Lægra vöruverð á Íslandi – já takk

Miðvikudagur, 7. janúar 2015
Reynir Ásgeirsson

Í lok febrúar 2013 kynnti ASÍ, ásamt aðildarfélögum sínum, átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni „Vertu á verði“. Almenningur og atvinnulíf voru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu var ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum, vekja neytendur til aukinnar verðvitundar og taka höndum saman, sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir. Það myndi gagnast öllum.

Ég tók áskoruninni ásamt syni mínum og  stofnuðum við vefsíðuna kassakvittun.is, sem í upphafi sýndi verð rúmlega 170 vörutegunda í sjö verslunum; í Bónus, Krónunni, Iceland, Kosti, Nettó, Hagkaupum og Víði. Vörutegundunum var fljótlega fjölgað í um 230. Munur á hæsta og lægsta verði milli þessara verslana er um 26% að meðaltali um þessar mundir. Valdar voru algengar vörur en víst er að kanna mætti verð á ýmsum öðrum vörutegundum og jafnvel fjölga verslunum. Það er hinsvegar meira verk en svo að tveir menn í sjálfboðavinnu komist yfir að sinna því til lengdar svo vel sé. Áhersla er lögð á að velja sambærilegar vörur svo sem frekast er kostur. Tilgreint er hvort varan er innlend eða innflutt eftir því sem við á. Oft eru vörur af sömu tegund og frá sama framleiðanda seldar í mismunandi stærðareiningum eftir verslunum. Í þeim tilvikum er verð gefið upp í stöðluðum einingum, s.s. kílóum eða lítrum, til að auðvelda samanburð.

Ég tel að upplýsingar um hvar vara er ódýrust, án þess að það bitni á gæðunum, gagnist neytendum best. Þær auðvelda fólki að ákveða heima hjá sér hvað það ætlar að kaupa í hverri verslun. Alltof fáir eru nægjanlega meðvitaðir um hvað vörur kosta og margir láta glepjast af villandi tilboðum. Fjölmörg dæmi eru um slíkt í gegnum tíðina. Það er ótrúlegt hvað kemur í ljós þegar kassakvittanir frá sömu verslun eru bornar saman. Algengt er að sjá hækkanir frá nokkrum prósentum og upp í á annað hundrað prósenta á skömmum tíma. Vissulega ganga þær stundum til baka, en mismikið þó. Líklegt er að kaupmenn nái inn auglýstum afslætti samdægurs með hækkunum á öðrum vörum. Sem dæmi má nefna að þegar auglýst var verðlækkun á saltkjöti fyrir sprengidag var hvergi auglýst að verð á rófum var stórhækkað á sama tíma. Þá má nefna endalausa talnaleiki og hringlandahátt þar sem verðtölum er víxlað fram og aftur frá degi til dags í þeim tilgangi einum, að því er virðist, að brengla verðvitund viðskiptavina. Svo er það orðin viðtekin venja að spyrja viðskiptavininn hvort hann vilji kassastrimilinn, jafnvel þótt hann hafi verslað fyrir tugi þúsunda króna.

Verðkönnun þessi er öllum aðgengileg án endurgjalds og eru neytendur hvattir til að nýta sér hana. Jafnframt er ljóst að ef þessi könnun á að ná tilgangi sínum þarf fjöldaþátttöku almennings með því að fólk sendi okkur kassakvittanir úr þessum verslunum til að auðvelda uppfærslu verðbreytinga sem oftast. Því fleiri, því betra. Það má ýmist gera með því að taka myndir af kvittununum og senda þær í tölvupósti eða, eða ef fólk vill, senda kvittanirnar myndirnar nafnlaust í bréfapósti. Verðkönnunin er uppsett á mjög einfaldan máta þannig að litir; grænn, gulur og rauður, sýna á augabragði hvaða vörur eru ódýrastar og hverjar eru dýrari. Með því að sniðganga „rauðu“ vörurnar veita neytendur kaupmönnum verðugt aðhald, en þetta verður aðeins gert með mikilli þátttöku og samstöðu. Því miður er úthald neytenda hér á landi í þessum efnum ekki mikið, en á því byggist árangurinn. Ef  tekst að lækka vöruverð varanlega gæti það lækkað vísitölur og títtnefndar skuldir heimilanna í kjölfarið. Það er því til mikils að vinna.

Ágætu lesendur, ég vil hvetja ykkur til að skoða vefsíðuna kassakvittun.is, nýta ykkur hana og kynna fyrir vinum ykkar og vandamönnum. Netfangið er kassakvittun@kassakvittun.is ef þið sendið kvittanir í tölvupósti, en ef þið viljið nota bréfapóst má stíla hann á Kassakvittun.is Rjúpnasölum 14, 1501, 201 Kópavogi.

Reynir Ásgeirsson
Grein þessi birtist í Neytendablaðnu 4.tbl.2014

Reynir Ásgeirsson