Sparnaður og eftirlit með fjarskiptamálum

mánudagur, 10. ágúst 2009
Ian Watson

 

Miklar breytingar hafa verið á fjarskiptamarkaði að undanförnu. Neytendasamtökin vilja upplýsa neytendur bæði um góðu fréttirnar – nýjungar sem spara pening fyrir neytendur – og slæmu fréttirnar – erfiðleikar sem ríkisstjórnin getur leyst og með því bætt hag allra heimila í landinu.

Góðar fréttir: Skype-byltingin og Evrópugjaldskráin

Skype er tölvuforrit sem býr til símtal í gegnum Internet Protocol í staðinn fyrir gömlu góðu leiðirnar sem símar nota. Símtal á milli tveggja tölva sem eru báðar með Skype, hvar sem er í heimunum, kostar ekkert (umfram það að þurfa að vera með nettengingu). Símtal frá tölvu í fastlínusíma í útlöndum kostar miklu minna en símtal frá venjulegum síma: Mínútuverð til margra landa í Evrópu og Norður-Ameríku er um það bil 3 kr. Jafnvel fyrir símtöl innan Íslands getur Skype verið góður kostur (mínútuverðið er um það bil 4,5 kr. en það er ekkert mánaðargjald eða stofngjald). Það er reyndar hægt að kaupa Skype-símtæki sem tengist beint inn í netbeininn (t.d. Dualphone 3088) og þá má sleppa því að þurfa að kveikja á tölvunni til að hringja eða svara símtölum. Íslendingar geta sparað mikið með því að nota Skype og það veitir fjarskiptafyrirtækjunum mikla samkeppni á fastlínusímtalamarkaðinum.

Þing og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins voru búin að fá nóg af háu verði á reikisímtölum – með öðrum orðum, símtöl úr farsímum sem eru ekki staddir í „heimalandi“ sínu. Vorið 2007 samþykkti þingið þak á verð sem fyrirtækin geta tekið fyrir slík símtöl. Ísland innleiddi tilskipunina haustið 2008 og í lok ágúst mun þakið lækka í €0,43 á mínútu fyrir símtal innan Evrópu og €0,19 fyrir móttekin símtöl (án vsk.). Þing Evrópusambandsins hefur nú framlengt tilskipunina og sett fleiri þök sem munu væntanlega taka gildi á Íslandi árið 2010. Til dæmis, SMS í útlöndum má ekki kosta meira en €0,11 án vsk. en SMS-verðið hefur hækkað talsvert á undanförnum árum, þrátt fyrir að fjarskiptafyrirtækin verði ekki fyrir neinum aukakostnaði þegar símnotandi sendir SMS. (Sama fasta gagnamagnið er sent úr öllum símtækjum á nokkurra sekúndna fresti hvort sem gögnin innihalda SMS eða ekki.)

Slæmar fréttir

Ísland hefur farið þá leið að vera með kæru- og úrskurðarnefndir í staðinn fyrir smámáladómstól. Það væri í góðu lagi ef nefnd væri til staðar fyrir viðskiptavini fjarskiptafyrirtækja. Birtist eitthvað á símreikningnum sem þú varst ósátt(ur) við og símafyrirtækið neitar að koma til móts við þig? Mjög líklega er hvorki kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, Neytendastofa, né Póst- og fjarskiptastofnunin (PFS) með heimild til að skera formlega úr málinu. Allar þrjár stofnanirnar eru með mjög þröngar lagaheimildir til að gripa inn í ágreiningsmál. Til er „úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála“ en þangað má eingöngu kæra ákvarðanir PFS, ekki hegðun fjarskiptafyrirtækja. Neytendur hafa engin raunhæf úrræði gagnvart fyrirtækjunum. Þá hafa fyrirtækin eins og grænt ljós til að vera mjög ágeng í kröfum sínum gagnvart neytendum. Það er þörf á skýrari kæruleiðum. Lög um hópmálsókn myndu einnig veita fyrirtækjunum mikilvægt aðhald.

Það sárvantar alvöru samkeppni á milli fjarskiptafyrirtækja. Þau eru öll með mjög svipað verð og um leið hátt verð. Ótrúlegasta dæmið í minni reynslu átti sér stað fyrir um það bil tveimur árum, þegar Hive (nú Tal) hætti að bjóða upp á ódýrari fastlínusímtöl til útlanda og viðskiptavinir urðu eftir með ekkert nema sama háa verðið og hjá hinum fyrirtækjum. Það virðist þurfa stjórnvaldsaðgerðir eins og Evrópugjaldskrána til að lækka verð.

Þá finnst mörgum að eftirlit með fjarskiptafyrirtækjum sé lítið eða afslappað. Þó að starfsmenn PFS og Neytendastofu séu heiðarlegir og duglegir hafa þessar stofnanir trúlega ekki tíma og stundum ekki lagaheimild til að gera meira en að bregðast við kærum og kvörtunum sem berast öðru hvoru. Þetta á sérstaklega við PFS en samgönguráðuneytið lét gera úttekt á stofnuninni haustið 2007 sem benti til þess að margt mætti bæta í starfi hennar. Snemma þessa árs varð misskilningur hjá stofnuninni í innleiðingu Evrópugjaldskrárinnar sem tafði hluta af verðlækkunum. Mikilvægt er að þessar eða aðrar stofnanir fái skýra lagaheimild frá ríkinu um að vernda þurfi hagsmuni neytenda á virkan hátt, og fjármagn til þess að sinna því verkefni.

Það mætti einnig bæta mörg smærri atriði. Neytendasamtökin vilja að neytendur séu betur upplýstir um kostnað símtala áður en hringt er; að símtöl séu mæld í sekúndum, ekki í mínútum; að það verði auðveldara að fá sundurliðun á símanotkun (flókið eða kostnaðarsamt hjá sumum fyrirtækjum); og að allar þjónustu- og skilmálabreytingar verði ávallt vel kynntar, skriflega, til viðskiptavina. Síðast en ekki síst er mikilvægt að fjölmiðlarnir birti gagnrýnar greinar um fjarskiptamarkaðinn. Stjörnvöld um allan heim eru farin að grípa til aðgerða varðandi viðskiptahætti fjarskiptafyrirtækja. Er ekki kominn tími fyrir sanngirni, gegnsæi, og hreinskilni í símamálum á Íslandi?

Eftir Ian Watson. Höfundur situr í stjórn Neytendasamtakanna.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst.