Sex vinir

Fimmtudagur, 5. mars 2009
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Aðgerðaáætlun Símans fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu.

Nú auglýsir Síminn stíft að hægt sé að hringja í sex vini óháð kerfi. Í auglýsingum sjást fréttamenn furðu lostnir yfir þessari frábæru þjónustu enda aldrei heyrst um annað eins kostaboð. Í bakgrunninum sést svo frá sér numinn almúginn í gleðivímu yfir þessum merku tíðindum. Fjárhagsvandræði heimilanna á enda?

En hvernig virkar þetta svo?
Þar sem ég er alltaf að spara – og farsímareikningurinn óþarflega hár – ákvað ég að velja mér sex farsímavini og losa mig bara við hina. Þá gæti ég átt sex góða vini og talað við þá myrkranna á milli – ALVEG ÓKEYPIS.  Reyndar skildist mér, eftir nokkur áhorf, og túlkun á illskiljanlegri ensku, að ég gæti ekki nýtt mér vinina í útlöndum, eða í það minnsta ekki í Danmörku. En það getur nú varla skipt máli, Íslendingar eiga hvort eð er enga vini í útlöndum og hafa ekkert þangað að gera.  En áður en ég hafði endanlega gert upp við mig hvort tengdó skyldi verða vinur minn datt mér í hug að kanna málið nánar og skoða hvað öll þessi vinátta hefði í för með sér.

Sjónvarpsauglýsing Símans er nefnilega svolítið villandi. Þar er talað um lægsta mínútugjald á landinu óháð kerfi (11,90 kr. mínútan) og jöfnum höndum er talað um ókeypis símtöl í heimasíma (sem er allt annað tilboð) og sex vini. Þessir sex vinir eru hins vegar aðeins í boði ef maður er reiðubúinn að greiða 14,90 kr. fyrir mínútuna (eða 25% hærra gjald en talað er um í auglýsingunni). Lægsta mínútugjaldið er nefnilega hluti af öðrum kostapakka hjá Símanum, en hann er fyrir vinafáa, því þar má aðeins eiga einn vin. Hér er því um þrjú aðskilin tilboð að ræða, eitt með sex vinum, annað með lægsta mínútugjaldi og hið þriðja með ókeypis símtölum í heimasíma.

Semsagt, fyrir fimm vini og tengdó þarf ég að borga hærra mínútugjald ef ég hringi í aðra en vinina. Skiptir ekki máli því ég fæ samt að hringja alveg ókeypis í vini mína.

Eða hvað? Nei, ekki alveg, til að eiga sex vini þarf ég nefnilega að borga 1.990 kr. á mánuði. En það er allt í lagi, símreikningurinn verður þá ekki hærri en 1.990 kr. á mánuði því ég get talað endalaust við þessa sex vini.

Eða hvað? Nei, ekki alveg, við símavinina má ég samtals tala í 1000 mínútur á mánuði og senda þeim 500 sms samtals. Þetta gerir að meðaltali fimm og hálfa mínútu á dag fyrir hvern vin og það hrekur nú tengdó út úr dæminu, því konan sú getur sko talað.

Gjaldskrár og skilmálar fjarskiptafyrirtækjanna eru vandrataður frumskógur þar sem erfitt er að fóta sig og fáir sem skilja upp eða niður í símreikningnum. Ég veit raunar ekki hvort það finnast fleiri annmarkar eða skilyrði fyrir þessari vinaeign, ég hreinlega gafst upp á pælingunum og held bara áfram að bölva í hljóði þegar ég borga símreikninginn. Held það sé einfaldast fyrir mig að losa mig bara við vini mína – eða í það minnsta hætta að tala við þá í síma.

Neytendum er svo bent á, nú sem endranær, að kynna sér gaumgæfilega alla samningsskilmála áður en kemur að samningsgerð.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna.