Mjólk í brennidepli

sunnudagur, 27. júlí 2014
Anne Maria Sparf

 

Mjólk og mjólkurafurðir hafa verið áberandi í umræðunni að undanförnu. Vinsældir mjólkur og einkum fitumeiri mjólkurafurða svo sem smjörs og rjóma aukast og bændur hafa verið hvattir til að auka framleiðsluna. Neytendablaðið ákvað því að varpa ljósi á nokkrar athyglisverðar staðreyndir og deiluefni um mjólk hér á landi.

Mjólkurframleiðsla á Íslandi í hnotskurn

  • Fjöldi kúabænda árið 2013 var 658 en fjöldi mjólkandi kúa yfir 24.000.
  • Meðalstærð búa er um 43 mjólkandi kýr. Hver kýr gefur að meðaltali yfir 5.000 lítra af mjólk á ári.
  • Heildarframleiðsla mjólkur á Íslandi 2013 var um 130 milljónir lítra.
  • Síðustu tíu ár hefur heildarmjólkurframleiðslan aukist um 13%. Á sama tíma hefur framleiðendum fækkað um nærri þriðjung, bú stækkað og framleiðsla á hverja kú aukist um 16% að jafnaði. Meðalframleiðsla á dag á hverju býli eru nú ríflega 500 lítrar af mjólk.
  • Einungis þrjú býli á Íslandi framleiða lífræna mjólk eins og er og ársframleiðsla þeirra er einungis um 0,3% (355.000 lítrar) af heildarframleiðslunni.

Strangt eftirlitskerfi tryggir hágæða vöru
Mjólkurframleiðsla hér á landi er undir ströngu eftirliti en Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fara með opinbert eftirliti með mjólkurbúum. M.a. er fylgst með aðbúnaði, rekjanleika fóðurs, heilbrigði dýra, vatnsgæðum, meðhöndlun úrgangs og lyfjanotkun.

Innra eftirlit á vegum Mjólkursamsölunnar er einnig viðamikið. Sýni er tekið úr öllum mjólkursendingum frá hverjum bæ til til að staðfesta gæði þeirra og heilnæmi. Skimað er fyrir hættulegum örverum og lyfjaleifum. Lyfjanotkun mjólkurframleiðenda hér á landi er minni en víða annars staðar en einstaka lyfjaleifar í mjólk er yfirleitt hægt að rekja til mistaka við mjaltir þar sem mjólk úr kú sem hefur verið meðhöndluð með sýklalyfjum (t.d. vegna júgurbólgu) er óvart blandað saman við aðra mjólk. Önnur aðskotaefni, svo sem þvottaefnisleifar, sótthreinsiefni, sveppaeiturefni, þungmálmar eða þrávirk lífræn efni geta einnig borist í mjólk. Árleg rannsókn Matvælastofnunar staðfestir hins vegar að ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af aðskotaefnum í mjólk hér á landi.

Þeir sem til þekkja segja að almennt líði kúm nokkuð vel á Íslandi, enda fer vellíðan kúa saman við aukið magn og gæði mjólkur. Sem dæmi má nefna að rétt yfir helmingur íslenskra kúa er í lausagöngufjósum, en kýr í þeim eru yfirleitt afurðahærri en kýr í básafjósum. Kýr á Íslandi eiga auk þess að fá að njóta útivistar í a.m.k. 8 vikur samfleytt, þótt ólíkar skoðanir séu reyndar meðal bænda um ágæti útiveru nautgripa og hafa heyrst óskir um meiri sveigjanleika í þeim efnum. Útivera skiptir þó sköpum fyrir næringarsamsetningu mjólkur, því beit tryggir hagstæðara hlutfall gagnlegra fitusýra í mjólk en fóðrun með korni. Þrátt fyrir það hefur kjarnfóðurgjöf fengið aukið vægi síðustu ár, en uppistaðan í kjarnfóðri er yfirleitt maís, soja, bygg og aðrar korntegundir. Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, áætlar að í heildina samanstandi fóðrun mjólkurkúa á Íslandi af u.þ.b. 50% heimaaflaðs fóðurs (t.d. gras, smári, repja, bygg), 30% kjarnfóðurs og 20% beitar, þó hlutföllin geti verið mjög misjöfn milli búa. Fiskimjöl er einnig notað í fóðrun kúa hér á landi, ólíkt öðrum Evrópulöndum, en það er talið vera góður prótein- og steinefnagjafi sem eykur mjólkurframleiðslu kúa og hefur jákvæð áhrif á heilsufar þeirra.

Allt er gott í hófi
Yfirvöld og sérfæðingar eru að mestu sammála um hollustu mjólkur. Embætti landlæknis ráðleggur fullorðnum jafnt sem börnum frá tvegga ára aldri að neyta sem samsvarar tveimur skömmtum (500 ml) af fitulítilli mjólk á dag til að stuðla að uppbyggingu og viðhaldi beina og draga þar með úr hættu á beinþynningu. Of mikil neysla fitumikilla mjólkurvara er hins vegar talin auka líkur á hjarta- og kransæðasjúkdómum og blöðruhálskirtilskrabbameini í körlum.

