Leiðari - Tími hinnar hagsýnu húsmóður

Miðvikudagur, 1. október 2008
Brynhildur Pétursdóttir

 

Enginn gat gert sér í hugarlund þær hremmingar sem dunið hafa yfir okkur að undanförnu. Ekki einu sinni greiningardeildir bankanna sem í áravís hafa spáð samdrætti fram á mitt næsta ár, lækkun verðbólgu á þriðja ársfjórðungi og auknum hagvexti á öðrum ársfjórðungi eftir þó nokkurn samdrátt í einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi þar næsta árs.

Þegar við náum aftur áttum munum við vonandi gera meiri kröfur til þeirra sem stjórna, hvort sem það er á einkamarkaði eða hjá hinu opinbera. Frjálshyggjan er svo sannarlega engin töfralausn – það blasir við – en það er ríkisrekstur ekki heldur. Mestu máli skiptir að hæft fólk sitji við stjórnvölinn og að við höldum því við efnið.

Við þurfum hæft fólk til að stjórna landinu. Ég tala nú ekki um þegar ríkið er aftur farið að reka banka og verða fyrirferðarmikið á markaði. Meðan allt lék í lyndi gerðum við ekki miklar kröfur til frambjóðenda og þeir komust upp með alls kyns innantómt blaður. Ég man ekki betur en að hver einasti þingframbjóðandi hafi fyrir síðustu kosningar lofað að tryggja hér stöðugleikann. Það gekk nú aldeilis vel eða þannig.

Þá er umhugsunarefni að á meðan allt sigldi hér hægt og örugglega í kaf skyldu ráðamenn eyða töluverðu púðri og peningum í framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hverjum er ekki sama hvort við eigum sæti í öryggisráðinu eða ekki? Hefði ekki verið nær að nýta tímann og fjármuni í að reyna að leysa úr þeim erfiðleikum sem hafa blasað við okkur um allnokkurt skeið? Ég vona að við verðum gagnrýnni og kröfuharðari þegar öldurnar lægir og það á við gagnvart bæði hinu opinbera og einkageiranum. Það gengur ekki að Vilhjálmur Bjarnason spyrji einn gagnrýnna spurninga.

Ég vona líka að konur verði virkari þátttakendur hvort sem er í stjórnmálum eða í viðskiptalífinu í framtíðinni. Eins og alkunna er eiga örfáar konur sæti í stjórnum fyrirtækja. Að ætla að setja kynjakvóta í lög hefur þó yfirleitt þótt mikil forræðishyggja. Hæfasta fólkið skal valið óháð kyni og það hittist bara þannig á að hæfasta fólkið er nær eingöngu karlmenn á besta aldri. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að við værum ekki í sömu sporum í dag ef konur hefðu skipað sama sess og karlmenn í viðskiptalífinu og þá á ég við um heim allan. Uppgangurinn hefði örugglega ekki verið eins mikill en lendingin hefði að sama skapi verið mýkri. Við hljótum að spyrja hvort ekki sé kominn tími á að setja það hreinlega í lög að hagsýnar húsmæður taki sæti í stjórnum fyrirtækja.

Brynhildur Pétursdóttir
Neytendablaðið október 2008