Neytendasamtökin 60 ára

Föstudagur, 22. mars 2013
Jóhannes Gunnarsson

 

Á morgun fagna Neytendasamtökin 60 ára afmæli, en samtökin voru stofnuð 23. mars 1953. Þau eru þriðju elstu neytendasamtök í heiminum og var helsti hvatamaður að stofnun þeirra Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur. Þegar Sveinn kom heim úr námi frá Svíþjóð sá hann hve staða íslenskra neytenda væri að mörgu leyti slæm. Það átti ekki síst við hvað varðar skort á neytendalöggjöf en einnig var viðhorf framleiðenda og seljenda til eðlilegra og sanngjarnra krafna neytenda neikvætt.

Allt frá stofnun Neytendasamtakanna hefur langstærsti hluti starfseminnar verið fólginn í að leiðbeina neytendum um lagalegan rétt sinn í viðskiptum og aðstoða þá við að ná fram rétti sínum takist þeim það ekki sjálfir. Þessi þáttur starfseminnar er enn sá mikilvægasti. En samtökin tryggja einnig hagsmuni neytenda með ýmsum hætti, svo sem með umsögnum um lagafrumvörp, upplýsingagjöf í gegnum heimasíðuna ns.is og Neytendablaðið og áskorunum til stjórnvalda í ýmsum brýnum málum. Á sex áratugum hefur sem betur fer margt áunnist og mörg dæmi eru um að barátta Neytendasamtakanna hafi borið árangur.Þannig má rifja upp þegar Neytendasamtökin söfnuðu á skömmum tíma um 20 þúsund undirskriftum þar sem þess var krafist að Grænmetisverslun landbúnaðarins yrði lögð niður og heildverslun með kartöflur yrði gefin frjáls. Þetta var gert í kjölfar þess að fluttar höfðu verið inn ónýtar kartöflur frá Finnlandi en seldar sem fyrsta flokks vara. Stjórnvöld ætluðu fyrst að þráast við en sáu að sér og gáfu þessi viðskipti frjáls og starfsemi Grænmetisverslunarinnar var lögð niður 1983.

Styttra er síðan Neytendasamtökin fóru í málaferli vegna samráðs olíufélaganna sem lauk með fullum sigri og þeir neytendur sem höfðu komið með kvittanir til samtakanna sem sönnuðu viðskipti þeirra á samráðstímanum fengu bætur. Þegar smálánin svokölluðu komu fram gagnrýndu samtökin harðlega þá okurvexti sem lántakendur þurfa að greiða. Með nýjum lögum um neytendalán er tekið á þessum málum og hert mjög að þessari okurlánastarfsemi. Neytendasamtökin hafa einnig haft afskipti af fjölmörgum málum er varða matvæli og náð árangri. Þannig voru samtökin í fararbroddi fyrir því að settar yrðu reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum, en nú er skylt að merkja slík matvæli sérstaklega. Baráttan fyrir minni notkun á transfitusýrum skilaði sömuleiðis árangri auk þess sem samtökin kölluðu ítrekað eftir því að íslensk stjórnvöld innleiddu hollustumerkið Skráargatið. Þá má nefna að búið er að banna efnið BPA í pelum eftir að Neytendasamtökin höfðu ítrekað þá kröfu um árabil.

Það er erfitt að halda úti öflugu neytendastarfi í jafn fámennu landi enda byggja samtökin að stærstum hluta á félagsgjöldum. Félagsmenn eru nú um 9.000 og er það ágætis hlutfall miðað við höfðatölu. En betur má ef duga skal. Verkefnin eru óþrjótandi og því fleiri félagsmenn því öflugri samtök.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna
Greinin birtist í Fréttablaðinu, 22. mars 2013