Nanó

Fimmtudagur, 26. desember 2013
Þuríður Hjartardóttir

SMÁAR AGNIR - STÓRAR AFLEIÐINGAR

Nanó er mælieining sem er svo smá að sérstaka tækni þarf til að vinna með efni í svo smáum einingum. Tæknin er kölluð nanótækni og efnið sem er unnið með þeirri tækni er kallað nanóefni.

Enn ein iðnbylting?
Með nanótækni nota ýmsar tæknigreinar efni sem eru í örsmáum kvarða og hafa því sérstaka eiginleika. Í nanóstærð breytist eiginleiki efna, bæði eðlis-, efna- og líffræðilega. Þannig er hægt að skraddarasauma efni sem fá eiginleika sem aldrei áður hefur tekist að kalla fram. Þess vegna telja sumir að nanótæknin sé bylting í iðnaði rétt eins og gufuvélin, rafmagnið og tölvutæknin. Og þar sem grundvallarbreyting verður á efninu í nanóstærð getur virknin einnig haft afgerandi áhrif á heilsu og umhverfi.

Daglega eru nanóefni notuð í framleiðslu á ýmsum vörum. Þó nanótækni sé notuð víða er því enn ósvarað hvort hún stuðli að framþróun neytendum til góða eða ógni líka umhverfinu og heilsu manna. Það er alla vega viðurkennt að áhættuþættirnir eru ekki nægjanlega rannsakaðir.

Miklar væntingar
Vísindamenn bera miklar væntingar til nanótækni á sviði fæðuöryggis og lyfja, sem og í umhverfismálum. Með nanótækni er hægt að breyta matvælum þannig að þau varðveiti betur vítamín og andoxunarefni. Einnig er hægt að breyta rótarlagi kornplantna þannig að ræturnar taki upp meiri næringu úr moldinni. Með nanótækni er hægt að minnka hjáverkanir með mun nákvæmari lyfjagerð í meðferðum á krabbameini, parkinson, alzheimer og hjartasjúkdómum. Í umhverfismálum vona vísindamenn að nanótækni auki afköst tækja og véla og bæti einangrun og valkosti í orkugjöfum. Auk þess eru vonir bundnar við ný, sterk efni sem hafa sömu eiginlega og plast en eru ekki unnin úr hráolíu. 

Áhrif á heilsu
Algengt er að nanóefni séu notuð í snyrti-, hreinlætis- og málningarvörur, bæði í vökva- og úðaformi. Einmitt þeir eiginleikar nanóefna sem gera þau svo eftirsóknaverð eru einnig stærsti áhættuþátturinn. Það hversu örsmáar agnirnar eru veldur því að þær breiðast auðveldlega út og erfitt er að fanga þær. Þær geta borist með lofti í lungun eða þrengt sér inn í húðina, þær komast í gegnum frumuhimnur og inni í líkamanum virðast þær hafa ótakmarkaðan aðgang að öllum vefjum og líffærum. Þannig geta nanóefni valdið heilsutjóni hjá bæði neytendum og þeim sem vinna við framleiðslu þar sem nanótækni er notuð.

Áhrif á náttúru
Miklar væntingar eru gerðar til nanótækninnar og er hún oft þokkalega örugg því notkun nanótækni felst ekki bara í því að blanda ögnum í efni. Dæmi um nanótækni er þegar skornar eru örsmáar rispur (í nanóstærð) í yfirborð hluta þannig að eiginleikar þeirra breytast. Nanóefni eru líka sett inn í hluti án þess að notendur komist í snertingu við þá. Ekki er þó vitað hvaða áhrif það hefur þegar þessir hlutir enda í ruslinu. Sum nanóefni eru slæm fyrir umhverfið, t.d. efni unnin úr kopar, zinki og silfri. Hætt er við að nanóefni í neytendavarningi sleppi út í umhverfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífríkið. Jafnvel efni sem annars hefðu ekki mikil áhrif í náttúrunni geta valdið usla eingöngu vegna smæðar agnanna. Agnirnar geta borist í smádýr og haft áhrif í gegnum alla fæðukeðjuna.

Nanósilfur
Silfur er sterkur málmur og það efni sem hefur mesta raf- og hitaleiðni. Þar að auki hefur örverueyðandi eiginleiki silfurs verið þekktur frá fornu fari. Egyptar og Persar héldu vatninu hreinu í silfurílátum og Rómverjar og Grikkir notuðu silfur til að græða sár. Nanósilfur hefur slegið í gegn hjá framleiðendum sem bakteríudrepandi efni og er stundum sett í fatnað eins og skó, sokka, íþróttaföt og nærföt. Nanósilfur er líka notað í vörur eins og plástra, sængurföt, ryksugur, þvottavélar o.fl. Hætta er á að örverur þrói með sér mótstöðu með of mikilli notkun á efni eins og nanósilfri, sem getur þá valdið vandamálum í lyfjameðferðum, t.d. við meðferð á brunasárum.

