Þegar dauðann ber að garði

Þriðjudagur, 1. júlí 2014
Jón Daníelsson

Jafnvel dauðinn fæst ekki ókeypis

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum síðustu hálfa öld eða svo og á þeim tíma hafa peningar sett æ meiri svip á allt daglegt líf fólks. Fjöldamargt sem fram yfir miðja síðustu öld þótti sjálfsagt að fólk gerði sjálft eða hjálpaðist að við verður nú ekki framkvæmt nema fyrir peninga, jafnvel mikla peninga. Meðal þess sem þannig hefur orðið að stórum kostnaðarliðum eru ýmsar hefðbundnar athafnir í lífi fólks: Skírn, ferming, gifting, stórafmæli og síðast en ekki síst jarðarförin. Einhvers konar veisluhöld virðast flestum þykja sjálfsögð og það gildir líka eftir dauðann.

Útförin hefur í þessu samhengi þá sérstöðu að sá sem allt snýst um hefur ekkert að segja um framgang mála. Hafi hinn látni ekki skilið eftir sig nein fyrirmæli er einfaldlega orðið of seint að spyrja.

Hvað kostar að deyja?
Kostnaður við útför getur vægast sagt verið afar mismunandi. Neytendablaðinu er kunnugt um tilvik þar sem aðstandendum tókst að halda heildarkostnaði rétt innan við 370.000 kr. en fjórðungur af upphæðinni var vegna áletrunar á legstein. Konan sem um ræddi var jarðsett við hlið manns síns og á leiði hans hafði á sínum tíma verið settur legsteinn, ætlaður þeim báðum. Þennan legstein þurfti að flytja til áletrunar og aftur til baka.

Þessi gamla kona var jarðsett í kjól sem hún hafði haft mikið dálæti á og notuð voru sæng og koddi úr dánarbúinu fremur en að kaupa líkklæði og kistubúnað. Svonefnd sálmaskrá var einfaldlega skrifuð í Word og prentuð á venjulegan pappír í bleksprautuprentara með mynd af gömlu konunni framan á. Satt að segja er ekkert auðveldara með nútímatækni.

Það sem keypt var að í þessu tilviki var líkkista og lágmarksútfararþjónusta, ásamt einni auglýsingu í Fréttablaðinu. Reikningur útfararþjónustunnar (að kistunni meðtalinni) hljóðaði upp á 268 þúsund og auglýsingin kostaði tæplega 19 þúsund. Erfidrykkju var einfaldlega sleppt. Aðstandendur voru engu að síður ánægðir með útförina og töldu hana fyllilega sómasamlega.

Vafalítið má kalla þetta það minnsta sem unnt er að komast af með. Það er sem sagt gerlegt að koma látnum aðstandendum sómasamlega undir græna torfu fyrir 300.000 kr. og í þeirri upphæð rúmast kross með áletrun. Þetta litla dæmi heyrir þó líklegast til algerra undantekninga. Trúlega er miklu algengara að útfararkostnaður fari yfir milljón og auðvelt er að hleypa honum miklu hærra. Til að lengja þessa grein ekki úr hófi verður hér aðeins miðað við höfuðborgarsvæðið, en af ýmsum ástæðum má ætla að víða um land, einkum í smærri byggðarlögum, sé ýmiss kostnaður nokkru lægri.

Að mörgu að hyggja
Frá andlátinu og þar til gengið hefur verið endanlega frá leiðinu gerist miklu fleira en hægt er að ímynda sér í fljótu bragði. Nú til dags taka útfararstofur að sér flestallt það sem gera þarf og veita leiðbeiningar um þau atriði sem þær annast ekki sjálfar, og verður vart hjá því komist að leita til þeirra. Þótt þjónusta þeirra sé auðvitað ekki ókeypis þarf hún ekki að vera mjög dýr. Það sýnir dæmið sem rakið var að framan. Á hinn bóginn vildu sennilega fæstir vera án þeirrar þekkingar sem þar er til staðar.

