Skuggahliðar pálmolíuframleiðslunnar

Þriðjudagur, 5. febrúar 2013
Brynhildur Pétursdóttir

  

Gríðarleg aukning hefur orðið á neyslu jurtaolíu á síðustu áratugum. Árið 1980 var sojaolían langvinsælust og hafði 34% markaðshlutdeild á heimsmarkaði en pálmolían aðeins 11%. Á 30 árum hefur neysla á pálmolíu tífaldast; úr 4,5 milljónum tonna í 45 milljónir tonna, og er pálmolía nú mest selda jurtaolían í heiminum með 34% markaðshlutdeild. Sojaolía er í öðru sæti með 27% markaðshlutdeild. Stærstu innflytjendur pálmolíu eru Kína, Indland og Evrópusambandið.

Vinsældir pálmolíunnar koma ekki til af engu. Pálmolíutréð skilar 10 sinnum meiri jurtaolíu á hektara en sojabaunir, repja eða sólblóm. Pálmolía hentar vel til matvælaframleiðslu þar sem hún er bragðlaus og þránar hægt og talið er að hana megi finna í um helmingi allra pakkaðra matvæla. Pálmolía er einnig mikið notuð í snyrtivöruframleiðslu og hreinlætisvörur sem og í efnaiðnaði. 

Neikvæð umhverfisáhrif
En pálmolíuframleiðslan á sér skuggahliðar. Ræktun pálmolíutrjáa hefur haft víðtæk umhverfisáhrif í Suðaustur-Asíu, sérstaklega í Indónesíu og Malasíu sem samanlagt standa undir 85% af heimsframleiðslunni. Mikilvæg regnskógarsvæði eru rudd og mólendi þurrkuð upp til að rýma fyrir nýjum plantekrum og við það losnar gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda.

Frá 1967 til ársins 2000 fór það landsvæði sem tekið var undir pálmolíutrjárækt í Indónesíu úr 2.000 km² í 30.000 km². Skógeyðingin er svo hröð að Sameinuðu þjóðirnar spáðu því árið 2007 að lítið yrði eftir af skógum Indónesíu árið 2022. Reyndar hefur hægt á þessari óheillaþróun undanfarinn áratug en útbreiðsla pálmolíuplantekra er enn ein helsta ástæða skógeyðingar í Indónesíu og Malasíu.


Borneó er þriðja stærsta eyja í heimi og tilheyrir syðri hluti hennar Indónesíu en nyrðri hlutinn Malasíu. Borneó var í eina tíð þakin regnskógum og á eyðing þeirra engan sinn líka. Skógarhögg á stóran þátt í þeirri þróun og nú ógna pálmolíuplantekrur mikilvægu vistkerfi eyjunnar.

Áhrif á samfélagið
Ásóknin í landsvæði hefur leitt til átaka milli fyrirtækja, stjórnvalda og innfæddra og eru dæmi um að íbúar hafi verið hraktir á brott af landi sínu til að fyrirtæki geti nýtt landsvæði undir pálmolíutré.

Samkvæmt alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) eru fáir verkamenn í landbúnaði jafn berskjaldaðir og fólkið sem vinnur á pálmolíuplantekrum. Vinnulöggjöf er oft virt að vettugi, vinnudagar eru langir og verkafólki eru ekki tryggð hlífðarföt sem nauðsynleg eru þegar unnið er með hættuleg varnarefni.

Vinnan er illa launuð og dæmi eru um að verkamenn fái ekki borgað samkvæmt tímakaupi heldur eftir magni. Þannig er algengt að eiginkonur og börn vinni ólaunað til að aðstoða við að ná upp í kvótann. Eins og víða þekkist draga vinnuveitendur oft ýmsa kostnaðarliði af laununum, svo sem svefnaðstöðu og jafnvel fyrir afnot af þeim tækjum og tólum sem nota þarf við vinnuna. Þannig leiddi rannsókn samtakanna Sawit Watch í ljós að verkafólk á plantekrum Austur-Kalimantan á Borneó varð beinlínis skuldsett eftir að hafa unnið á plantekrum. Launin dugðu ekki fyrir þeim útgjöldum sem fyrirtækin innheimtu.

