Þurfum við heimasíma?

mánudagur, 1. september 2014
Nanna Traustadóttir

Neytendablaðið frétti af félagsmanni sem sagði nýlega upp heimasímanum og spurði hann ofangreindrar spurningar. Svarið er á þessa leið:

Heimili mitt er hálfdanskt, sem er að miklu leyti ástæðan fyrir því að við skoðum mjög reglulega öll föst útgjöld og „einföldum“ heimilishaldið. Hugmyndin er ekki alltaf sú að spara rosalega mikið, heldur alveg eins að vera ekki að setja pening í eitthvað að tilefnislausu. Það hefur verið mitt hlutverk að skoða fjarskiptamálin og frá árinu 2007  höfum við þrisvar sinnum skipt um fyrirtæki sem hefur haft í för með sér talsverðan sparnað og er í raun mjög lítil fyrirhöfn. Nú erum við búin að taka alveg nýtt skref í fjarskiptamálum og segja upp heimasímanum. Það var í raun auðveld ákvörðun en átti sér þó talsverðan aðdraganda.

    Í mörg ár höfum við velt vöngum yfir því af hverju danskir vinir okkar og fjölskylda eru hættir að vera með heimasíma. Þetta hefur í bland pirrað okkur og auðvitað líka vakið forvitni okkar. Við höfum lengi vel sótt í það að hringja til Dananna með sérstökum afslætti, „landlínu í landlínu“ sem öll fjarskiptafyrirtækin bjóða í einhverri mynd. Í ágúst síðastliðnum nýtti ég einmitt slíkan afslátt þegar ég ákvað að hringja í danska vinkonu mína sem ég er í miklum tölvupóst-/skype-/facebook-/viber-/whatsapp-/snapchat-/hangout-/ sms-samskiptum við. Á heimilinu svarar enginn, ég hringi ítrekað þetta kvöld og svo aftur kvöldið á eftir. Ég sendi henni skilaboð á degi tvö til þess að kanna hvort þetta sé ekki örugglega heimasímanúmerið hennar og þá biður hún mig um að koma á skype. Það kemur þá í ljós að þau hjónin hafa heyrt skrítið hljóð þá um kvöldið og kvöldið áður…hljóð sem þau átta sig nú á að var heimasíminn þeirra að hringja! Þeim fannst þetta drepfyndið og þökkuðu mér fyrir að minna sig á að þau eru ennþá að borga fyrir heimasímann. Vinkona mín sagði heimasímanum upp í þessari sömu viku. Mér fannst eiginlega allt í þessari uppákomu fáránlegt, en á þessum tímapunkti var eina danska landlínan sem við áttum eftir til tengdó. Eina raunverulega íslenska notkunin var svo sú að amma mín hringdi reglulega í heimasímann.

    Það gerist síðan tvennt í janúar sem verður til þess að ég ákveð að nú sé landlínan dauð. Nr. eitt: Tengdaforeldrar mínir segja upp heimasímanum sínum. Þau ætla að láta sér nægja sinn farsímann hvort og internettengingu. Þau eru fædd ´43 og ´44 og búa á pínulítilli eyju í Limafirðinum. Nr. tvö: Einn vinur minn á facebook tilkynnir að símtækið hans sé til sölu því hann sé hættur að vera með heimasíma. Við erum að tala um mann búsettan á Íslandi með fjölskyldu, sem er merkilegt því ég taldi mig akkúrat þurfa að vera með landlínuna út af börnunum. Ég tjáði mig um þetta á facebook, enda hafði ég verið að spá í þessum málum í þó nokkur ár og alltaf lent þeim þannig að fjölskyldufólk þyrfti bara að vera með heimasíma.

Ég sló til og  sagði upp heimasímanum þegar facebook-vinurinn benti mér á að það væri mun ódýrari öryggisaðgerð fyrir börnin að nota gamlan farsíma með 500 kr. frelsisinneign. Í okkar tilfelli vorum við að borga 32.400 krónur á ári fyrir heimasíma sem við notuðum nánast ekkert. Elsta barnið okkar er í 4. bekk og á sinn eigin farsíma. Miðbarnið byrjar í skóla í haust. Við erum ekki alveg tilbúin til þess að láta hana hafa farsíma strax, þannig að við ætlum að nota öryggisráð facebook-vinar míns og vera með aukafarsíma heima við næstu árin.

    Ég finn nákvæmlega engan mun á neinu hvað varðar þægindi í lífi mínu við þessa breytingu, enda 3/5 af heimilisfólkinu nú þegar með sinn eigin síma og ekkert mjög mörg ár í að hlutfallið hækki enn frekar. Hvert heimili verður auðvitað að meta sínar aðstæður og þarfir en ég tel þó mjög líklegt að margir séu að réttlæta heimasímann með sömu rökleysu og ég gerði.

Aukaupplýsingar:
Það þurfti að gera nýjan internetsamning hjá mínu fjarskiptafyrirtæki út af þessu með símalínuna, annars myndi netið detta út. Enginn aukakostnaður.

Nanna Traustadóttir
Félagsmaður í Neytendasamtökunum

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 1.tbl.2014