Lífrænt sækir fram

mánudagur, 3. febrúar 2014
Anne Maria Sparf

 

Hvað gerir lífrænt svo eftirsóknarvert? Hverjar eru horfur lífrænnar ræktunar hérlendis?

Lífræn matvæli njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og erlendis. Eftirspurnin eykst hraðar en framboðið ræður við og gott verð fæst fyrir lífrænar afurðir. Árið 2010 var lífræni markaðurinn á heimsvísu um 44,5 milljarðar evra sem samsvarar 7.300 milljörðum króna. Land í lífrænni ræktun meira en þrefaldaðist árin 2000-2010 (úr 11 í 37 milljónir hektara). Matvæla- og  landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna styður lífræna ræktun umfram aðrar aðferðir í baráttunni við að brauðfæða heiminn. Evrópusambandið hefur sett fram markmið um að 20% af allri landbúnaðarframleiðslu árið 2020 verði lífræn.

Lífrænt í hnotskurn
Lífræn ræktun byggir á alþjóðlegum stöðlum um lífrænar aðferðir. Í lífrænni ræktun eru sáðvara, áburður og varnarefni af náttúrulegum uppruna; lífrænn úrgangur er nýttur í safnhaugagerð og skiptiræktun er beitt í stað síræktunar til að auka frjósemi jarðvegs og fyrirbyggja efnaskort og sjúkdóma; búfé er fóðrað á lífrænum efnum og strangar kröfur gilda um góðan aðbúnað þess og velferð. Notkun á tilbúnum áburði, skordýraeitri, hormónum og erfðabreyttum efnum er bönnuð. Í lífrænni búfjárrækt er sérstök áhersla lögð á velferð og aðbúnað sem fyrirbyggja sjúkdóma, og á að beita náttúrulyfjum ef þörf krefur. Notkun hefðbundinna lyfja er háð ströngum skilyrðum og aðeins að ráði dýralæknis ef aðrir kostir duga ekki til að tryggja heilsu og velferð dýranna. Einungis náttúrulegar varnir eru notaðar gegn illgresi og skordýrum. Ekki er leyfilegt að geisla afurðirnar. Markaðssetning lífrænna afurða er einungis leyfileg ef faggild vottunarstofa hefur reglubundið eftirlit með starfseminni og vottar hana í kjölfar árlegra úttekta.

Lífrænar vörur eru oftast þó nokkuð dýrari en venjulegar vörur og margir telja það merki um að lífræn ræktun sé ekki samkeppnishæf. Í rauninni byggist verðmunurinn á röngum forsendum, meðal annars vegna þeirra niðurgreiðslna á áburði og eitri sem ólífrænir bændur fá, svo ekki sé talað um kostnaðinn vegna mengunar sem fylgir notkun efnanna og greiðist af samfélaginu í heild en sést ekki í kaupverðinu.

Lífrænt er hollara
Lífræn matvæli eru laus við eiturefni, sýklalyf og hormóna og hafa ekki verið geisluð eða meðhöndluð með vafasömum efnum. Margvíslegar rannsóknir staðfesta einnig aðra heilsufarslega kosti lífrænna afurða. Þær hafa nefnilega hærra næringargildi vegna þess hve mikil áhersla er lögð á heilbrigðan jarðveg í lífrænni ræktun.

Hlutfall vítamína og steinefna getur jafnframt verið talsvert hærra í lífrænum afurðum. Sem dæmi má nefna samantekt  á vegum The Soil Association í Bretlandi  þar sem farið var yfir niðurstöður úr 400 rannsóknum, en þar kom fram að hlutfall C-vítamíns, steinefna og snefilefna á borð við kalsíum, magnesíum, járn og króm var marktækt hærra í lífrænum afurðum. Evrópsk rannsókn frá árinu 2007 sýndi einnig fram á að lífræn mjólk inniheldur 50-80% meira af næringarefnum en venjuleg mjólk og bresk rannsókn ályktaði að lífræn mjólk innihéldi 68% meira Omega-3 en venjuleg mjólk. Þá getur hlutfall andoxunarefna í lífrænt ræktuðu grænmeti og ávöxtum verið allt að 50% hærra en í hefðbundinni ræktun.

