Listin að semja um verð. Prúttum líka heima ‒ ekki bara í sólarlöndum

Miðvikudagur, 25. maí 2016
Jóhannes Gunnarsson

 

Það eru skiptar skoðanir á því hvort við eigum að prútta við seljendur þegar verslað er. Með réttu má segja að uppgefið verð sé ekki óumbreytanlegt náttúrulögmál, enda er álagning frjáls, þannig að seljendur geta selt vöruna á því verði sem þeir vilja. Ef okkur sýnist svo getum við reynt að prútta um verðið. Því er reyndar oft haldið fram að við séum lélegir prúttarar og að við gerum of lítið að því að prútta. Svo eru aðrir sem segja að það geti svo sem verið gott að prútta en að nær væri að hafa álagningu bara hæfilega þannig að allir borgi sanngjarnt verð sem fari ekki eftir því hve slyngur prúttari viðkomandi er.

Neytendur víða um heim reyna að borga minna fyrir vörur og þjónustu með prútti. Þó svo að því sé haldið fram að t.d. Svíar séu slakir í því að prútta sýna samt rannsóknir að 80% Svía hafa reynt að semja um lægra verð en gefið er upp. Þó svo að þetta eigi við um bæði kynin eru konur harðari í að fá verð lækkað á meðan karlar láta sér frekar nægja að fá aðra ódýrari vöru eða þjónustu í kaupbæti. Sömu rannsóknir sýna að helst prútta Svíar um verð á bílum, húsnæði og þjónustu fasteignasala.

Samkvæmt rannsókn breska neytendablaðsins Which? frá sl. vori má spara mikið á því að prútta eða allt að 80.000 kr. á ársgrundvelli. Um 80% Breta náðu árangri þegar þeir prúttuðu um verð á þjónustu ferðaskrifstofa og tryggingarfélaga.

Neytendur í Bandaríkjunum náðu bestum árangri á að prútta um verð á húsgögnum og spöruðu sér þannig að meðaltali rúmar 40.000 krónur árlega við kaup á þeim samkvæmt rannsókn neytendablaðsins Consumer Reports.

Fyrir þá sem vilja fara þessa leið er því bara að undirbúa sig með rökum og prútta – þú hefur allt að vinna en engu að tapa! Hér koma nokkur ráð en þau eru byggð á sænska neytendablaðinu Råd & rön.

 

  1. Að finna rétta augnablikið og rétta fólkið

Að prútta um verð á vöru sem er ný í búðinni getur verið erfitt. Það er auðveldara að gera það þegar varan er að fara af markaði. Það sama á við um árstíðarbundnar vörur, t.d. er betra að prútta ef skíði eru keypt í maí. Ef þú sérð minniháttar galla sem þú getur vel sætt þig við er sjálfsagt að biðja um afslátt.

Ef þú ætlar þér að kaupa fleiri vörur í sömu verslun er gott að kaupa þær allar í einu og jafnvel að leita uppi vini og vandamenn sem hafa það sama í huga. Það gefur að sjálfsögðu betri samningsstöðu við prúttið.

Talaðu við aðila sem ber ábyrgð á viðkomandi verslun, t.d. verslunarstjóra eða staðgengil hans sem hefur heimild til að veita afslátt.

 

  1. Kannaðu málið fyrst

Því meira sem þú veist um vöruna og „eðlilegt“verð hennar því sterkari er staða þín og rökstuðningur. Leitaðu upplýsinga um verð í verslunum og á netinu. Ef þú finnur lægra verð hjá samkeppnisaðila eða á netinu átt þú allavega að fara fram á að fá vöruna á lægsta verði sem þú hefur fundið. Mælt er með að þú takir með þér auglýsingar ef þú hefur séð slíkar eða útprentun af netinu. Því betri undirbúningur, því meiri eru möguleikarnir á að prúttið skili árangri.

 

  1. Bættu fleiri vörum inn í verðið

Velheppnað prútt þýðir ekki alltaf að þú fáir eitthvað ódýrara. Það getur þess vegna leitt til þess að þú færð eitthvað annað í kaupbæti. Sem dæmi má nefna að ef þú ert að kaupa þér farsíma er hægt að reyna að fá með honum heyrnartól og ef þú ert að kaupa þér dýrt sjónvarpstæki er ástæða til að reyna að fá í kaupbæti veggfestingu eða HDMI tengi. Það má líka reyna að fá ókeypis heimsendingu og/eða uppsetningu.