Ónæmar bakteríur
Vegna þess hve bakteríur fjölga sér hratt aðlagast þær vel breytingum í umhverfi og mynda fljótt mótefni og verða því sterkari og breiðast út með tímanum. Afleiðingin verður sú að sýklalyfjameðferðir missa virkni og verða ekki lengur valkostur við lækningu á ákveðnum sjúkdómum. Myndun bakteríudrepandi ónæmis fyrir silfri er áhyggjuefni þar sem silfur er notað með góðum árangri til meðferðar á brunasárum og alvarlegum húðsjúkdómum. Þess vegna er varað við notkun á nanósilfri í neytendavarningi í jafnmiklum mæli og stefnir í.

Regluverk í ólagi
ANEC (samstarfsvettvangur neytenda á EES-svæðinu um staðlamál) og BEUC (Evrópusamtök neytenda) hafa áhyggjur af auknum fjölda vörutegunda sem innihalda nanóefni og eru nú á markaði í Evrópu án þess að hafa verið rannsakaðar með tilliti til öryggis neytenda og umhverfisins. Það er því afar brýnt að settar séu reglur um notkun nanóefna í vörum. Matvæli, matvælaumbúðir, snyrtivörur og vefnaðarvörur eru dæmigerður neysluvarningur sem inniheldur nanóefni. Neytendur fá oft óskýrar og villandi fullyrðingar um innihald nanóefna við val á vörum. Jafnvel þó það sé skylt að upplýsa um nanóefni í snyrtivörum eru vísbendingar um að ekki sé alltaf farið eftir því. Auk þess er mikilvægt að gera öðrum en framleiðendum snyrtivara skylt að upplýsa á umbúðum um notkun nanóefnis. Sjá textabox um íslenskar reglugerðir.

Íslenskar reglugerðir
Umhverfisstofnun var spurð um reglur um nanóefni í innihaldslýsingu á vörum hér á landi. Með nýútkominni reglugerð um snyrtivörur nr. 577/2013 þarf nú að taka fram í innihaldslýsingu hvort efni á nanóformi sé að finna í snyrtivöru. Krafan í reglugerðinni er svohljóðandi: Öll innihaldsefni í formi nanóefna skulu tilgreind skýrt í skránni yfir innihaldsefni. Á eftir heitum slíkra efna skal setja orðið „nanó“ innan sviga.

Þá er í undirbúningi að setja reglugerð um sæfiefni þar sem krafa verður gerð um að innihald sæfiefna í vörum og hlutum komi fram í innihaldslýsingu. Það á t.a.m. við um föt sem innihalda sótthreinsandi efni. Innihald nanóefna skal jafnframt koma fram í innihaldslýsingu sæfiefnanna sjálfra auk upplýsinga um hugsanlega áhættu af þeirra völdum,en sæfiefni eru virk efni og efnablöndur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum.

Ekki er um að ræða önnur skilyrði fyrir því að gera grein fyrir innihaldi nanóefna í öðrum neytendavörum sem falla undir þær reglur sem Umhverfisstofnun starfar eftir.

Markaðskannanir
Vörunum sem innihalda nanóefni samkvæmt innihaldslýsingu fjölgar stöðugt. Þetta á t.d. við um ýmiss konar snyrtivörur, vefnað, heimilistæki og barnavörur. Í matvælaframleiðslu virðist nanótæknin einnig vera notuð en matvæli innihalda nanóefni án þess að neytendur fái upplýsingar um það. Neytendur fá svo almennt litlar vísbendingar um það í hvaða vörum þessi efni séu að finna. ANEC og BEUC könnuðu árið 2009 hversu algengt það væri að finna nanóefni í almennum neysluvörum í Evrópu og í þeirri markaðskönnun fannst 151 vörutegund sem innihélt nanaóefni. Árið 2010 var gerð sambærileg könnun og fundust þá nanóefni í 475 vörutegundum. Í seinni markaðskönnuninni, og einnig við skönnun á markaðnum árið 2011, sýndi það sig að notkun nanósilfurs í vörum hafði aukist gífurlega. Það var því ákveðið að í næstu markaðskönnun yrði nanósilfur sérstaklega skoðað. Í þeirri könnun fundust svo 109 vörur þar sem sérstaklega var tekið fram að varan innihéldi nanósilfur. Það var algengast í flokki heimilistækja, búsáhalda og hreinlætis- og snyrtivara. Áfram verður fylgst með þróuninni á markaðnum en ljóst er að nanótæknin er að ryðja sér til rúms á flestum sviðum vöruframleiðslu.

     
Hlutir sem eru með nanó, t.d. krem, þvottavélar, íþróttaföt, hurðarhúnar. 


Kolefnis-nanórör er notað í efni sem á að vera mjög sterkt og um leið létt eins og reiðhjól og tennisspaðar.


Sumar bakteríur mynda ónæmi fyrir örverueyðandi lyfjum og geta lifað af meðferð með efnum (t.d. biocide eða antibiotic) sem þær eru annars mjög viðkvæmar fyrir.

 

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 3. tbl. 2013
Höf.Þuríður Hjartardóttir

Heimildir:
Tænk; maí 2012
ANEC/BEUC; Nano very small and everywhere; febrúar 2012
Umhverfisstofnun
 

Nanó:  smáar agnir – stórar afleiðingar

Nanó: smáar agnir – stórar afleiðingar