Þeir sem vilja efla heilsu sína ættu því að leggja sér sem mest af lífrænum mat til munns, enda kemur alltaf betur og betur í ljós að tilbúin bætiefni skila ekki sama árangri og næringarefni í sínu náttúrulega formi í matvælum. Auk þess fullyrða flestir sem kjósa lífrænt að bragðgæðin í slíkum afurðum séu mun meiri og velja lífrænt jafnvel eingöngu þess vegna!

Lífrænt stuðlar að fæðuöryggi og bætir afkomu bænda
Margir halda því fram að lífræn ræktun geti ekki brauðfætt heiminn. Niðurstöður úr nýjustu rannsóknum gefa þó annað í skyn. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gert viðamiklar rannsóknir á áhrifum lífrænnar ræktunar á heimsvísu og hefur í kjölfarið ákveðið að mæla með lífrænni ræktun umfram aðrar aðferðir í landbúnaði.

FAO ályktar að fæðuöryggi sé tryggt mun betur með lífrænni ræktun, einkum í þróunarlöndum, því rannsóknir hafa sýnt að uppskera á sumum svæðum getur allt að tvö- til þrefaldast við að breyta yfir í lífrænar aðferðir. Lífræn ræktun stuðlar auk þess að bættu aðgengi að mat, betri næringu og hreinna umhverfi og styrkir einnig jafnrétti og sjálfstæði bænda, því bændur verða óháðir alþjóðlegum fyrirtækjum og þurfa ekki að skuldsetja sig vegna innkaupa á dýrum aðföngum svo sem fræjum, áburði og eiturefnum.

Rannsóknir á lífrænni ræktun í iðnaðarlöndum staðfesta einnig kosti lífrænnar ræktunar. Rodale-stofnunin í Bandaríkjunum hefur borið lífræna ræktun saman við hefðbundinn landbúnað í yfir 30 ár og niðurstöðurnar eru lífrænni ræktun mjög í hag, bæði hvað varðar afkomu bænda og heildarumhverfisáhrifin. Lífræn ræktun skapar fleiri störf, meiri hagnað og betra umhverfi. Uppskeran hefur reynst jafnmikil eða meiri en í hefðbundinni ræktun og plöntur í lífrænni ræktun þola m.a. þurrkatíð betur. Ræktunin er mun umhverfisvænni en hefðbundin framleiðsla, þar sem engin eiturefni eru notuð og ræktunin byggir upp jarðveginn auk þess sem orkunotkunin og losun gróðurhúsalofttegunda er mun minni. Það sem er þó kannski hvað athyglisverðast er að afkoma bænda í lífrænum landbúnaði er mun betri en annarra, m.a. vegna hærra afurðaverðs og lægri framleiðslukostnaðar.

15% lífrænt á Íslandi 2020?
Framgangur lífrænnar ræktunar hér á landi hefur ekki fylgt þróuninni á heimsvísu. Eftirspurnin eftir lífrænum vörum er vissulega til staðar og fer sívaxandi, meðal annars vegna áhuga landsmanna á heilsueflingu og aukinnar meðvitundar um skaðleg áhrif ýmissa efnaleifa í hefðbundnum afurðum. Einnig er fyrirséð að eftirspurnin muni aukast enn fremur þegar æ fleiri fyrirtæki og stofnanir innleiða stefnu um vistvæn innkaup. Innflutningur lífrænna matvæla fer vaxandi, þótt hann hafi minnkað tímabundið eftir hrunið. Samtals er áætlað að um 2% af öllum matvælum sem seld eru hér á landi séu lífræn.

Eins og staðan er annar framboð engan veginn vaxandi eftirspurn, enda er einungis 1% af íslenskri landbúnaðarframleiðslu lífrænt vottuð, samanborið við 5-10% á hinum Norðurlöndunum. Aðallega er um að ræða grænmeti á borð við tómata, gulrætur, kartöflur, gúrkur, kryddjurtir og álíka, en auk þess fæst meðal annars lífrænt ræktað bygg. Úrvalið af lífrænu kjöti og eggjum er lítið sem ekkert. Lífrænar mjólkurvörur hafa sótt fram á undanförnum árum en urðu nýlega fyrir áfalli þegar eitt bú missti tímabundið vottunina (býlin sem framleiða lífræna mjólk eru því aðeins tvö eins og er). Framboð lífrænna mjólkurvara er langt frá því að anna eftirspurn og lengi hefur verið vitað að fleiri framleiðendur þurfi að bætast við til að anna vaxandi eftirspurn.