Börn vinna gjarnan á plantekrunum og sýndi rannsókn ILO  að á 75% heimila í Serdang Bedagai á eyjunni Súmötru voru börn látin vinna á plantekrum til að hífa upp laun fjölskyldunnar. Dæmi eru um að börn verkamanna á plantekrunum fái ekki fæðingarvottorð og þar með er hætta á að þau missi af tækifæri til menntunar.


Í bænum Muara Tae á Borneó búa 2.800 manns. Þeir lifa á landbúnaði; rækta hrísgrjón og grænmeti og vinna gúmmi úr gúmmitrjám. Í fyrra hóf pálmolíuræktandi að ryðja burt hluta af regnskógi sem bærinn hefur umráð yfir. Íbúarnir standa nú í útistöðum við fyrirtækið um yfirráðaréttinn á landinu og regnskógunum.  Masyarani, bæjarhöfðingi í Muara Tae, bendir hér á svæðið sem áður var þakið skógi en er nú verið að breyta í pálmolíuplantekru.

Nýtt ræktarland hefur verið rutt fyrir pálmolíutré en í bakgrunni sést regnskógarbeltið.

Pálmolía er unnin úr ávöxtum afríska pálmolíutrésins (Elaeis guineensis). Pálmolíuávextir vaxa í knippum fjóra til fimm metra frá jörðu. Þegar ávextirnir eru fullþroskaðir eru knippin höggvin af trénu og færð í nærliggjandi myllu þar sem ávextirnir eru unnir. Tímaramminn er mjög knappur því ávextirnir skemmast hratt og því ríður á að koma þeim í mylluna sem fyrst. Olía er einnig unnin úr kjörnum ávaxtanna og kallast hún pálmkjarnaolía.

Mengun og varasöm efni
Mikið er notað af varnarefnum á plantekrunum og mörg efnanna, svo sem eiturefnið Paraquat, eru bönnuð á Vesturlöndum. Notkun eiturefnanna stefnir heilsu verkafólksins í hættu auk íbúanna sem búa nærri plantekrunum. Eftirlit er lítið sem ekkert og enginn hefur í raun yfirsýn yfir það magn sem er notað. Eiturefnanotkunin veldur mengun í jarðvegi, ám og vötnum og eins veldur frárennsli frá pálmolíumyllunum mengun á nærliggjandi svæðum.


Skógar Indónesíu eru heimkynni nokkurra mikilvægra dýrategunda, svo sem órangútana, Súmötru-tígrisdýrsins, fíla og nashyrninga, auk stærsta fiðrildis í heimi; Alexöndrufiðrildisins.  Órangútönum hefur fækkað ískyggilega mikið í Suðaustur-Asíu en 90% af heimkynnum þeirra eru horfin vegna ágangs mannsins. 5.000 órangútanar deyja á hverju ári og ef þessi þróun heldur áfram verða þeir útdauðir innan 12 ára.

Margar plantekrur eru í eigu stórra fyrirtækja og er samþjöppunin mikil. Í dag eiga 10 stærstu fyrirtækin í pálmolíuframleiðslu alls 2.3 milljónir hektara af plantekrum sem gefa af sér 9.7 milljónir tonna af olíu. Það samsvarar 22% af heimsframleiðslunni.

Samtök um sjálfbæra pálmolíu
Samtök sem kallast Roundtable on Sustainable Palm Oil (RSPO), sem mætti útleggja sem „Samstarf um sjálfbæra pálmolíu“, voru sett á fót árið 2004. Í samtökunum eru 600 hagsmunaaðilar; ræktendur, fjárfestingarfyrirtæki, framleiðendur, seljendur, matvælafyrirtæki og félagasamtök, sem hafa það sameiginlega markmið að ýta undir sjálfbæra framleiðslu á pálmolíu. Í því felst meðal annars skuldbinding um gagnsæi í umhverfis-, félags- og lagalegum málefnum, ábyrg stefna í umhverfismálum og ábyrg afstaða gagnvart verkafólki og þeim samfélögum sem pálmolíurækt hefur áhrif á.
Pálmolía sem stenst þær kröfur sem RSPO gerir fær vottun. Fyrsta vottaða pálmolían kom á markað árið 2009 og hefur salan aukist ár frá ári. Í dag eru um 10% af pálmolíu á heimsmarkaði RSPO-vottuð og kemur hún að mestu frá Indónesíu, Malasíu og Brasilíu. Eftirspurnin eftir vottaðri pálmolíu er reyndar ekki mikil sem stendur en hún hefur þó aukist hratt í Evrópu. Þá hafa stórfyrirtæki eins og Unilever, ICA og REMA gefið út að þau muni einungis nota vottaða pálmolíu í vörur sínar frá og með árinu 2015. Það sem helst stendur í vegi fyrir aukinni sölu á vottaðri olíu er lítil eftirspurn frá stórum kaupendum eins og Kína og Indlandi.