Nú verða raktir helstu kostnaðarliðirnir í útfararferlinu. Til einföldunar verður hér miðað við kirkjulega athöfn, sem er algengust, þó margir standi nú utan trúfélaga eða aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni.

Tilkoma netsins hefur auðveldað alla upplýsingaöflun til muna. Á heimasíðu innanríkisráðuneytisins er að finna lista yfir fyrirtæki og einstaklinga, 21 talsins, sem hafa leyfi til að reka útfararþjónustu. Mun færri halda úti heimasíðum og aðeins sárafáar útfararþjónustur birta verðskrá. Það getur ekki talist til fyrirmyndar.

Hjá þeim fyrirtækjum sem birta verðskrá á heimasíðunni verður ekki séð að mikil verðsamkeppni ríki. Niðurstöðutölur verða nokkuð svipaðar, þótt á hinn bóginn geti verið talsverður munur á einstökum liðum. Hjá Útfararstofu kirkjugarðanna í Reykjavík má sjá dæmi um kostnað við útför í kyrrþey frá Fossvogskapellu annars vegar og hins vegar við útför frá sóknarkirkju. Munurinn er talsverður því útför í kyrrþey kostar rétt ríflega 300 þúsund, en útför frá sóknarkirkju rúmlega 530.000 kr.

Dýrasti liðurinn á báðum listum er líkkistan sjálf. Allra ódýrustu kisturnar á markaðnum eru ætlaðar til brennslu, og kosta um 120-125.000 kr., en næsta gerð fyrir ofan kostar víðast í kringum 150.000 kr. Algengast mun einmitt vera að þessar kistur verði fyrir valinu.

Þjónustugjald fyrirtækisins vegur auðvitað talsvert, en það virðist oft á bilinu 100-120.000 kr. Algengt verð á blómaskreytingum gæti verið nálægt 40.000 kr. Tónlistarflutningur og söngur er kostnaðarliður sem aðstandendur ættu að velta nokkuð fyrir sér því hann getur orðið hár, en upphæðin fer einkum eftir því hversu margir eru í kór og hvort fenginn er einsöngvari, en einsöngvarar taka mishátt gjald. Orgelleikarinn fær líka sitt.

Með kostnaði við útförina þarf líka að telja auglýsingar. Flestir kjósa enn að láta lesa tilkynningar í Ríkisútvarpinu og oftast eru bæði andlát og jarðarför líka auglýst annað hvort í Morgunblaðinu eða Fréttablaðinu, eða jafnvel báðum. Taxtinn hjá RÚV er 270 kr. fyrir hvert orð, eða 7-8 þúsund fyrir meðallanga tilkynningu. Blöðin eru dýrari, en bæði eru þau með fast verð fyrir slíkar auglýsingar; um 16.000 kr. hjá Morgunblaðinu og tæpar 19.000 kr. hjá Fréttablaðinu. Algengara mun vera að dánartilkynning sé birt fyrst og jarðarförin auglýst sérstaklega nokkru síðar. Auglýsingakostnaðurinn getur því auðveldlega orðið 40-70.000 kr.

Verðdæmin sem nefnd voru hér að framan eiga bara við útförina sjálfa. Nú er alsiða að kistulagning sé sjálfstæð athöfn og henni getur fylgt viðbótarkostnaður. Laun prestsins eru greidd af kirkjugarðsgjöldum, en kirkjurnar taka þóknun fyrir vinnu kirkjuvarðar. Sú þóknun er mishá en oftast á bilinu 6-12.000 kr. Deilt er um lögmæti þessarar þóknunar, en um það mál geta lesendur fræðst í vefritinu Kjarnanum, 27. útgáfu, 20. feb. 2014.

Ýmislegt smálegt getur auðveldlega tínst til og kostnað við ósköp hefðbundna og venjulega útför, mætti því kannski varlega áætla kringum 650.000 kr.

