Langar þig í kjúkling?

Miðvikudagur, 17. september 2014
Anne Maria Sparf

Kjúklingur er vinsæll matur á borðum landsmanna, enda ódýr og fljótlegt að elda hann. Nýlega hefur ímynd kjúklings þó beðið hnekki vegna ásakana um illa meðferð og óásættanlegar ræktunaraðferðir. Neytendablaðið tók saman helstu staðreyndir um kjúklingaframleiðslu hér á landi ásamt upplýsingum um reglugerð um velferð alifugla sem nú er í undirbúningi.

Iðnaðarvædd kjötframleiðsla með erlendu fóðri

Kjúklinganeysla Íslendinga hefur margfaldast á síðustu áratugum og er kjúklingur í dag söluhæsta kjöttegundin á Íslandi. Íslendingar neyta um 27 kg af kjúklingakjöti á mann árlega en heildarframleiðsla alifuglakjöts er um 7.000 tonn á ári.

Háir tollar og takmarkanir eru settar á innflutning kjúklings til að vernda íslenska framleiðslu, en raunin er sú að kjúklingabúin eru algjörlega háð erlendu fóðri og er framleiðslan því langt frá því að vera sjálfbær. Til að framleiða 1 kg af kjúklingakjöti þarf u.þ.b. 2,3 kg af fóðri en talið er að árleg notkun fóðurs til kjúklingaframleiðslu á Íslandi sé um 16.000 tonn. Alifuglaræktendur stefna að því að finna leiðir til að auka hlutfall innlends fóðurs á komandi árum, meðal annars með notkun íslensks byggs. Í dag er aðallega notaður maís, hveiti og sojamjöl.

Árið 2011 voru samtals 82 eldishús fyrir holdakjúkling á 27 búum með pláss fyrir 720.000 fugla. Á flestum búum er fjöldi fugla undir 20.000, en á sumum búum er fjöldi fugla allt að 50.000. Kjúklingaframleiðsla er því talsvert frábrugðin flestum öðrum búgreinum á Íslandi. Fjöldi dýra á búum er gríðarlegur og allt ferlið mjög tæknivætt. Hér er um að ræða iðnaðarframleiðslu fremur en landbúnað í hefðbundinni merkingu.

19 kjúklingar á fermetra

Í náttúrulegum aðstæðum geta hænsn lifað í nokkur ár. Hanar leiða hver sinn hóp af hænum en í hópum ræður náttúruleg goggunarröð, þar sem þeir veikustu gefa eftir. Fuglarnir leita sér matar í jarðveginum, en hænsn borða gjarnan gras, fræ, orma og skordýr.

Aðstæður kjúklinga á íslenskum kjúklingabúum eru órafjarri náttúrulegum aðstæðum. Að meðaltali lifir holdakjúklingur á Íslandi aðeins í 5 vikur áður en honum er slátrað. Fram að því lifa fuglarnir í gluggalausum skúrum án nokkurra möguleika til útiveru eða annarrar eðlislægrar hegðunar. Loftið er ammóníakmengað og veldur skaða á augum og öndunarfærum og fuglaskíturinn leiðir til sársaukafullra brunasára á fótum (dritbruni).

Vanlíðan kjúklinganna er óumflýjanleg afleiðing þess að allt of mörg dýr eru höfð saman í allt of litlu rými. Á íslenskum kjúklingabúum er leyfilegt að hafa 19 kjúklinga á hverjum fermetra gólfflatar, eða sem samsvaraði um 32kg/m2 þegar reglugerðin var sett 1995. Í dag stækka kjúklingar hins vegar miklu hraðar en áður, og 19 fullvaxnir kjúklingar samsvara nú um 39 kg/m2. Það ætti að vera öllum ljóst að ekki er hægt að tryggja fuglunum sæmilegar aðstæður í slíkum troðningi, fyrir utan það að erfitt er að skilja hvernig nokkrir fuglar geti yfirleitt lifað af í þessum aðstæðum. Lætin og þrengslin eru yfirþyrmandi og fuglinn því auðskiljanlega mjög stressaður. Þeir veikustu verða fyrir stöðugu aðkasti sterkari einstaklinga án nokkurra möguleika á að forða sér sökum plássleysis.

Ennfremur hafa nýlegar lýsingar fyrrverandi starfsmanna í kjúklingabúum varpað ljósi á hryllilegar aðferðir sem notaðar eru við tínslu kjúklinga á leið í slátrun. Fuglum er troðið allt of mörgum saman í litla kassa sem síðan er staflað hverjum ofan á annan án þess að gætt sé að því að vængir og fætur klemmist ekki. Tilkynningar frá eftirlitsdýralæknum á sláturhúsum staðfesta illa meðferð fuglanna við tínslu, enda eru mar og meiðsli á kjúklingum sem koma í sláturhús algeng. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur einnig bent á alvarlega annmarka við slátrun kjúklinga, einkum hvað varðar eftirlit dýralækna og þjálfun starfsmanna.