Samtök lífrænna neytenda hafa hvatt yfirvöld til að stuðla að lífrænni ræktun og hafa gefið út stefnu um lífræna framleiðsluhætti á Íslandi. Í stefnunni koma fram margvísleg rök fyrir lífrænni ræktun og þeim tækifærum sem felast í upptöku slíkra aðferða í meiri mæli hér á landi. Meðal annars er nefnd nýsköpun, atvinnumál og byggðaþróun, en ræktun og framleiðsla lífrænna afurða styrkir landsbyggðina og rannsóknir skapa ný tækifæri í vöruþróun eins og framganga lífrænna snyrtivara sýnir.

Svipaðar ályktanir komu fram í þingsályktunartillögu um mótun framtíðarstefnu í lífrænum landbúnaði sem samþykkt var einróma á Alþingi árið 2010. Lífræn ræktun styrkir fæðuöryggi og sjálfstæði Íslands með því að lágmarka þörfina fyrir innflutning á meðal annars kjarnfóðri og áburði sem hækka stöðugt í verði með meðfylgjandi verðhækkunum á afurðum. Afkoma bænda styrkist eftir því sem verð sem fæst fyrir lífrænar vörur hækkar. Með stöðugri hækkun á verði hefðbundinna afurða mun verðmunurinn milli hefðbundinna og lífrænna afurða minnka og samkeppnishæfni lífrænna afurða batna sem því nemur. Einnig er talið að ný tækifæri skapist vegna hlýnunar loftslags sem gerir ræktun nýrra korn- og grænmetistegunda mögulega hér á landi.

Í þingsályktunartillögunni hvetur Alþingi bændur til að svara aukinni eftirspurn eftir lífrænum matvælum hér á landi með innlendri framleiðslu og í þeim efnum hefur verið sett fram markmið um að 15% íslenskrar landbúnaðarframleiðslu verði lífræn árið 2020.

Skortur á stuðningi stjórnvalda
En hvað kemur í veg fyrir frekari útbreiðslu lífrænna aðferða? Þegar það er skoðað kemur í ljós að skorti á stuðningi frá yfirvöldum er frekar um að kenna en landfræðilegum eða tæknilegum hindrunum. Breytingin úr hefðbundnum aðferðum yfir í lífrænar getur tekið allt að fimm árum, en á meðan minnkar uppskeran og þar með afkoma bænda tímabundið. Án opinberra styrkja reynist breytingin flestum of kostnaðarsöm. Þar til fyrir nokkrum árum voru slíkir styrkir ekki í boði hér á landi, en styrkirnir eru taldir helsta ástæðan fyrir góðum árangri í nágrannalöndum okkar.

Árið 2010 var loks sett upp styrktarkerfi til fimm ára fyrir bændur sem vilja taka upp lífræna búskaparhætti. Árlegt heildarframlag hins opinbera í verkefnið hefur verið 3,5 milljónir króna undanfarin þrjú ár (við það bætist reyndar um 1,5 milljón króna vegna sauðfjársamninga, enda eru flestir í aðlögunarferlinu sauðfjárbændur). Ekki ætti að koma neinum á óvart að reynslan hefur sýnt að sú fjárhæð er langt frá því að uppfylla þörfina. Fyrsta árið (2011) náði fjármagnið að greiða 60% af því sem bændur í aðlögun áttu að fá skv. kerfinu, en árið 2012 og 2013 hefur upphæðin einungis dugað fyrir 30% af því sem bændurnir hefðu átt að fá. Einungis fimm bú eru í aðlögunarferlinu eins og er. Fleiri bændur hafa áhuga á að hefja lífrænan búskap en geta ekki sótt um styrki vegna fjárskorts verkefnisins. Til samanburðar má nefna að nýliðar í mjólkurframleiðslu geta sótt um framlag upp að 5 milljónum kr. fyrir hvern einstakling við upphaf búskapar. Heildarútgjöld hins opinbera til landbúnaðarmála voru 16,7 milljarðar króna árið 2012. Framlög til lífrænnar ræktunar eru því um 0,02% af heildarframlögum til landbúnaðar.