 

  1. Það er hægt að prútta um meira en vörur

Það er ekki aðeins hægt að prútta um verð á vörum, það á að sjálfsögðu einnig við um þjónustu. Þetta á ekki síst við um tryggingar, en það má líka reyna að prútta um áskriftir, gistingu og kort í líkamsræktinni. Hér gilda sömu reglur og þegar prúttað er um verð á vörum. Leitaðu tilboða frá tryggingarfélögum í allar þær tryggingar sem þú ert með. Ef þú fréttir af sérstöku kynningarverði á blaði eða tímariti sem þú ert þegar áskrifandi að má alltaf reyna að prútta og fá kynningarverðið. Síðast en ekki síst má alltaf reyna að semja um lægra verð en gefið er upp ef þú ferð í utanlandsferðir á tíma þegar ferðmannastraumurinn er tiltölulega lítill

 

  1. Vertu jákvæður

Á sumum menningarsvæðum taka viðskiptin oft langan tíma. Þar drekka seljandi og kaupandi te saman og segja hvor öðrum fréttir af fjölskyldum sínum. Ef kaupandinn gerir þetta ekki er hann talinn sýna seljanda ókurteisi og um leið á hann minni möguleika á góðu verði. Það skiptir einnig máli að vera glaður og skemmtilegur þegar haldið er í innkaup; það skapar strax betra samband við seljanda. Gefðu skýrt merki um að þú hafir áhuga á að kaupa ákveðna vöru/r og gefðu seljanda gildar ástæður fyrir því að þú eigir að fá gott verð. Bentu á að þú sért tryggur viðskiptavinur, eða að þú veljir að versla í nærumhverfi þínu eða að þú ætlir að kaupa nauðsynlega þjónustu vegna viðkomandi vöru. Áður en reynt er að semja um verð er gott að hafa ákveðið fyrirfram hvað er það mesta sem þú ert tilbúin/n að borga, en prófaðu samt að byrja á lægri upphæð. Vertu ákveðin/n, en passaðu þig á að vera ekki ergileg/ur eða með ólundarsvip þótt seljandinn fallist ekki á að lækka verðið.

Líttu á prúttið sem hluta af innkaupaferlinu og mundu eftir að vera jákvæð/ur í tali. Enginn nær góðum árangri í að knýja fram afslátt ef hann er með leiðindi.

 

  1. Undirbúðu þig með gildum rökum

Finndu góð rök til að nota. Nefna má nokkur dæmi: „Ég er nú ekki viss um að þetta sé lægsta verðið á þessari vöru. Getur þú ekki boðið mér upp á lægra verð.“ „Er þetta virkilega lægsta verðið þú getur boðið mér. Ég hafði vonast eftir lægra verði.“ „Ef þú lækkar verðið kaupi ég vöruna þegar í stað.“ Að endingu má svo segja: „Ég hef borið saman verð hjá ykkur og það sem í boði er hjá öðrum bönkum/tryggingarfélögum/símafélögum og er að hugsa um að skipta yfir til annars þjónustuveitanda.“ Hikaðu ekki við að taka þér umhugsunarfrest; það getur jafnvel styrkt stöðu þína.

 

  1. Vertu heiðarlegur

Stundum getur verið gott að virðast ekki of áhugasamur, en það getur ekki síður reynst vel að vera heiðarlegur og segja að þú hafir áhuga á vörunni en þú hafir úr takmörkuðu að spila. Fáir þú vöruna á því verði sem þú óskar eftir kaupir þú hana, annars ekki. Hafðu einnig hugfast að þú getur alltaf yfirgefið verslunina ef þú nærð ekki samkomulagi um verð við seljanda. Ef þú þarft ekki á vörunni að halda þegar í stað, og þú færð verðið ekki lækkað, má biðja seljandann um að hafa samband við þig ef og þegar hann er tilbúinn að selja á því verði sem þú tilbúin/n að borga fyrir vöruna. Ákveddu í byrjun hvað þú ert tilbúin/n að borga fyrir vöruna og haltu þig við það verð.

 

 

Höfundur: Jóhannes Gunnarsson
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 2.tbl. 2015.

Listin að semja um verð