Skráargatið - stjórnvöld hristi af sér slenið

Miðvikudagur, 30. nóvember 2011
Brynhildur Pétursdóttir

 

Mikill áhugi er meðal neytenda á hollustumerkinu Skráargatinu en það hefur gefist svo vel í Svíþjóð að Danir og Norðmenn ákváðu að taka það upp. Skráargatið sendir þau skilaboð til neytenda að tiltekin matvæli standist strangar kröfur varðandi innihald fitu, sykurs, trefja og salts, og sífellt fjölgar vörum á Norðurlöndunum sem bera merkið. Það sýnir kannski best hversu vel neytendur kunna að meta það.

Siv Friðleifsdóttir hefur, ásamt fleirum, tvívegis lagt fram þingsályktunartillögu um Skráargatið og hafa Neytendasamtökin sent inn jákvæða umsögn ásamt fjölmörgum öðrum. Ein umsögn er þó ekki jákvæð og kemur hún sameiginlega frá Samtökum iðnaðarins (SI) og Samtökum atvinnulífsins (SA).

Í ítarlegri umsögn þeirra segir m.a, „Samtökin telja að ekki sé hægt að flokka einstakar vörur í góðar eða slæmar eingöngu út frá næringarinnihaldi heldur beri að skoða mataræði í víðara samhengi.“ Þetta eru athyglisverð rök, sér í lagi vegna þess að framleiðendur halda ekkert aftur af sér þegar þeir vilja upplýsa um jákvæða eiginleika sinna vara. Þá má greinilega halda því fram að sumt sé hollara en annað.

SI og SA lýsa einnig yfir efasemdum um að ríkið eigi að leggja í kostnað við að kynna hin ströngu skilyrði Skráargatsins og telja að takmörkuðu opinberu fé sé betur varið til opinnar og fordómalausrar umræðu. Orðrétt segir einnig: „Það getur skapað falskt öryggi, alið á fordómum og gert mataræðið einhæfara en ella að velja í blindni eftir næringarmerki með svo ströngum skilyrðum sem Skráargatið er.“ Á öðrum stað segir svo að veruleg hætta sé á að „það telji fólki trú um að vörur sem ekki bera merkið séu óhollar og hvetji þar með til einhæfs mataræðis.

"Hér er mér eiginlega orða vant. Hvers vegna í ósköpunum ættu neytendur að „velja í blindni“ og hvers vegna ættu þeir að leggjast í sortir (þ.e. borða bara Skráargatsvörur) af hræðslu við að allur annar matur sé svo óhollur? Frændur okkar á Norðurlöndunum virðast ekki eiga í nokkrum vandræðum með að skilja hvað Skráargatið stendur fyrir og ég sé ekki að því ætti að vera öðruvísi háttað hér. Þá átta ég mig ekkert á þessu „falska öryggi“ sem Skráargatið gæti veitt. Staðreyndin er sú að í dag er oft erfitt að sjá hversu mikið saltmagn er í mörgum vörum og hversu mikinn viðbættan sykur þær hafa að geyma. Það kalla ég falskt öryggi.

Áhugaleysi stjórnvalda og neikvæð afstaða iðnaðarins gagnvart Skráargatinu eru vonbrigði. Ítrekað heyrum við fréttir af gríðarlegri sykurneyslu landans og við borðum allt of mikið salt. Þá hafa lífstílstengdir sjúkdómar, sem rekja má til rangs mataræðis og hreyfingarleysis, færst í aukana. Skráargatið mun að sjálfsögðu ekki leysa allan vanda en það væri að mínu mati eitt skref í rétta átt. Ég held reyndar að þrátt fyrir neikvæða umsögn SA og SI sjái margir íslenskir framleiðendur sér hag í að nota Skráargatið. Fyrir þeirra hönd og neytenda hvet ég stjórnvöld til að hrista af sér slenið og innleiða Skráargatið hið fyrsta.

 

Brynhildur Pétursdóttir
leiðari Neytendablaðsins 4. tbl. 2011