera konfekt, skrifa jólakort, klæðast jólapeysum, velja jólatónlistina, lesa jólasögur, fara á jólatónleika, horfa á jólakvikmyndir, fara á jólahlaðborð, elda jólamatinn og kaupa jólagjafir. Í ágúst byrja ég að telja niður og gera lista yfir allt sem ég ætla mér að gera svo jólin verði algerlega fullkomin þetta árið. Um miðjan september ár hvert eru púlsinn og blóðþrýstingurinn á hraðri og öruggri uppleið og svefninn orðinn nokkuð slitróttur því „ég á bókstaflega eftir að gera ALLT.“ Þar sem bæði börn og fullorðnir á heimilinu eru lágstemmdari í jólaundirbúningi og vinnustaðurinn er fullur af skröggum fæ ég lítinn stuðning við þessa iðju mína og er iðulega dregin niður á jörðina með neikvæðni og leiðindum. Þess vegna hef ég ekki enn átt „hin fullkomnu jól“, en það hlýtur að koma að því!

Þar sem hin fullkomnu jól eru mér afar mikilvæg hef ég aldrei spáð mikið í það hverju ég eyði og hvað fer til spillis í þessari leit minni að fullkomnum jólum. Í öllu falli hef ég huggað mig við það – og talið mér trú um – að margir menga og eyða örugglega mun meiru, eru með fleiri jólaljós, stærra jólatré, meira skraut og dýrari pakka.

En hverju er fórnað í leitinni að hinum fullkomnu jólum?

Hvað kostar gleðin?
Fyrir síðustu jól var reiknað með því að hver einstaklingur hér á landi eyddi að meðaltali 45.000 kr. í neyslu sem rekja mætti til jólahaldsins. Svo fór að jólaneyslan 2014 fór fram úr þeim spám en einnig hefur þeim fjölgað á ný sem fara í verslunarferðir til útlanda á haustin auk þess sem verslun á netinu er í töluverðri sókn.

Það eru ekki bara Íslendingar sem eyða aukalega um jólin. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir síðustu jól var meðaljólaeyðsla breskra heimila 821 pund, eða sem nemur um 162.000 kr. Þar af var gert ráð fyrir að gjafir kostuðu 604 pund og tré, skraut og jólakort 43 pund. Samkvæmt könnunum eyða Bretar meiru í jólagjafir en flestar aðrar Evrópuþjóðir og eru einnig líklegri til að steypa sér í skuldir við innkaupin. Á sama tíma sögðust fullorðnir Bandaríkjamenn gera ráð fyrir að eyða enn meiru eða að meðaltali 781$ á mann í jólagjafainnkaup, eða sem nemur um 100.000 kr. Meðal-Kaupmannahafnarbúinn eyðir svo um 55.000 kr. í jólagjafir.

Hvers virði er jólagjöfin?
Gjafir fela það í sér að gefandinn tekur neysluákvörðun fyrir einhvern annan, þ.e. þiggjandann. Þannig reyna gefendur að finna eitthvað sem þeir telja að þiggjandanum líki og muni nota. Oft mistekst þetta herfilega; sumar peysur eru aldrei notaðar og margar bækur aldrei lesnar. Í öðrum tilvikum metur þiggjandinn gjöfina langt umfram fjárhagslegt gildi hennar, því hún hefur sérstakt tilfinningalegt gildi eða er frá nánum ástvini. Á tíunda áratugnum ákvað hagfræðingurinn Joel Waldfogel að rannsaka velferðartap jólagjafa. Hann spurði þátttakendur í fyrsta lagi að því hvað þeir teldu að jólagjafir sem þeir fengu hefðu kostað og í öðru lagi að því hvað þeir væru sjálfir tilbúnir til að greiða fyrir sömu hluti. Einungis var litið til virðis hlutanna í beinhörðum peningum en ekki tilfinningalegs gildis þeirra. Niðurstöðurnar voru sláandi, en mismunurinn var á milli 10 og 33%. Því nánari sem gefandinn var þiggjandanum þeim mun betur tókst til, en fjarskyldari ættingjar áttu í mun meiri vandræðum með að hitta í mark við gjafakaupin. Öruggast er því að gefa peninga, en þá fer nú tilfinningagildið og „jólaandinn“ fyrir lítið. Næstbest er að eyða miklum tíma og hugsun í gjafakaupin eða hreinlega bara spyrja hvað viðtakandann langar í.