Annað sem má velta fyrir sér er sjálfur fuglinn, en í kjúklingaframleiðslu eru notaðir kynbættir fuglar sem vaxa ofurhratt. Þeir þjást oft af stoðkerfisvandamálum og geta varla staðið í lappirnar, auk þess sem óeðlilegur vöxturinn veldur álagi á hjarta og lungu. Óljóst er hvort þessar kynbættu skepnur gætu yfirhöfuð hagað sér eins og kjúklingar jafnvel við bestu aðstæður.

Afstaða kjúklingaframleiðenda

Þrátt fyrir háværar ásakanir um illa meðferð kjúklinga vekur athygli hve lítið hefur heyrst frá kjúklingabændum í umræðunni. Þeir hafa ekki svarað gagnrýninni beint en fullyrða að unnið sé samkvæmt öllum lögum og reglum sem gilda um starfsemina. Ennfremur vísa þeir gjarnan í þann árangur sem hefur náðst í baráttunni gegn salmónellu og kampýlóbakter og þá staðreynd að hér á landi eru sýklalyf nánast óþörf í kjúklingarækt. Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, segir: „Árangur íslenskra bænda í kjúklingaeldi er, eftir því sem ég best veit, einn sá besti sem um getur, þannig að tæpast getur aðbúnaður verið eins slæmur og talið er.” Hann bætir við: „Hagur kjúklingabænda felst í að búið sé vel að fuglunum frá fyrsta degi til þess síðasta og Félag kjúklingabænda styður ekki illa meðferð á dýrum, hvort sem um er að ræða kjúklinga eða önnur dýr.“

Það vekur athygli að kjúklingabændur vilja yfirleitt ekki leyfa heimsóknir á bú. Meðal annars hefur Velbú – samtök um velferð í búskap, ítrekað óskað eftir leyfi til að heimsækja kjúklingabú, en án árangurs. Auk þess hafði DV nýlega samband við kjúklingabændur með það að markmiði að sjá og taka myndir af kjúklingaeldi og fylgjast með þegar fuglar eru fluttir til slátrunar, en slík leyfi fengust ekki. Það ætti að vera sjálfsagt mál fyrir neytendur að fá að vita við hvernig aðstæður kjötið er framleitt.

Ný löggjöf tryggir ekki sæmilegar aðstæður

Í byrjun árs tóku gildi ný lög um velferð dýra, en markmið þeirra er m.a. að stuðla að því að dýr séu laus við ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma „í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur“. Auk þess er ný reglugerð um velferð alifugla nú í umsagnarferli, en samkvæmt drögunum er tilgangur hennar að „tryggja velferð og heilbrigði allra alifugla með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að alifuglar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur.“

Hér eru sett fram háleit markmið sem er gott og vel, en markmið ein og sér skila ekki árangri ef raunverulegar breytingar á aðbúnaði og lífsskilyrðum fuglanna eru ekki innleiddar um leið. Eins og fram hefur komið er troðningur og þrengsli helsta vandamálið og því ætti fyrsta skrefið að vera að takmarka fjölda kjúklinga á fermetra verulega til að stuðla að aukinni velferð þeirra.
Það er hins vegar ekki raunin. Samkvæmt drögum að áðurnefndri reglugerð verða þrengslin jafnvel enn meiri, því lagt er til að leyfilegur hámarksþéttleiki í eldishúsum verði allt að 42kg/m2 með sérstakri undanþágu en ef drögin verða samþykkt óbreytt munu starfandi kjúklingabú sjálfkrafa öðlast rétt til framleiðslu á 39 kg/m2.

Erfitt er að sjá hvernig fuglarnir eiga í þessum troðningi að „geta athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar o.s.frv. eftir því sem þeim er eðlilegt“ eins og lögin um dýravelferð kveða á um. Visindanefnd Evrópusambandsins um velferð dýra ályktaði árið 2000 að þéttleiki þarf að vera undir 25 kg/m2 til að koma í veg fyrir vanlíðan kjúklinga í eldishúsum. Nýja reglugerðin mun því klárlega brjóta gegn lögum um dýravelferð ef hún verður samþykkt óbreytt. Neytendasamtökin hafa sent inn umsögn um reglugerðina m.a. með þessum athugasemdum.

Betri skráningar og kröfur um þjálfun starfsmanna

Ef reglugerðin tekur gildi án frekari breytinga mun hún þó leiða af sér nokkrar raunverulegar úrbætur þrátt fyrir augljósa galla. Meðal annars verður sett á laggirnar sérstakt eftirlitskerfi til að vinna bug á dritbruna. Auknar kröfur um skráningar ættu auk þess að skila nákvæmari upplýsingum um affall kjúklinga, en samkvæmt drögunum að reglugerðinni eiga við slátrun hvers fuglahóps að liggja fyrir upplýsingar um samanlögð afföll á eldistímanum og í flutningi.