Ekki eru þó allir sammála um ágæti mjólkur. Hallgrímur Magnússon læknir telur t.d. að gerilsneydd og fitusprengd mjólk sé ekki góð kalkuppspretta og vísar í erlendar rannsóknir sem gefa í skyn að mjólk geti jafnvel verið þáttur í aukinni beinþynningu á undanförnum áratugum. Tilgátan gengur út frá því að mjólkin sé of súr til að nýtast okkur og losi þess vegna kalk úr líkamanum í stað þess að taka það upp. Hallgrímur segir jafnframt að rannsóknir sem gerðar voru á fjórða áratug síðustu aldar hafi sýnt fram á að gerilsneydd mjólk hafði skaðleg áhrif á kálfa og leiddi að lokum til dauða þeirra. Hann undrast að slík fæða skuli teljast hæf til manneldis.

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, er á öðru máli og segir að um 20-30% af kalki úr mjólk nýtist okkur, jafnvel þótt hún sé gerilsneydd og fitusprengd, en fáar aðrar fæðutegundir innihalda jafnmikið kalk í þannig formi að það nýtist jafnvel og í mjólk. Embætti landlæknis staðfestir þetta en bætir við að D-vítamín sé nauðsynlegt fyrir eðlilega upptöku kalks auk þess sem aðrir þættir, svo sem kalkbúskapur, aldur o.fl., geti haft áhrif á kalkupptöku einstaklinga. Fyrir þá sem geta ekki neytt mjólkur, eða kjósa að sneiða hjá henni af ýmsum ástæðum, er mælt með m.a. grænkáli, spergilkáli, möndlum, sesamfræjum, sardínum og tófú, kalkbættri sojamjólk og öðrum kalkbættum vörum sem kalkuppsprettu.

Er gerilsneyðing mjólkur nauðsynleg?
Sumir þeirra sem efast um hollustu mjólkur hafa fært rök fyrir ágæti hrámjólkur en hún er ógerilsneydd og ófitusprengd og inniheldur þar með öll næringarefni mjólkur í óbreyttu formi. Hrámjólk geymist frekar illa og hentar þess vegna ekki nútíma sölu- og dreifikerfi sem krefst langra flutninga og góðs geymsluþols. Sökum þess hve mjólk er gott vaxtarumhverfi fyrir örverur geta hættulegir sýklar, svo sem berklabakteríur, streptókokkar, salmonella, kampýlóbakter, kóligerlar og listería, einnig borist með henni. Iðnaðarvæðing matvælaframleiðslunnar í byrjun tuttugustu aldar olli því að neytandinn verslaði ekki lengur beint af bóndanum, flutningaleiðir urðu lengri og mögulegt smit gat borist miklu víðar en áður fyrr. Byrjað var að gerilsneyða mjólk til að auka geymsluþol hennar og lágmarka smithættu, en gerilsneyðing mjólkur hér á landi er meðal annars sögð hafa skilað góðum árangri í baráttunni gegn berklum.

Enn í dag má einungis selja gerilsneydda mjólk. Það er þó viðtekin venja hér á landi, svo sem annars staðar, að bændur drekki hrámjólk úr eigin framleiðslu. Hreinlæti, aðbúnaður og eftirlit í dag er allt annað en áður fyrr og þess vegna sjaldgæft að fólk veikist af neyslu hrámjólkur. Matvælastofnun telur þó gerilsneyðinguna enn eiga rétt á sér, enda skilvirk og ódýr aðferð til að lágmarka smithættu. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis, tekur í sama streng: „Gerilsneyðing mjólkur er mikilvæg fyrir lýðheilsuna því hún dregur sannanlega úr líkum á smiti af völdum fjölmargra sýkla.“ Hann telur jafnframt að gerilsneyðing hafi afar lítil áhrif á næringargildi mjólkur og dragi þess vegna ekki úr þýðingu hennar fyrir lýðheilsuna með markverðum hætti.

Dominique Plédel Jónsson, formaður Slow Food samtakanna á Íslandi, bendir hins vegar á að sala hrámjólkur og osta úr ógerilsneyddri mjólk sé leyfð í flestum öðrum Evrópulöndum (m.a. Frakklandi, Þýskalandi, Englandi og Wales, Ítalíu og Svíþjóð) með ströngum skilyrðum sem lágmarka smithættu. Hrámjólk er til dæmis undirstaðan í hefðbundinni ostaframleiðslu í löndum á borð við Ítalíu og Frakkland. Ekki hefur heyrst að hrámjólk valdi sjúkdómsfaröldrum í Evrópu, ólíkt því sem segja má um t.d. fersk salöt og frosin ber, sem hafa valdið áhyggjum á undanförnum árum. Þess má geta að búið er að stofna sérstakan baráttuhóp á Facebook fyrir sölu á hrámjólk og afurðum hennar hér á landi.