Kerfið gagnrýnt
Þótt vottun RSPO sé vissulega skref í rétta átt hafa margir gagnrýnt fyrirkomulagið. Bent er á að ekki séu fyrir hendi raunveruleg viðurlög ef fyrirtæki brjóta gegn þeim siðareglum sem hagsmunaaðilar innan RSPO hafa komið sér saman um.Indónesía kemur næst á eftir Bandaríkjunum og Kína í losun gróðurhúsalofttegunda og er ástæðan fyrst og fremst eyðing skóga og þurrkun mólendis en gríðarlegt magn koldíoxíðs er geymt í mólendi Indónesíu og Malasíu. RSPO-vottun tekur ekki tillit til losunar gróðurhúsaloftegunda en til stendur að breyta því. Samkvæmt siðareglum RSPO má setja upp nýjar plantekrur á skógsvæðum sem ekki eru skilgreind með mikið verndargildi. Skilgreiningin á því hvað eru skógar með mikið verndargildi er hins vegar mjög á reiki. 


Þetta merki tryggir að pálmolían í vörunni er RSPO vottuð. Merkið var tekið í notkun í fyrra og því er sjaldgæft að sjá það á vörum en það gæti breyst.

RSPO pálmolía uppfyllir ekki kröfur um lífræna ræktun því mörg eiturefni eru leyfð, m.a. efnið paraquat. Lífrænt ræktuð pálmolía er reyndar aðeins 0,2% af heimsframleiðslunni og það er einnig mjög lítið um vottaða Fair Trade pálmolíu á markaði.

Hvernig standa fyrirtækin sig?
Neytendur geta alla jafna ekki séð hvort og þá hvers konar pálmolía er notuð í mat og aðarr vörur Þeir verða því að treysta því að framleiðendur kaupi aðeins pálmolíu sem framleidd er á sjálfbæran hátt. Neytendasamtök í Evrópu könnuðu stefnu 42 stórfyrirtækja í þessum efnum, þ.e. hvort hvort þau kaupi vottaða pálmolíu, hvort þau tryggi rekjanleika olíunnar og hversu opin þau er varðandi aðgengi að upplýsingum.

Af 20 fyrirtækjum sem framleiða neysluvörur fá snyrtivöruframleiðendurnir Weleda, Body Shop og Yves Rocher hæstu einkunn. Weleda notar einungis lífrænt ræktaða pálmolíu frá ræktanda í Brasilíu sem heitir Agropalma. Fyrirtækið gerir þá kröfu til birgja að þeir uppfylli kröfur um vinnuréttindi og náttúruvernd. Body Shop er einn af stofnendum RSPO og stefnir á að nota einungis vottaða olíu í lok þessa árs og Yves Rocher notar einungis RSPO olíu.Unilever er einn stærsti kaupandi pálmolíu í heiminum og notaði 1.400 tonn í framleiðslu sína árið 2011. Aðrir stórir pálmolíukaupendur eru Nestlé, Kraft Food, Procter&Gambler, Mars og Johnson&Johnson. Öll þessi fyrirtæki fá næsthæstu einkunn auk Mars og Rema 1000.

Þegar smásalar eru skoðaðir sérstaklega fær aðeins eitt fyrirtæki af 22 hæstu einkunn; franska keðjan Carrefour. Átta smásalar fylgja þétt á eftir, þar á meðal IKEA sem notaði 37.000 tonn af pálmolíu í fyrra. Önnur fyrirtæki eru styttra á veg komin og sum hafa hreinlega ekki sýnt neina viðleitni í þessum málum.

-BP-
Heimild: ICRT og DanWatch
Myndir: Danwatch