Lán í boði

Föstudagur, 25. apríl 2014
Þuríður Hjartardóttir

 

Strákarnir okkar náðu 5. sæti á EM í handbolta nú í byrjun árs. Ásættanlegur árangur sem við gátum fylgst með á RÚV, m.a. með stuðningi smálánafyrirtækis sem auglýsti grimmt í auglýsingahléum í kringum útsendingar á leikjum og umræðum. Í auglýsingunni kom fram að ef Ísland skoraði mark félli lántökukostnaður niður. Í öllum handboltaleikjum skora bæði liðin mörk þannig að tilboð um ókeypis lán var aldrei í hættu. Rétt er að geta þess að það tekur átta daga að fá lánið afgreitt en til að fá það strax þarf að greiða flýtigjald að upphæð 4.900 kr. Sú tala er ekki inni í auglýstri árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Og hverjir skyldu sitja yfir spennandi leik og hugsa 8 daga fram í tímann?

Ég nefni þetta því mér finnst ýtin markaðssetning á lánum vera að ágerast aftur eftir skipbrot fjármálafyrirtækja árið 2008. Annað dæmi um áberandi auglýsingu er markaðssetning á bílalánum þar sem bílaumboð halda því fram að lánin þeirra kosti ekki neitt. Þú færð 40% af bílverðinu á vaxtalausu láni í 36 mánuði - 60% af bílverðinu er þá staðgreitt eða notaði bíllinn tekinn upp í þennan nýja. Rétt er þó að geta þess að umboðið gerir ráð fyrir að þú kaupir nýja bílinn á listaverði en prúttir ekki um hann eins og í venjulegum bílaviðskiptum. Þú reynir ekki að fá betra tilboð eða viðbót við staðalbúnað bílsins og þegar gamli bíllinn er tekinn upp í setur umboðið upp verð og þú verður bara að taka því. Ég veit um mann sem var með tilboð í nýjan bíl frá umboðinu en um leið og hann vildi taka þetta vaxtalausa lán hækkaði bílverðið um 700.000 krónur. Þessi munur er ekki inni í árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Bíllinn var kannski í dýrari kantinum en lánið var vissulega ekki ókeypis.

Ég bara spyr, þarf ekki að setja hömlur á markaðssetningu á lánum? Rétt eins og með áfengi og tóbak hafa þessar auglýsingar áhrif á neysluhegðun og ákveðnir hópar eru veikari fyrir þeim en aðrir. Sennilega er mikilvægt að fjármálastofnanir keppi um lánakjör og auglýsingar virkja kannski samkeppni. En þegar auglýsingar tæla fólk í kaup sem það hefði annars ekki farið í er mikilvægt að eftirlit sé í lagi og að brugðist sé strax við þegar neytendur eru blekktir til taka lán á röngum forsendum. Manni þótti nóg um í góðærinu þegar lánastofnanir og seljendur slógust um námsmenn og ungt fólk til festa það í gildru lána. Það hefur alla vega komið í ljós að heimilin í landinu áttu ekki krónu í bílnum, eldhúsinnréttingunni, pallinum og heita pottinum sem það fékk að láni á þeim tíma.

Að mínu mati eiga lán að vera  neyðarúrræði. Nema auðvitað þegar framtíðarplön eru gerð og flestir þurfa að taka húsnæðislán einhvern tímann á ævinni. En hvað er þá að öðru leyti að því að safna fyrir varningnum sem þig langar í? Dæmin sem ég nefni um auglýsingar á neyslulánum eru neysluhvetjandi og ýta fólki í skuldsetningu sem það hefði kannski ekki farið út í annars. Þó lánin séu auglýst sem ókeypis er einhver samt að græða. Það eru til aðferðir til að spara og auka ráðstöfunarfé. Það er gert með því að halda heimilisbókhald. Þannig er fengin yfirsýn yfir tekjur og gjöld heimilisins og gerð fjárhagsáætlun þannig að fólk getur sett sér markmið og safnað fyrir hlutunum. Hver nennir að vera enn að greiða fyrir sólarandaferðinni núna sem var farin sumarið 2012? Heimilisbókhald er lykillinn að bættum efnahag. Félagsmenn geta sótt heimilisbókhald á læstri síðu á heimasíðu Neytendasamtakanna ns.is.

Þuríður Hjartardóttir
Leiðari Neytendablaðsins 1.tbl.2014