Lífræn mjólk
Lífræn mjólk er mjólk úr kúm sem éta eingöngu fóður sem uppfyllir kröfur um lífræna framleiðslu auk þess sem kröfur um velferð dýranna og takmarkanir á lyfjanotkun ganga lengra en í hefðbundinni framleiðslu. Framleiðslan hér á landi er í raun 100% íslensk enda éta lífrænu kýrnar hér nánast eingöngu gras, sem gerir það einnig að verkum að omega-3 hlutfallið í lífrænu mjólkinni er hærra en í venjulegri mjólk.

Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum afurðum, þ.m.t. mjólk, hefur aukist mikið á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að fyrirtækið Biobú, sem framleiðir lífrænar mjólkurvörur, hefur aukið framleiðslu sína um 30% á ári síðan það setti vörur sínar fyrst á markað árið 2003. Framboðið annar hins vegar ekki lengur vaxandi eftirspurn enda eru engir nýir framleiðendur í sjónmáli.

Þrátt fyrir vaxandi eftirspurn er fjárhagslegur stuðningur hins opinbera til lífrænnar ræktunar lítill sem enginn, eins og fram kom í síðasta tölublað Neytendablaðsins. Einnig virðist lítill áhugi meðal helstu aðila innan mjólkurgeirans á að efla lífræna mjólkurframleiðslu. Í drögum að stefnumörkun fyrir nautgriparækt  til ársins 2021, sem samþykkt var á aðalfundi Landssambands kúabænda árið 2011, kemur ekkert fram um lífræna ræktun. Enga fræðslu eða upplýsingar um lífræna ræktun er að finna á vefsvæði sambandsins né  á vefsvæði Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) eða Auðhumlu, sem eru samtök mjólkurframleiðenda. Ef marka má umræðu á spjallsvæðinu naut.is er afstaða einstakra bænda og jafnvel ráðgjafa í geiranum neikvæð gagnvart lífrænni framleiðslu.

Af öllu þessu mætti telja að ekki sé vilji til að auka lífræna mjólkurframleiðslu hér á landi. Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri hjá SAM, er þó á öðru máli og fullyrðir að reynt sé að verða við óskum um framboð á lífrænt vottaðri framleiðslu en bendir á að það sé í höndum kúabændanna sjálfra að ákveða að framleiða lífrænt og lítið sem SAM eða aðildarfélög þess geti gert í málinu.

Neytendur eiga rétt á vali
Eins og deilur um hollustu mjólkur sýna er ekkert svart og hvítt í umræðunni um jafn hversdaglegan hlut og mjólkin er. Íslendingar njóta góðs af hágæða vöru og góðu eftirlitskerfi í mjólkurframleiðslu og eflaust eru langflestir ánægðir með núverandi framboð og sjá ekki ástæðu til breytinga. Vaxandi hópur vill þó geta valið vörur sem framleiddar eru á annan hátt. Núverandi reglur og staðlað framleiðslukerfi takmarka hins vegar nýsköpun og koma í veg fyrir aukna fjölbreytni í mjólkuriðnaði.

Ljóst er að hrámjólk gæti aldrei komið í stað gerilsneyddrar mjólkur vegna langra flutningaleiða og krafna um stöðluð gæði. Hins vegar virðist algjört bann við dreifingu hrámjólkur úrelt úrræði og spyrja má hvort ekki væri tilefni til að leyfa sölu hennar þar sem allt bendir til þess að strangar kröfur um hreinlæti og skilvirkt örverueftirlit myndi tryggja öryggið nægilega vel. Til samanburðar má hugsa sér að flestum þætti væntanlega of langt gengið ef sala á fersku salati og grænmeti ásamt ávöxtum og berjum væri bönnuð með sömu rökum og sala hrámjólkur.

Þótt hrámjólk væri á boðstólum myndu eflaust flestir velja gerilsneydda mjólk áfram. Sala hrámjólkur og afurða úr henni gæti hins vegar stuðlað að nýsköpun (t.d. í ostagerð) og bætt fjárhag einstakra bænda sem liður í verkefninu Beint frá Býli.

Þá er sérlega dapurlegt að ekki hafi tekist að greiða götu lífrænnar framleiðslu á mjólk. Það væri t.d. gagnslaust fyrir leikskóla að setja sér markmið um að bjóða börnum lífræna mjólk, eins og er orðið algengt í nágrannalöndum okkar, því nægileg mjólk er einfaldlega ekki til staðar. Svo lengi sem afstaða yfirvalda og framleiðenda breytist ekki hafa neytendur í raun ekkert val sem getur varla talist eðlilegt í nútímasamfélagi.

Neytendablaðið 1.tbl.2014
Greinarhöfundur: Anne Maria Sparf, M.Sc. í umhverfisfræði

Mjólk í brennidepli