Leiðari - Börn í neyslusamfélagi

Fimmtudagur, 1. september 2005
Brynhildur Pétursdóttir

 

Af og til sprettur upp umræða um auglýsingaáreiti og markaðssetningu sem beinist að börnum. Það er þá helst ef einhver seljandinn fer yfir strikið og fólki ofbýður. Miðað við mikilvægi málsins fer þó furðu lítið fyrir þessari umræðu. Við teljum kannski að auglýsingaáreitið sé óhjákvæmilegur fylgifiskur nútímasamfélags og ekkert við það að athuga.

Börn hafa aldrei átt jafn mikið af dóti og í dag. Þau hafa aldrei horft eins mikið á sjónvarp, séð jafn margar auglýsingar eða suðað jafn mikið í foreldrum sínum. Þau hafa, líkt og forledrarnir, aldrei verið jafn miklir neytendur.

Í bókinni Born to buy fjallar hagfræðingurinn Juliet B. Schor um neyslusamfélagið og neikvæð áhrif þess á börn. Hún kemst að því í rannsóknum sínum að því meiri neytendur sem börn eru því meiri líkur eru á vandamálum tengdum hegðun, kvíða og þunglyndi.

Markaðsmennska í Bandaríkjunum hefur náð áður óþekktum hæðum. Lýsingar á aðferðum  sölumanna eru lyginni líkastar og vonandi munu uppátækin aldrei festast í sessi hér á landi. En þar sem við Íslendingar verðum að teljast til helstu neylsuþjóða telur Neytendablaðið að þessi umræða eigi fullan rétt á sér.

Þjóðfélag þar sem auglýsingar og sölumennska fylla hvert rúm er ekki eftirsóknarvert. Í þannig þjóðfélagi er sífellt verið að minna fólk á hvað það á ekki. Það er því ekkert skrýtið að velferð barna hangi saman með neyslu þeirra og því áreiti sem þau verða fyrir. Þau læra varla að vera glöð í eigin skinni ef þau eru sífellt minnt á allt sem þau „ættu að eiga“ en eiga ekki.

Brynhildur Pétursdóttir
Neytendablaðið sept 2005