Leiðari - Lævís markaðssetning eða óháðar upplýsingar?

Fimmtudagur, 1. júní 2006
Brynhildur Pétursdóttir

 

Sífellt koma ný lyf á markað og lyfjafyrirtækin leita allra leiða við að koma þeim á framfæri. Helstu markhóparnir eru læknar og heilbrigðisstéttir en það færist í vöxt að markaðssetningunni sé beint að almenningi, þ.e.a.s. fólki sem er hugsanlega haldið einhverjum kvillum en veit bara ekki af því – ennþá.

Fyrir nokkru gagnrýndu Neytendasamtökin auglýsingar um ristruflanir. Samtökin hafa reyndar engar sérstakar áhyggjur af ristruflunum sem slíkum en það eru aðferðir seljenda sem gefa tilefni til gagnrýni. Það færist nefnilega í vöxt að sjúkdómar ýmiss konar séu markaðssettir í staðinn fyrir lyfin sjálf og sjúkdómshugtök teygð til hins ýtrasta. Fyrirtækin láta sitt ekki eftir liggja í fræðslu og kynningu fyrir almenning og í dag er hægt að lesa um ristruflanir á tveimur íslenskum heimasíðum sem lyfjafyrirtæki bera ábyrgð á. Önnur síðan er klárlega ólögleg því þar er verið að auglýsa lyfseðilskyld lyf. Síðan var þó enn í fullu fjöri þegar þetta blað fór í prentun sem sýnir að eftirlitið virkar ekki sem skyldi.

Hvorug heimasíðan er vel merkt og erfitt er að sjá hvaða fyrirtæki, samtök eða hópur lætur sér svona annt um þetta tiltekna mál. Það er hins vegar mikilvægt að fólk átti sig á því hvort upplýsingarnar komi frá lyfjafyrirtækjum, sem vilja gjarnan sannfæra alla karla um að þeir geti gert betur, eða frá óháðum aðila eins og t.d. landlækni. Ég held að það sé engin tilviljun í þessu tilfelli hversu lítið fer fyrir nöfnum fyrirtækjanna á heimasíðum og fyrir hvað þau standa.

Það er alvarleg þróun ef almenningur fær í auknum mæli upplýsingar og fræðslu um sjúkdóma frá lyfjafyrirtækjunum sjálfum. Slíkar upplýsingar geta aldrei orðið hlutlausar þar sem lyfjafyrirtækin eiga hagsmuna að gæta. Markmið þeirra er fyrst og fremst að selja meira af lyfjum og því munu þau aldrei leggja höfuðáherslu á forvarnir né gera rannsóknir sem miða að því að kanna hvort breytingar á lífsstíl geti í einhverjum tilfellum gert lyfjagjöf óþarfa.

Sú staðreynd að lyfjaneysla eykst ár frá ári hlýtur að kalla á breytt viðhorf. Það má t.d. spyrja hvort það sé ekki löngu kominn tími til að læknar ávísi hreyfingu í stað lyfja, ef líklegt er að breyttur lífstíll hafi sömu eða jafnvel betri áhrif en lyfjagjöf.

Brynhildur Pétursdóttir
Neytendablaðið júní 2006