Leiðari - Á undan sinni samtíð

mánudagur, 1. desember 2008
Brynhildur Pétursdóttir

 

Stundum finnst mér baráttumál Neytendasamtakanna fá heldur litla athygli. Ég er auðvitað ekki alveg hlutlaus en ég held að það væri til mikilla bóta ef mark væri tekið á kröfum samtakanna um leið og þær koma fram í stað þess að ár eða áratugir líði áður en menn ranka við sér. Þegar litið er til baka sést að Neytendasamtökin eru oft langt á undan sinni samtíð. Ég nefni hér tvö dæmi um framsýni samtakanna en þau eru auðvitað miklu fleiri.

Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að vörur og þjónusta sé vel verðmerkt. Um miðja síðustu öld var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Aðalfundur Neytendasamtakanna 27. okt. 1956 lýsir ánægju sinni yfir því að verðmerkingar verslunarvarnings hafa verið gerðar að skyldu, þar sem aðrar leiðir báru ekki tilætlaðan árangur. Álítur fundurinn að hér sé um merkilegan hlut að ræða, sem horfir til framfara bæði fyrir seljendur og kaupendur, og skorar fundurinn á hlutaðeigandi yfirvöld að hafa ríkt eftirlit með framkvæmd þessa máls nú og framvegis.“

Stutt er síðan Neytendastofa, opinber eftirlitsstofnun, hóf eftirlit með verðmerkingum en eins og allir vita er ástandi verðmerkinga víða mjög ábótavant. Við fögnum því auðvitað að loksins sé kominn skriður á málið en hefði ekki verið gæfulegra að hlusta strax á kröfur samtakanna?

Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir aukinni neytendafræðslu og málið var m.a. til umræðu á þingi samtakanna í haust. Neytendafræðsla var félagsmönnum einnig hugleikin fyrir 20 árum en þá var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Í margflóknu neyslusamfélagi sem við búum í er mikilvægt að gera hina ungu neytendur og jafnframt neytendur framtíðarinnar að gagnrýnum og meðvituðum neytendum. Þetta er nauðsynlegt í ljósi þeirrar hröðu þróunar sem átt hefur sér stað í t.d. neysluvenjum, lifnaðarháttum og fjölmiðlun, - með sífellt auknu magni auglýsinga sem stöðugt verða áleitnari gagnvart neytendum.
Neytendafræðsla hefur almennt verið hornreka í skólakerfinu og skorar þingið á menntamálaráðherra að nú þegar verði snúið við blaðinu. Neytendasamtökin lýsa sig tilbúin til samvinnu við að tryggja framgang þessa máls.“

Einn mikilvægur þáttur í neytendafræðslu er kennsla í einstaklingsfjármálum og ekki er vanþörf á slíkri kennslu hér á landi. Nú hefur viðskiptaráðherra sett á fót nefnd sem á að kanna stöðu fjármálalæsis á Íslandi og koma með tillögur til úrbóta. Betra er seint en aldrei segjum við bara.

Að gefnu tilefni mælist ég til þess að ráðamenn leggi ætíð við hlustir þegar Neytendasamtökin hefja upp raust sína.

Brynhildur Pétursdóttir
Neytendablaðið des. 2008