Af þessum tölum má álykta að lífræn ræktun njóti ekki raunverulegs stuðnings frá stjórnvöldum þrátt fyrir háleit markmið um eflingu lífrænnar ræktunar. Ekki er vitað hvort eða hversu mikið aðlögunarstyrktarkerfið fær í fjárlögum næstu ára. Ljóst er hins vegar að framboð innlendra lífrænna afurða mun ekki mæta vaxandi eftirspurn á næstu árum.

Vistvænt er ekki lífrænt!
Hugtakið „vistvæn landbúnaðarafurð“ er mikið notuð hérlendis. Til er sérstök reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu hér á landi og á grunni nafnsins mætti ætla að hér væri um mjög umhverfisvæna ræktunaraðferð að ræða. Margir halda því jafnvel fram að „vistvænt sé nánast eins og lífrænt“. Svo er hins vegar alls ekki.
Vistvænn landbúnaður er í raun hefðbundinn gæðastýrður landbúnaður þar sem leyfð er notkun eiturefna, lyfja og tilbúins áburðar svo lengi sem notkun þeirra er skráð og helst undir ákveðnum mörkum. Hér er því um tvær mjög ólíkar framleiðsluaðferðir að ræða.

Árið 2004 létu Neytendasamtökin framkvæma könnun um viðhorf Íslendinga til vistvænna og lífrænna afurða. Niðurstöðurnar gáfu skýrt til kynna að meirihluti neytenda gerir sér ekki grein fyrir muninum á vistvænum og lífrænum afurðum og veit ekki hvað stendur á bak við þessi orð. Því er ljóst að merkingin „vistvæn landbúnaðarafurð” er villandi og ástæða til að endurskoða heitið á þessari annars ágætu framleiðsluaðferð til að verja neytendur og útiloka markaðssetningu hefðbundinna afurða sem umhverfisvænna.

Tæknilegar áskoranir og skortur á menntun
Helsta tæknilega hindrunin fyrir frekari útbreiðslu lífrænna búskaparhátta er skortur á áburði sem uppfyllir kröfur um lífræna ræktun og kemur í stað tilbúins áburðar. Nú er sveppamassi talsvert notaður í lífrænni garðyrkju hérlendis. Hann uppfyllir þó ekki kröfur um lífræna ræktun, en í honum er hænsnaskítur úr hefðbundinni ræktun. Massinn hefur þó fengið undanþágu frá kröfunum undanfarin ár vegna skorts á vottuðum áburði. Vonir standa til um að úrgangur frá fiskvinnslu geti komið í stað sveppamassans, en garðyrkjubændur hafa efasemdir um það.

Með aukinni menntun mætti einnig auka áhuga fyrir lífrænni ræktun. Eins og er leggur Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ) ekki sérstaka áherslu á kennslu um lífræna ræktun, en býður þó uppá nokkra áfanga og námskeið um lífrænar aðferðir á starfsmenntunarstigi og í endurmenntun. Á háskólastigi er einungis farið yfir lífrænar framleiðsluaðferðir í búvísindum sem hluta af öðrum áfanga. Þar af leiðandi er ekki hægt að sérhæfa sig í lífrænum ræktunaraðferðum á háskólastigi hér á landi sem endurspeglast meðal annars í færri rannsóknum á lífrænni ræktun.

Við þetta má bæta að lífræn ræktun nýtur afar lítils stuðnings meðal stjórnsýslu landbúnaðarmála. Efla þyrfti vægi lífrænna aðferða innan landbúnaðargeirans, en nú er einungis fjórðungi eins stöðugildis ætlað að sinna þessum málaflokki hjá Bændasamtökum Íslands.

Lífræn bylting
Lífræn ræktun hefur slitið barnsskónum og sannað gildi sitt út um allan heim. Tala má um byltingu í útbreiðslu lífrænna aðferða undanfarin ár. Enginn getur lengur efast um að aðferðin er mun umhverfisvænni og sjálfbærari en hefðbundin ræktun. Auk þess hafa rannsóknir sannað hátt næringargildi lífrænna afurða og jákvæð áhrif á afkomu og lífsskilyrði bænda sem og vistkerfi. Lífrænt er einfaldlega betra.