Erfidrykkjan
Mörgum þykir óhugsandi að sleppa erfidrykkjunni, svo fastan sess sem hún hefur áunnið sér. Reyndar virðist nokkur hugarfarsbreyting hafa orðið eftir kreppuna á þessu sviði líkt og mörgum öðrum.

Við vinnslu þessarar greinar kom í ljós að fólk virðist á síðustu árum opnara fyrir því að líta á erfidrykkjuna sem notalega samverustund frekar en að aðstandendur eigi að sjá til þess að allir fari saddir heim. Þá er boðið upp á kaffi og konfekt eða kannski kleinur og flatbrauð með hangikjöti og ekki endilega gert ráð fyrir að allir fái sæti. Kostnaðurinn er þá ekki öllu meiri en leiga fyrir sal safnaðarheimilisins.

Það eru reyndar einmitt safnaðarheimilin sem eru langalgengasta staðarval aðstandenda fyrir erfidrykkjuna. Leigan sem safnaðarheimilin innheimta er oft einhvers staðar á bilinu 30-60.000 kr. Við þetta þarf þó að bæta launum a.m.k. eins eða, eftir atvikum, fleiri starfsmanna í svo sem 4-6 tíma. Launin eru á bilinu 2.500-3.000 kr. á tímann og dúkaleiga bætist a.m.k. í sumum tilvikum við.

Kostnaður við að leigja sal í safnaðarheimili getur þannig verið nokkurn veginn á bilinu 45-110 þúsund eftir stærð salar og fjölda gesta. Á vefsíðunni salir.is er að finna til leigu sali í öllum stærðum og gerðum.

Sé erfidrykkjan með hefðbundum hætti – hlaðborð með brauðréttum, tertum og öðru sem tilheyrir – veltur kostnaðurinn á þeim fjölda sem aðstandendur áætla að muni mæta. Slík áætlanagerð er ekki alltaf auðveld og í flestum tilvikum telur fólk vissara að ganga þannig frá pöntuninni að allir fái örugglega nóg.

Sé hlaðborðið keypt hjá veisluþjónustu, eins og algengt er, má gera ráð fyrir að kostnaðurinn sé nálægt 1.800-2.000 kr. á mann. Auðvitað er afar misjafnt hversu margir eru viðstaddir útför og ekki mæta heldur alltaf allir í erfidrykkjuna, en ef við gerum ráð fyrir 100 manns kosta veitingarnar hátt í 200.000 kr. Að öllu samanlögðu þarf ekki að vera ofáætlað að kostnaður við erfidrykkjuna fari í mjög mörgum tilvikum í 300-400.000 kr. og hann getur sem best orðið talsvert hærri.

Að halda erfidrykkju á hóteli eða stórum veitingastað gæti jafnvel verið hagkvæmari kostur. Ekki þarf að muna mjög miklu á hlaðborðsverði milli hótels og veitingaþjónustu. Segja má að veisluþjónustan fáist undir 2.000 krónum á mann, en kosti yfir 2.000 á hóteli. Munurinn sem sagt kannski á bilinu 200-500 kr, en á móti örlítið hærra verði hótelanna vegur þungt að salarleiga er engin og eigi aðstandendur erfitt með að gera sér grein fyrir fjölda gesta, verður hótelið verulega álitlegur kostur vegna þess að þar er auðveldara að bregðast við með skömmum fyrirvara ef kirkjan fyllist af fólki.

Legsteinninn
Þegar erfidrykkjunni er lokið og allir farnir heim er þó eitt atriði eftir: Frágangur grafarinnar. Stundum er látið nægja að setja kross með áletrun, en algengara mun vera að það sé bráðabirgðaráðstöfun. Núorðið þykir í flestum tilvikum sjálfsagt og eðlilegt að kaupa legstein til að merkja gröfina til frambúðar.