Hvað með sóunina?
Undanfarin misseri hefur verið aukin umfjöllun um sóun og áhrifin sem (of)neysla okkar hefur á umhverfið. Meðvitund fólks um þessi mál hefur aukist. Hins vegar er eins og góður ásetningur og fagrar fyrirætlanir grafist hreinlega undir auglýsingabæklingum og markaðssetningu í desembermánuði.

Rétt er að minna á að neysla og sóun á Vesturlöndum er þegar svo mikil að takmarkaðar auðlindir jarðarinnar standa engan veginn undir veislunni. Þannig hefur því verið haldið fram að ef allir í heiminum neyttu á við Bandaríkjamenn þyrfti um 4 jarðir til að standa undir neyslunni, og í tilfelli Frakka, sem eru þó umtalsvert umhverfisvænni, er þessi tala 2,5. Því er vissulega tilefni til að staldra við í neysluæðinu.

Fyrir utan mengunina og sóunina sem skapast við framleiðslu allra jólanauðsynjanna fellur einnig til ótrúlega mikið viðbótarsorp inni á heimilum. Endurvinnsla og endurnýting eru vitaskuld alltaf mikilvæg en í neyslugleðinni yfir jólin er sérstök ástæða til að staldra við, skoða hvað má nýta betur og kynna sér vel reglur um flokkun og endurnýtingu.

Margt smátt
Bandaríkjamenn henda 25% meira rusli á tímabilinu 26. nóvember til 1. janúar en á öðrum árstímum. Þetta samsvarar 25.000.000 tonnum af sorpi – aukalega! Eða um 77 kílóum á mann – aukalega! Ef hver fjölskylda endurnýtti um 60 sm af pakkaböndum (band utan um einn lítinn pakka) nægði bandið sem þannig sparaðist til að binda slaufu um jörðina. Ef hver fjölskylda pakkaði þremur gjöfum í endurnýtt efni mundi pappírinn sem sparaðist með því duga til að þekja 45.000 ameríska fótboltavelli. Hér á landi væri samsvarandi tala væntanlega tæplega 40 knattspyrnuvellir.

Starað á brennandi geitur
Það eru ekki bara heimilin sem sóa og spreða í kringum hátíðarnar, heldur leggja verslanir einnig töluverða vinnu og fjármagn í skreytingar til að vekja athygli á jólavarningi. Frægasta jólaskrautið er væntanlega IKEA-geitin, sem kemur til byggða nokkrum mánuðum á undan jólasveinunum en örlög hennar eru jafnan sorgleg. Nú síðast var það sjálfsíkveikja sem olli því að geitin – ásamt þeirri milljón króna skreytingu sem hún bar – fuðraði upp. Samkvæmt fréttum frá IKEA eru menn þar borubrattir þrátt fyrir áfallið og að ári verður geitin – og væntanlega einnig serían – enn meiri um sig.

Hóflegar gjafir gleðja
Í minningunni eru æskujólin mun lágstemmdari en þau fullkomnu jól sem ég sé í amerískum jólamyndum og geri mitt besta til að eltast við. Gjafirnar voru einfaldari og ódýrari og eftirminnilegasta gjöfin hver jól var yfirleitt bók. Ég man hins vegar ekki alveg hvað ég fékk í jólagjöf í fyrra en held að það hafi m.a. verið margar bækur, sem ég hef ekki haft tíma til að lesa, því ég á svo margar, og það er svo mikið að gera kringum jólin við að ganga frá öllu dra..... uhh… gjöfunum.

Kannski eru hin fullkomnu jól örlítið lágstemmdari og afslappaðri?

Gleðileg – og fullkomin – jól!

Höfundur: Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 4.tbl.2015

 Jólin – notaleg neyslumartröð?