Stór hluti matvæla endar í ruslinu

Þriðjudagur, 11. mars 2014
Brynhildur Pétursdóttir

 

Umræðan um matvælasóun hefur aukist mikið á undanförnum árum. Afleiðingarnar af því að henda mat eru nefnilega alvarlegar og þá ekki síst fyrir umhverfið. Við sjáum kannski ekki eftir peningnum sem fer í ruslið vegna þess að við skipuleggjum innkaupin illa eða gleymum mat innst í ísskápnum.  Ég held þó að við myndum staldra við ef við tækjum raunverulega saman hvað það fer mikið af pening í ruslið. En jafnvel þótt við myndum ekki telja eftir okkur að henda peningum í formi mats þá ættum við að leiða hugann að þeim neikvæðu umhverfisáhrifum  sem þessi sóun hefur í för með sér.

Áætlað er að hátt í helmingur matvæla  í heiminum endi með einum eða öðrum hætti sem sorp. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum; á akrinum, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum. Þessi sóun er óumhverfisvæn í alla staði því framleiðsla, flutningur og urðun á matvælum krefst orku, vatns og landnýtingar. Þá ýtir sóunin undir hærra heimsmarkaðsverð á afurðum með slæmum afleiðingum fyrir þá sem síst hafa efni á að fæða sig. Þessi meðferð á mat er í raun bæði óskiljanleg og ólíðandi, eins og Tristram Stuart rekur listavel í bókinni Waste- uncovering the global food scandal  en þá bók rak á fjörur mínar árið 2009. Ég var ekki ein um að falla fyrir bókinni því hún vakti mikla athygli og lof gagnrýnanda. „Ein mikilvægasta bók um umhverfismál sem komið hefur út undanfarin ár. Fáar bækur hafa gert mig jafn reiðan.“ sagði gagnrýnandi Financial Times í umsögn sinni.

Í viðtali sem ég tók við höfundinn árið 2010 sagðist hann sem umhverfisverndarsinni hafa uppgötvað að ein auðveldasta leiðin í baráttunni fyrir betra umhverfi var að hætta að sóa mat. Það sé í raun einfalt skref sem krefst ekki mikilla breytinga á lifnaðarháttum en sé jafnframt gríðarlega mikilvægt því eins og málum er háttað í dag er matvælaframleiðsla heimsins ósjálfbær. Hann bendir jafnframt á að fátt hafi jafn mikil áhrif á vistkerfi jarðar og nútíma landbúnaður. Eftirspurn eftir mat í einum heimshluta þrýstir á um aukna landnýtingu hinum megin á hnettinum og stórum landsvæðum er breytt í ræktunarland, oft á kostnað mikilvægra vistkerfa svo sem regnskóga. Það er því sláandi hversu mikill hluti matvæla endar á ruslahaugum. Með aðeins broti af þeim matvælum sem er hent í heiminum væri hægt að fæða þann milljarð sem sveltur.

Í bókinni segir Tristram frá atburði frá unglingsárunum sem vakti hann til umhugsunar.  Hann átti gyltu sem lifði aðallega á afgöngum svo sem gömlu brauði úr bakaríinu. Einn daginn smakkaði Tristram brauðið sem var ætlað gyltunni og komst að því að það var í fullkomnu lagi. „Ég varð forviða yfir því að matvælum sem voru fullgóð til manneldis væri hent og að þessi sóun ætti sér stað úti um allan heim.“  Þetta varð að einhverju leyti upphafið að lífsstíl sem gengur út á að hirða ætilegan mat sem hefur verið hent. Hann segir eðlilegt að það veki sterk viðbrögð þegar fólk heyrir talað um slíkt „sorptunnugrams“. „Eðli málsins samkvæmt ætti auðvitað ekkert ætilegt að finnast í ruslatunnum. Markmiðið með þessum lífsstíl er einmitt að sýna fram á hversu fáránleg þessi sóun er.“
Lesa má nánar um bókina og höfund á heimasíðu Neytendasamtakanna og einnig má sjá fyrirlestur með Tristram Stuart á Ted.com

Brynhildur Pétursdóttir
Þingkona Bjartrar framtíðar og fulltrúi í stjórn  Neytendasamtakanna

Grein þessi birtist í DV 11. mars 2014

 

Ítarefni:

Sjá grein (PDF) um bókina Waste eftir Tristram Stuart

Sjá viðtal (PDF) við Tristram Stuart

Sjá grein (PDF) um matvælasóun og viðtal við Marínu Sigurgeirsdóttur