Myglusveppir í híbýlum - rétt að hafa varann á

Laugardagur, 1. júní 2013
Brynhildur Pétursdóttir

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fara ekki varhluta af áhyggjum húseigenda og leigjenda og hefur fyrirspurnum vegna myglu í húsnæði fjölgað mikið. Heilbrigðisfulltrúar leiðbeina fólki um úrbætur en þeir mæta almennt ekki í hús nema í undantekningartilfellum. Það getur þó gerst að heilbrigðisfulltrúi taki út húsnæðið, rétt eins og í málinu sem hér er rakið, en þá liggur fyrir staðfestur grunur um að ekki sé allt með felldu. Þá eru til fyrirtæki, svo sem Hús og heilsa, sem sérhæfa sig í svona málum.

Fréttir af myglusvepp í húsum hafa verið áberandi að undanförnu. Neytendasamtökin fá alltaf einhverjar fyrirspurnir frá leigjendum sem telja að húsnæðið sem þeir leigja sé óíbúðarhæft vegna myglu. Oft er um smávægileg vandamál að ræða sem hægt er að lagfæra með litlum tilkostnaði, jafnvel bara með því að lofta betur út. En af og til koma upp alvarlegri mál.

Óíbúðarhæft vegna myglu
Ung einstæð móðir hafði samband við Neytendasamtökin og sagði farir sínar ekki sléttar. Hún hafði leigt í gömlu húsi í eitt ár ásamt móður sinni og tveimur börnum. Mikill raki var í húsinu, sem komið er töluvert til ára sinna, og viðhaldi hafði lítið verið sinnt. Móðir konunnar var orðin veik og hafði fengið þá greiningu hjá lækni að hún væri komin með ofnæmi fyrir myglusvepp og þyrfti að flytja út. Börnin tvö voru auk þess ásamt móður sinni farin að finna fyrir einkennum í öndunarfærum og þegar fjölskyldan flutti úr húsnæðinu voru allir farnir að nota astmapúst. Húsgögn og stór hluti af innbúi, svo sem föt, voru skilin eftir í húsinu þar sem móðirin var komin með ofnæmi fyrir myglusveppum og gat því ekki verið innan um hluti sem í geta leynst sveppgró eða önnur sveppaefni.

Konan var í sambandi við leigusala í tölvupóstum og í síma og gerði hann lítið úr áhyggjum konunnar og krafðist þess að fá greiðslu þótt konan væri flutt út. Strangt til tekið var samningurinn ekki runnin út en konan vildi ekki greiða meiri leigu í ljósi þess að hún taldi húsið ekki lengur íbúðarhæft. Hún þurfti þó að fá sannanir fyrir því og fór því með sýni í greiningu og í ljós kom að fjölbreyttur sveppagróður var í húsinu. Í kjölfarið gerðu heilbrigðisfulltrúi og byggingarfulltrúi úttekt á húsinu og komust að þeirri niðurstöðu að húsið væri ekki íbúðarhæft. Konan leitaði í kjölfarið til lögfræðings þar sem hún vill fá afslátt eða endurgreiðslu af leigunni en hún borgaði 120 þúsund á mánuði í leigu, utan hita og rafmagns. Þá er hugsanlegt að hún gæti átt skaðabótakröfu á eiganda hússins vegna fjártjóns og heilsutjóns sem fjölskyldan hefur orðið fyrir.

Getur mygla verið skaðleg heilsunni?
Geymist á þurrum stað! Þessi varnaðarorð á lyfjaumbúðum má yfirfæra á fólk og híbýli þess segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún hefur ekki farið varhluta af auknum áhyggjum fólks af myglu í húsnæði og greinir oft sýni úr sýktum húsum. Sýni úr leiguhúsnæðinu sem fjallað er um hér að framan rötuðu inn á rannsóknastofu Guðríðar Gyðu. Rannsókn hennar leiddi í ljós að í húsinu var fjölbreyttur sveppagróður, þar á meðal sveppur sem nærist á þráðormum, en einnig dauðir mítlar og smádýraskítur. Það var því greinilega líf í húsinu í orðsins fyllstu merkingu enda var mat sérfræðinga að það væri ekki íbúðarhæft.

En telur Guðríður Gyða að fólk þurfi að vera betur á varðbergi eða er umræðan um myglu og húsasótt orðum aukin? „Fólk þarf tvímælalaust að fylgjast með því að húsnæðið haldist þurrt og gera við um leið og vart verður við leka. Þá þarf að þrífa myglu strax og hún sést og fylgjast með því hvort hún vaxi upp aftur. Ef fólk telur að veikindi megi rekja til myglusveppa í húsnæði er besta ráðið að prufa að vera án mengaðra hluta í myglulausu húsnæði í nokkra daga og fylgjast með líðan sinni. Ef líkur eru á að veikindi tengist húsi verður að leita uppi raka og þá myglu sem honum fylgir.“ Guðríður Gyða segir að það geti þurft að kalla til sérfræðing, til dæmis húsasmið, og gott sé að fara yfir sögu hússins og skoða hvort forn mygla gæti leynst á bak við eitthvað. „Við myglu innanhúss þarf að bregðast af öryggi og festu,“  segir Guðríður Gyða að lokum.

BP
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 1.tbl.2013

 Hvað er myglusveppur?

Myglusveppir vaxa hratt upp við rétt skilyrði. Þeir geta nærst á flestu efni sem notað er innanhúss ef það er hæfilega rakt. Myglusveppir gefa frá sér ýmis efni sem berast út í andrúmsloftið eða síast út í efnið sem þeir vaxa í. Þessi efni geta verið skaðleg heilsu fólks þegar sveppirnir vaxa innanhúss. Áhrifin geta verið misalvarleg, bæði eftir sveppategundum og því hversu viðkvæmt fólk er. Algeng einkenni eru í öndunarfærum (astmi), almennur slappleiki, erting í augum og höfuðverkur. Þegar uppgötvast að veikindi tengjast húsnæði og fólk flytur annað þá þarf að hreinsa innbúið mjög vandlega til að losna við alla mengun af völdum sveppa. Suma hluti er ekki hægt að hreinsa nógu vel til að viðkvæmir geti verið nálægt þeim en þeir gætu nýst fólki sem ekki er næmt fyrir myglusveppum. Öðru er best að henda.

 

Myglusveppir í híbýlum

Eins og sjá má á þessum myndum er húsið illa farið af leka. Verst var ástandið í kjallaranum þar sem viðvarandi raki myndaði kjöraðstæður fyrir myglusveppi.