Litla kvæðið um litlu hjónin

Föstudagur, 31. janúar 2014
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Á því herrans ári 2007 fjárfestu heiðurshjónin Jón og Gunna í litlu húsi við lítinn vog. Þau tæmdu alla reikninga og brutu sparibauka og komust að því að þau þurftu að taka lán fyrir 60% kaupverðsins. Jón og Gunna eru hvorki stórhuga né ævintýragjörn. Þau treystu bönkunum ekki almennilega og eins og Jón sagði oft við gesti og gangandi fannst þeim fráleitt að taka lán í evrum þegar tekjur þeirra voru í krónutetri.

Þau hjónin ákváðu því að vera „skynsöm“ og tóku verðtryggt lán hjá Íbúðalánasjóði til 30 ára. Lánið var með föstum 4,75 % vöxtum (enda býður sjóðurinn ekki upp á breytilega vexti) og var jafngreiðslulán (enda býður sjóðurinn ekki upp á lán með jöfnum afborgunum).

Litlu hjónin greiddu samviskusamlega af láninu og á þeim sex árum sem liðin eru hafa þau borgað 4.031.599 kr. í afborganir, 4.711.067 kr. í vexti, 1.322.415 kr. í verðbætur, 1.469.578 kr. í verðbætur á vexti og 6.585 kr. í kostnað. Samtals 11.541.244 kr. Þar sem þau hjónin eru með lítinn heila héldu þau nú að lánið væri eitthvað farið að láta á sjá. Í haust ákváðu þau að færa sig um set og fjárfestu í öðru litlu húsi. Þar sem þau höfðu ekki selt kotið sitt urðu þau að fjármagna kaupin með nýju láni og ríghalda svo í þá litlu von að einhver góðhjartaður kaupandi vildi yfirtaka skynsamlega lánið þeirra. Sú von sveik enda þótti lánið ekki kræsilegt. Jón og Gunna þurfa því að greiða upp lánið sitt, sem upphaflega var 17,4 milljónir króna (17.226.000 kr. að frádregnu lántökugjaldi), en stendur nú, eftir allt stritið og skilvísina, í 20.780.832 kr. Gott og vel. En til að fá að borga lánið þurfa hjúin líka að borga 1.143.190 kr. í uppgreiðslugjald. Samtals munu þau því borga ríflega 33 milljónir fyrir sex ára gamalt 17 milljóna lán.

„OKURLÁN“, mundi líklegast einhver segja. En ekki Jón og Gunna, sem í vor gengu hönd í hönd á kjörstað að kjósa flokkinn sinn og bíða nú spennt eftir endurgreiðslum og niðurfærslum sem þau eru viss um að komi með hækkandi sól. Það eina sem þeim svíður er uppgreiðslugjaldið.

Neytendasamtökin hafa ítrekað mótmælt töku uppgreiðslugjalds, sem þau telja hamla hreyfanleika á fjármála- og fasteignamarkaði, og kærðu töku gjaldsins á sínum tíma til Samkeppnisráðs. Með gildistöku nýrra neytendalánalaga er svo loks búið að setja þak á uppgreiðslugjald, en þau lög gilda bara um lán sem tekin eru eftir 1. nóvember 2013. Bönkunum til hróss má þó taka fram að uppgreiðslugjald á þeirra lánum er yfirleitt föst prósentutala sem fólk veit þá af við lántökuna. Hjá Íbúðalánasjóði er hins vegar miðað við mismun á vaxtastigi bréfsins sem greitt er og vaxta nýrra lána hjá sjóðnum. Það þýðir að ef vextir lækka eftir lántökuna þarf fólk að borga gjaldið en ef þeir hækka nýtur sjóðurinn (en ekki lántakar) einn ávinnings af því. Á tímum örra vaxtabreytinga getur svo skipt sköpum hvað varðar fjárhæð gjaldsins hvaða dag það er greitt upp, því séu vextir þá hærri en við lántökuna þarf ekkert uppgreiðslugjald að greiða.

Mál litlu hjónanna er alls ekkert einsdæmi og oft hefur reynt á uppgreiðslugjaldið fyrir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Þannig taldi nefndin í tveimur málum sjóðnum heimilt að innheimta annars vegar 11,92% og hins vegar 8,21% uppgreiðslugjald. Því er í sjálfu sér ekki mótmælt hér að taka gjaldsins sé í samræmi við lög og reglugerðir um sjóðinn. Þá kemur skýrt fram í skilmálum lána frá sjóðnum að greiða þurfi uppgreiðslugjald, óvissan felst hins vegar í upphæð þess, sem greinilega getur numið mjög háum fjárhæðum.

Undirrituð veit ekki til þess að reynt hafi á þessa gjaldtöku sjóðsins fyrir dómstólum, en ef til vill mætti í einhverjum tilvikum halda því fram að um ósanngjarna samningsskilmála sé að ræða, en úr því verða dómstólar að skera. Kannski væri ráð að láta á þetta reyna og nýta loks ákvæði laga um málsóknarfélög. Er hér með óskað eftir lögmanni sem tekur það að sér og sá hinn sami mun um hæl fá sent talsímanúmer þeirra Jóns og Gunnu.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Leiðari Neytendablaðsins 4.tbl.2013