Lækkum vöruverð

Miðvikudagur, 13. ágúst 2014
Jóhannes Gunnarsson

Ekki er óalgengt að almenningur á Íslandi kvarti yfir háu verði á vörum og þjónustu. Það er ekki undarlegt enda er verðlag hátt hér á landi í samanburði við flest önnur lönd. Oft er því líka haldið fram að aðeins tvennt sé ódýrara hér; heita vatnið og rafmagnið.

En er þetta eitthvert lögmál? Ákveðnar ástæður kunna að nokkru að skýra verðlag hér: Fjarlægð okkar frá öðrum mörkuðum með tilheyrandi flutningskostnaði, hve agnarsmár íslenski markaðurinn er með miklu minni möguleikum á hagkvæmum innkaupum og loks lega landsins sem gerir það ekki það ákjósanlegasta til framleiðslu á landbúnaðarvörum, einkum þeim hefðbundnu. En er það þá svo að við verðum bara að sætta okkur við það, bíta í skjaldarrendurnar og segja sem svo að svona sé það bara að búa á Íslandi?

Að mati undirritaðs er ekki svo. Það er fjölmargt hægt að gera til að breyta þessu og í það minnsta sumt af því gæti jafnframt komið innlendri verslun til góða og gert hana samkeppnishæfari.

Þarna munar að sjálfsögðu mjög miklu um opinberar álögur eins og vörugjald og tolla sem stjórnvöld leggja á vörur við innflutning en þær eru ófáar vörurnar sem í því lenda. En tökum fyrst vörugjaldið: Neytendasamtökin hafa lengi barist gegn þessari gjaldtöku. Vörugjald er lagt á fjölmargar vörur og þá ekki aðeins á svokallaðar „lúxusvörur”. Þannig verða þvottavélar og ísskápar seint talin lúxusvörur en samt sjá stjórnvöld ástæðu til að leggja 20% vörugjald á þær vörur. Sömu sögu er að segja um útigrill sem til eru á flestum heimilum. Á sjónvörp og DVD-spilara er vörugjaldið enn hærra eða 25%. Virðisaukaskattur, 25,5%, er svo lagður ofan á vörugjaldið þannig að hér er um gríðarlegar álögur að ræða. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að það beri að leggja niður vörugjöld. Undir það taka Neytendasamtökin eindregið.

Tollar eru lagðir á fjölmargar vörur og vega þar að sjálfsögðu þyngst tollar á innfluttar landbúnaðarvörur en Neytendasamtökin hafa lengi talað fyrir lækkun á þessum tollum með það að markmiði að fella þá niður með öllu. Þetta er þó sett fram með þeim fyrirvara að ef útflutningslandið styrkir sérstaklega þessar vörur með útflutningsbótum er eðlilegt að leggja á tolla sem nema útflutningsbótunum. Á síðasta þingi Neytendasamtakanna var kallað eftir því að kvótakerfi í landbúnaði yrði afnumið til að auka hagkvæmni innan greinarinnar. Um leið verði samkeppni með þessar vörur aukin, m.a. með lækkun tolla á innfluttar vörur. Einnig var kallað eftir aðgerðum til að koma í veg fyrir fákeppni í framleiðslu á eggjum og kjúklinga- og svínakjöti með auknum innflutningi á þessum vörum. Þess var jafnframt krafist að einokun í mjólkuriðnaði verði upprætt með lækkun eða afnámi tolla á innfluttar vörur. Sérstaklega var nefnt að tollar á innfluttum ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi verði felldir niður þegar í stað.

Vegna tvíhliða samninga er heimilt að flytja inn ákveðið magn af landbúnaðarvörum á lágum eða jafnvel engum tollum. Þá er þessi innflutningur boðinn út og fer til hæstbjóðanda. Gallinn á þessu fyrirkomulagi er að sá kostnaður sem væntanlegir innflytjendur verða fyrir fer beint út í verðlagið og minnkar um leið ávinning neytenda af innflutningnum. Þessu þarf að breyta og má t.d. úthluta kvótum með hlutkesti.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur atriði sem stuðlað geta að lækkun vöruverðs hér á landi. Margt annað mætti nefna eins og að örva samkeppni. Það væri óskandi að stjórnmálamenn einbeittu sér að því að lækka verðlag, ekki veitir heimilunum af.

höf. Jóhannes Gunnarsson

Leiðari í Neytendablaðinu 2.tbl.2014