Með því að auka aðgengi fugla að undirburði (laust og þurrt efni sem molnar auðveldlega) er kjúklingum svo gert auðveldara að sinna eðlilegu atferli sínu, svo sem að gogga, krafsa og sandbaða sig. Einnig eru gerðar kröfur um þjálfun og hæfni starfsmanna á kjúklingabúum, en allir starfsmenn eiga að hljóta grunnþjálfun í þörfum, umönnun, réttri meðhöndlun og aflífun alifugla. Í fyrsta skipti eru settar fram reglur um handsömun og tínslu kjúklinga, með það að markmiði að þeim sé ekki valdið óþarfa hræðslu eða meiðslum. Meðal annars verður óheimilt að bera alifugla á höfði, hálsi eða vængjum auk þess sem starfsmenn við tínslu eiga að fá sérstaka fræðslu um réttu handtökin. Hins vegar eru ekki lagðar fram takmarkanir á fjölda fugla í kössum aðrar en þær að hann á að miðast við stærð fugla. Notkun vélbúnaðar til tínslu yrði einnig leyfileg.

Gæði og velferð kjúklinga fer saman

Með auknum kröfum um þjálfun, skráningar og reglur um handsömun og tínslu virðist nýja reglugerðin svara þeirri gagnrýni um illa meðferð kjúklinga sem hefur komið fram að undanförnu og því ber að fagna. Markmiðinu um velferð dýranna verður hins vegar ekki náð ef fjöldi kjúklinga á fermetra verður ekki takmarkaður verulega.

Mögulega hafa þrengslin á kjúklingabúum ekki fengið jafn mikla athygli og hrottalegar aðferðir við tínslu, en auk þess er líklegt að kjúklingaframleiðendur myndu leggjast hart gegn auknum kröfum um pláss, enda myndi slíkt leiða til kostnaðarauka.

Áherslan í kjúklingarækt hér á landi hefur hingað til verið eingöngu á magn og lágt verð í stað gæða og bragðs, enda telja þeir sem hafa smakkað erlendan velferðarkjúkling oft að íslenski verksmiðjukjúklingurinn bragðist eins og gúmmíönd. Fyrir löngu er búið að sanna að stressuð dýr skila af sér verra kjöti og mætti gjarnan hafa þessa staðreynd til hliðsjónar við kjúklingarækt hér á landi. Sem dæmi má nefna að þegar árið 2008 var hlutfall frjálsra kjúklinga af heildarsölunni í Frakklandi yfir 20%, en þar hafa gæðakröfur í raun vegið hærra en dýraverndunarsjónarmið, enda eru

Frakkar þekktir matgæðingar.

Eflaust eru til neytendur hér á landi sem eru tilbúnir að greiða meira fyrir kjúkling sem bragðast betur og er ræktaður við sæmilegar aðstæður, en íslenskur velferðarkjúklingur verður sem betur fer væntanlega fáanlegur í verslunum í haust. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að langflestir kjúklingar hér á landi verða áfram ræktaðir við óásættanlegar aðstæður.

Kjúklingaframleiðendur geta ekki falið sig á bak við þagnarmúr mikið lengur, því kröfur neytenda um úrbætur í alifuglarækt eiga eftir að verða enn háværari eftir því sem tíminn líður. Í staðinn ættu kjúklingaframleiðendur að sýna jákvætt viðhorf, taka höndum saman og hefja samstarf við dýralækna og dýraverndunarsinna með það að markmiði að setja siðareglur fyrir kjúklingarækt . Ábyrgð stjórnvalda er hins vegar enn meiri en ekki lítur út fyrir að velferð kjúklinga verði tryggð með nýjum reglum eins og drögin liggja fyrir. Ábyrgð neytenda er þó líka mikil: Getum við leyft okkur að kaupa kjúkling sem ræktaður er við þessar aðstæður?

Anne Maria Sparf

Heimildir

 • Atvinnuvegaráðuneytið:
  • Drög að reglugerð um velferð alifugla, 6. Maí 2014
  • Efling alifuglaræktunar á Íslandi. Starfshópur á vegum Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytis. Apríl 2011
  • Lög um velferð dýra, nr. 558/2013
  • Reglugerð nr. 251/1995 um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum
 • DV. Kjúklingabændur neita DV um heimsókn. 15. Janúar 2014
 • EFTA. Country profile Iceland. Competent authority control systems in the areas of food and feed safety, animal health and animal welfare. April 2014. Case no 73850
 • Hagstofa Íslands. Árleg kjötneysla á íbúa frá 1983
 • Matvælastofnun. Starfsskýrslur 2011 og 2012
 • Velbú – samtök um velferð í búskap

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 2.tbl. 2015