Leiðari - Ábyrgð foreldra

Fimmtudagur, 1. desember 2005
Brynhildur Pétursdóttir

 

Þegar seljendur/auglýsendur eru gagnrýndir fyrir að ganga of langt í markaðssetningu gagnvart börnum eru þeir fljótir að benda á ábyrgð foreldra. Mér finnst fullmikil einföldun að halda því fram að foreldrar beri einir ábyrgð á uppeldi barna sinna. Við búum jú í samfélagi.  Foreldrar reyna auðvitað að sinna uppeldishlutverki sínu eftir bestu getu en oft eru skilaboð seljenda fullkomlega á skjön við áherslur foreldranna. Uppeldi í dag tekur á sig ýmsar myndir. Tökum dæmi:

Við þurfum að útskýra fyrir börnum okkar að tónlistarmyndböndin sem leikin eru í sjónvarpinu lýsi ekki raunveruleikanum. Söngkonur geti víst náð langt án þess að fækka fötum og dilla rassinum.

Við þurfum að fylgjast með því hvort börnin okkar séu að spila bannaða tölvuleiki eða horfa á bannaðar myndir sem þó eru gjarnan auglýstar með ungan markhóp í huga. Við þurfum líka að vera í góðu sambandi við aðra foreldra og athuga hvaða tölvuleikir og myndir leynast á heimilum þeirra.

Við þurfum að útskýra fyrir börnum okkar að fullyrðingin um hollt eða hollara súkkulaðimorgunkorn verði að teljast nokkuð hæpin og kenna þeim að hafragrautur sé hollur og góður morgunmatur þótt ekki fylgi neitt spennandi dót með í pakkanum.

Við þurfum að benda þeim á að það sé frekar ólíklegt að fjölskyldan vinni skíðaferð til Austurríkis þótt hún kaupi kexpakka og taki þátt í „spennandi leik“.
Það sama gildir um hina árlegu gostappasöfnun, sem oft snýst upp í andstæðu sína þegar birgðir seljenda þrýtur áður en leikurinn er hálfnaður.

Við þurfum að útskýra að unglingarnir í sjónvarpinu séu í raun að drekka léttöl en ekki bjór og auðvitað megi ekki henda húsgögnum út um gluggann þótt léttölið virðist vissulega koma fólki í stuð.

Þá verðum við foreldrar að vakta börnin þegar þau sitja við sjónvarpið því það er aldrei að vita hvenær atriðum úr bönnuðum myndum er slætt inn í dagskrána (sbr. Örninn). Þá er ekki óhætt að horfa á fréttatímann öðruvísi en með aðra hönd á fjarstýringunni þar sem myndir af lemstruðum búkum og deyjandi fólki  eru algengar og ómerkilegustu fréttir af nektarbúllum virðast alltaf gefa tilefni til að sýna svo sem einn súludans. Ég vildi bara óska að ég hefði verið sneggri til þegar auglýsingin frá Umferðarstofu birtist öllum að óvörum.  En barnið var dottið niður af svölunum áður en ég náði  að setja fingurinn á fjarstýringuna. Þar brást sem ég sem foreldri en maður getur víst ekki verið fullkominn.

Brynhildur Pétursdóttir
Neytendablaðið des. 2005