Rétt eins og á svo mörgum öðrum sviðum getur kostnaðurinn við legstein verið æði misjafn. Líkbrennsla verður æ algengari hérlendis og hægt er að fá litla legsteina sem henta vel ofan á duftkersleiði, en má reyndar allt eins nota á hefðbundið kistuleiði. Slíka steina má fá fyrir innan við 100.000 kr.en þeir geta líka verið talsvert dýrari.

Þeir legsteinasalar sem haft var samband við voru sammála um að algengast væri að fólk veldi talsvert dýrari steina, oft einhvers staðar á verðbilinu 200-400.000 kr. Í þessu sambandi getur líka verið skynsamlegt að ganga úr skugga um hvort áletrun er innifalin í uppgefnu verði eða hvort greiða þarf fyrir hana sérstaklega. Það er dálítið mismunandi.

Aukahlutir eru líka í boði og þeir geta hleypt verðinu talsvert upp. Nefna má t.d. lukt og blómavasa, auk viðbótarskreytinga, sem geta kostað sitt. Almennt gildir hér eins og annars staðar að efri mörk eru engin. Einn legsteinasali minntist þess að hafa selt legstein fyrir 3-4 milljónir króna, en það var fyrir hrun. Hrunið og kreppan virðast þó hafa haft lítil áhrif á sölu legsteina. Fólk deyr jafnt í kreppu sem góðæri og ekki aðeins vilja aðstandendur rækja þessa hinstu skyldu sína með sóma heldur hefur margt eldra fólk lagt til hliðar peninga fyrir kostnaðinum.

Að öllu samanlögðu má segja að niðurstaða þessarar athugunar sé sú að með ýtrasta sparnaði sé unnt að halda útfararkostnaði innan við 400.000 kr. að legsteininum meðtöldum og innan við hálfa milljón þótt ódýrustu gerð erfisamkomu sé bætt við, en að algengasta heildartalan sé frá einni milljón upp í eina og hálfa.

Breytingar á 15 árum
Neytendablaðið birti grein um útfararkostnað fyrir 15 árum, í 3. tbl. 1999, bls. 16. Þá grein má nú finna á timarit.is. Efnistök voru að mörgu leyti svipuð þá og nú og því er unnt að mynda sér vissar hugmyndir um verðbreytingar á þessum eina og hálfa áratug sem liðinn er. Neysluvísitalan hefur ríflega tvöfaldast frá júní 1999 til mars 2014. Nánar tiltekið má margfalda verð í júní 1999 með 2,2 til að uppfæra það til núverandi verðlags. Sé það gert virðist verðlagning í flestum tilvikum hafa fylgt verðlagi nokkurn veginn. Sumt virðist hafa hækkað eitthvað lítils háttar umfram verðlag, en það verður tæpast fullyrt. Líkkistur eru þó greinilega a.m.k. 20% dýrari en fyrir 15 árum. Líklegasta skýringin er auðvitað mikið gengisfall krónunnar í kjölfar hrunsins.

Auglýsingataxti RÚV hefur líka hækkað um 40% umfram verðlag, en dánartilkynningar þar eru þó áfram langt undir almennum taxta og eru líka um helmingi ódýrari en í blöðum. Samt hefur taxti Morgunblaðsins reyndar lækkað dálítið miðað við vísitölu.

Niðurstaða þessarar athugunar er sem sagt svipuð og árið 1999. Dauðinn er fjarri því að vera ókeypis og fólk ætti tvímælalaust að hugsa fyrir því að skilja eftir sig fyrirmæli varðandi útförina. Án slíkra fyrirmæla standa aðstandendur alveg berskjaldaðir gagnvart því sem þeim kann að finnast að skyldan bjóði, en við slíkar aðstæður hættir fólki til að taka þegjandi við reikningnum og draga upp veskið.

Jón Daníelsson
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 1.tbl. 2014