Allmargir íslenskir neytendur hafa einnig komist að sömu niðurstöðu og kjósa lífrænt umfram annað. Framboð hér á landi er þó lítið og takmarkað eins og er. Vaxandi eftirspurn hefur aðallega verið sinnt með innflutningi og ekki lítur út fyrir að það breytist á næstu árum ef stjórnvöld skuldbinda sig ekki til að uppfylla markmið um eflingu lífrænnar ræktunar með auknum fjárframlögum. Við getum eflaust gert betur ef viljinn er til staðar.

75% lífrænt í mötuneytum Kaupmannahafnar

Danir eru þekktir fyrir að kunna að meta góðan mat en fæstir vita að um 75% af matnum í eldhúsum og mötuneytum Kaupmannahafnarborgar eru lífræn. Þetta er án efa heimsmet, því borgin afgreiðir um 60.000 máltíðir daglega úr 900 eldhúsum; í leikskólum og skólum og á vinnustöðum og elliheimilum. Hvernig hafa Danirnir náð þessum frábæra árangri og af hverju var ákveðið að fara þessa leið

Árið 2007 hrinti Kaupmannahafnarborg í framkvæmd áætlun með það að markmiði að verða umhverfisvænsta höfuðborg heimsins 2015. Það felur meðal annars í sér bætt loftgæði, minni úrgang og umhverfisvænni ferðamáta í borginni, en auk þess ákvað borgin að setja metnaðarfull markmið til að lágmarka umhverfisáhrif eldhúsa og mötuneyta í borginni. Leiðin sem varð fyrir valinu til að ná markmiðinu var lífrænn matur. Hluti af verkefninu felst í að auka gæði máltíða almennt, en þar er meðal annars lögð áhersla á ferskleika afurða, góðar matarvenjur og þægilegt umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á mat barna og aldraðra, en Danir líta á það sem sjálfsagt mál að bjóða þeim einungis það besta.

Í lok ársins 2011 var markmiðinu um 75% lífrænt náð og mörg mötuneyti komin jafnvel lengra. Metnaðargjarnir Danir ætla þó ekki að láta þetta duga, því endanlegt markmið er að 90% af matnum í mötuneytum Kaupmannahafnarborgar verði lífræn í lok ársins 2015! Danska ríkisstjórnin hefur einnig sett sér það markmið að um 60% matar í mötuneytum um allt land verði lífræn í lok ársins 2020.
Helsta ástæðan fyrir þessum hreint út sagt ótrúlega árangri er tvíþætt. Verkefnið nýtur ríkulegs fjárhagslegs stuðnings Kaupmannahafnarborgar sem gerir því meðal annars kleift að reka KBH Madhus, sem hefur það hlutverk að veita mötuneytum fræðslu, stuðning og ráðgjöf í breytingunni yfir í lífrænt. Í 35 manna teymi vinna meðal annars kokkar, matvælasérfræðingar og kennarar.

Annað sem vegur þungt er stærðin. Kaupmannahafnarborg er einn stærsti innkaupandi Danmerkur og getur því sett kröfur á framleiðendur og matvælabirgja um lífrænt og samið um lægra verð. Með áherslu á árstíðabundin hráefni og breytingar í matarvenjum (minna kjöt, meira grænmeti, lágmarka matarleifar) hefur verið hægt að halda kostnaðinum niðri. Stefnan er að breytingin yfir í lífrænt valdi ekki neinum aukakostnaði.

Íbúar Kaupmannahafnar njóta góðs af velgengni verkefnisins í gæðum hráefnisins, eldamennskunni og matarmenningunni. Verkefnið sannar að lífrænn matur er raunhæfur kostur fyrir alla.

Neytendablaðið 4.tbl.2013
Greinarhöfundur: Anne Maria Sparf, M.Sc. í umhverfisfræði

Heimildir: 
Bændasamtök Íslands, bondi.is
FAO Organic Agriculture Programme, fao.org/organicag
KBH madhus, kbhmadhus.dk
Rodale Institute, rodaleinstitute.org
Samtök lífrænna neytenda, lifraen.is
Dominique Plédel Jónsson, formaður Slow Food Reykjavík
Dr. Ólafur Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu.
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LBHÍ