Meira þarf til að bjarga heimilunum

mánudagur, 1. desember 2008
Jóhannes Gunnarsson

 

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt um fyrstu ráðstafanir sínar um björgun heimilanna í þeim hremmingum sem þau standa gagnvart. Það er löngu ljóst að sú kreppa sem við berjumst við nú er miklu dýpri en við höfum áður þekkt.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa fyrst og fremst gripið til er frysting á myntkörfulánum og greiðslujöfnun vegna verðtryggðra lána. Með báðum leiðum er dregið úr greiðslubyrði tímabundið og það sem eftir stendur leggst við höfuðstólinn. Því verður greiðslubyrðin þyngri seinna en heimilt er að lengja lánstímann.

Stjórnvöld hafa líka boðað ráðstafanir til að lækka dráttarvexti en enn bíðum við eftir raunverulegum aðgerðum. Höfum í huga að nú þegar greiðum við óheyrilega háa dráttarvexti sem bitna illilega á heimilum í vanskilum. En gleymum ekki að lækkun dráttarvaxta knýr vexti á ýmsum neyslulánum niður, þar á meðal yfirdráttarvexti og vexti vegna greiðsludreifinga og raðgreiðslna. Einnig hafa stjórnvöld tilkynnt um að þegar ný lög um innheimtustarfsemi taka gildi um áramót verður notuð heimild til að setja hámark á það gjald sem innheimtuaðilar geta krafist. Loks má nefna að milda á innheimtuaðgerðir.

Enn er verið að skoða, allavega eftir því sem ég best veit, hvort heimila eigi neytendum að leysa út viðbótarlífeyrissparnað sinn svo þeir geti lækkað skuldir sínar. Vissulega þyrfti að fórna sparnaði til efri áranna en í staðinn gæti verið gott að losna við dýru neyslulánin. Þetta gæti því verið góður kostur fyrir suma og sjálfsagt að heimila það.

Hvað meir?
Það er þó ljóst að þessar aðgerðir duga engan veginn til að bjarga þeim mikla fjölda heimila sem lenda í verulegum vandamálum vegna atvinnuleysis eða verulegrar lækkunar launa. Miðað við verðlagsþróun munu enn fleiri heimili lenda í vandamálum enda hefur vaninn við greiðslumat verið sá að tefla á tæpasta vað.

Greiðsluaðlögun er nýyrði sem komst fyrst fyrir almenningssjónir þegar Neytendasamtökin hófu baráttu á árinu 1992 fyrir því að sett yrðu lög um greiðsluaðlögun að norrænni fyrirmynd (kallast reyndar þar gældsanering eða skuldahreinsun). Slík lög geta hjálpað heimilum í greiðsluvanda mikið. Ef heimili getur ekki staðið við greiðslubyrði sína vegna utanað komandi áhrifa getur það leitað til hlutlauss aðila um að metið verði hve stóran höfuðstóls það ræður við. Ef heimili getur t.d. greitt 60% höfuðstólsins þá eru allar skuldir afskrifaðar um 40% og verða allir skuldareigendur að una því. Það er óhætt að taka fram að um þetta gilda strangar reglur og engin fer slíka leið að ónauðsynju. Ef fjölskylda býr í allt of stóru húsi og á dýran jeppa þarf það að selja þetta og fara í minna húsnæði sem hæfir betur greiðslugetu viðkomandi.

Staða margra heimila nú er með þeim hætti að mikil þörf er á þessum lögum. Óþarft er að taka fram að þessi lög hafa reynst vel á öðrum Norðurlöndum. Reynslan yrði enn betri hér í þeirri djúpu kreppu sem við erum í. Alþýðusamband Íslands hefur lýst yfir stuðningi sínum við þessi lög og eins fjölmargir alþingismenn úr allflestum ef ekki öllum flokkum. Raunar get ég sagt frá því að ég ræddi þetta mál við nokkra bankastjóra „gömlu“ bankanna og þeir voru mér sammála um nauðsyn slíkrar löggjafar. Afstaða Neytendasamtakanna er einföld, við viljum lög um greiðsluaðlögun strax.

Bent hefur verið á ýmsar aðrar leiðir til að létta meir undir heimilunum. Þar hefur verið bent á að stórauka þurfi vaxtabætur ekki síst til heimila sem verða fyrir miklu tekjufalli. Slík aðgerð er þess virði að skoðuð verði betur. Einnig hlýtur að koma til skoðunar að verðbætur á lánum falli alveg niður eða verða lækkaðar verulega. Slík aðgerð myndi að sjálfsögðu gefa þeim heimilum sem nú sjá enga lausn á greiðsluvanda sínum nýja von. Ástæða er til að minna á að gjaldþrot heimilis kostar sitt og hvað ætla lánastofnanir að gera við hundruð íbúða sem þær eignast á uppboði?

Allavega er ljóst að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt um til að bjarga heimilunum eru aðeins frestun á vandanum. Þetta getur dugað sumum heimilum en gagnvart öðrum þarf frekari aðgerðir.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna