Torsóttur gjaldeyrir

Fimmtudagur, 8. október 2009
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Síðustu mánuði hafa gjaldeyrisviðskipti Íslendinga færst aftur til þess horfs sem þau voru í fyrir allmörgum árum. Þessi þróun er raunar í andstöðu við reglur EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns og í andstöðu við þá reglu laga um gjaldeyrismál að gjaldeyrisviðskipti skuli að meginstefnu til vera óheft.

Tilgangurinn með nýjum reglum um gjaldeyrismál er í sjálfu sér góður og gildur en ætlunin er að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði og búa í haginn fyrir styrkingu krónunnar. Hins vegar er forvitnilegt að skoða hvernig þessar reglur horfa við hinum almenna neytanda.

Hvernig er framkvæmdin?

Neytendasamtökin fengu nýverið erindi frá reiðri móður sem sagði farir sínar af gjaldeyriskaupum barns síns ekki sléttar:

„Dóttir mín sem er 12 ára er á leið í helgarferð með vinkonu sinni og fjölskyldu hennar. Eftir að hafa safnað dósum og sníkt styrki frá öfum og ömmum þá var kominn smásjóður til að taka með í ferðalagið (30.000 kr.). Pabbinn fór í sinn viðskiptabanka í Reykjavík með farseðil stúlkunnar og alla aurana og vildi kaupa danskar krónur en fékk neitun. Barnið átti að koma með til að þetta væri hægt og ekki mögulegt að fá gjaldeyri þrátt fyrir að pabbinn benti starfsmanni á að stúlkan væri í skólanum og byggi þar að auki í Hveragerði og ætti ekki hægt um vik að skjótast í frímínútum. Barnið ætti auk þess bara lokaða bók í litlum sparisjóði úti á landi og ætti þar af leiðandi engan viðskiptabanka. Það var sem sagt ekki smuga fyrir foreldri sem bæði er forsjáraðili barns og er með sama lögheimili að fá að taka út gjaldeyri nema barnið kæmi með.“

Einnig höfðu samtökin fregnir af manni sem lenti í miklu basli við gjaldeyriskaup fyrir stutta utanlandsferð en viðskiptabanki hans var á fremur afskekktum stað úti á landi. Þegar viðkomandi spurðist fyrir um það í banka á höfuðborgarsvæðinu hvort hann gæti ekki bara opnað reikning og þar með orðið viðskiptavinur og fengið gjaldeyri var svarið nei, til að mega kaupa gjaldeyri yrði hann að vera með launareikning í viðkomandi banka.

Hvernig eru reglurnar?

Í stuttu máli ganga nýjar reglur út á það að hver og einn má ekki flytja út gjaldeyri sem er að verðmæti meira en 500.000 kr. í hverjum mánuði. Þá má ekki taka út reiðufé í erlendri mynt nema sýnt sé að féð eigi að nota til að greiða fyrir vöru eða þjónustu, þ.m.t. ferðalög.

Á heimasíðu Seðlabankans Íslands kemur einnig fram að bankarnir geti sjálfir ákveðið að takmarka gjaldeyrissölu (niður fyrir þessar 500.000 kr.) ef seðlaeign er ekki næg. Einnig kemur þar fram að framvísa þurfi farseðli við gjaldeyriskaup þar sem bankarnir þurfi að skrá tilefni gjaldeyriskaupa

Þetta er að nokkru í samræmi við reglur um gjaldeyrismál en gerð er sú krafa að bankarnir geti lagt fram gögn um að sala gjaldeyris hafi farið fram í samræmi við settar reglur þannig að kanna þarf tilefni gjaldeyriskaupanna. Þó má spyrja sig hvað það komi öðrum viðskiptum við bankann við og hversu mikil viðskiptin þurfa að vera? Flestir hafa einhver viðskipti við fleiri en einn banka og þú ert þegar orðinn viðskiptavinur bankans um leið og óskað er eftir kaupum á gjaldeyri. Hins vegar, miðað við söguna hér að ofan, virðist vera gerð krafa um að launareikningur sé í viðkomandi banka.

Þessar reglur vekja upp ýmsar spurningar um stöðu neytenda við gjaldeyriskaup. Hvað t.a.m. með þá sem eru ekki að fara neitt en vantar kannski nokkrar evrur eða dollara til að greiða vini, búsettum erlendis sem staddur er hér á landi, gamla skuld? Hvað með alla afana og ömmurnar sem vilja senda barnabörnum erlendis smá skotsilfur að gjöf? Einnig er algengt að litlum frændsystkinum frá útlöndum sé sendur peningaseðill í afmælis- og jólagjöf frekar en að kaupa innflutt (og dýrara) leikfang úr búð hérlendis og senda í bögglapósti  En þarf þá líka að sýna farseðil? Er eina leiðin til að ná í örlítinn gjaldeyri sú að sýna farseðil? Ljóst er að millifærslur á erlenda bankareikninga eru kostnaðarsamar og geta kostað töluvert vesen, sér í lagi ef um smáar upphæðir er að ræða.

Er reglum um gjaldeyriskaup alltaf framfylgt?

Tveir starfsmenn Neytendasamtakanna fóru nýverið í banka til að kaupa dollara án þess að hafa með sér farseðil. Annar þeirra fékk 50 dollara í Kaupþingi þegjandi og hljóðalaust, án nokkurra spurninga, þrátt fyrir að Kaupþing sé ekki aðalviðskiptabanki hans. Hinn fór í Landsbanka á Laugavegi og var neitað um  100 dollara þar sem hann hafði ekki farseðil. Hann fór þá í Kaupþing á Hlemmi og fékk að kaupa 100 dollara án framvísunar farseðils, en hann er með reikning í báðum þessum bönkum.. Í báðum tilvikum var um smávægilegar upphæðir að ræða og í báðum tilvikum virðist sem reglur um gjaldeyriskaup hafi verið brotnar  en ekki er að sjá að þær gildi bara um upphæðir yfir ákveðnum mörkum heldur um öll gjaldeyriskaup.

Þessi viðskipti benda annars vegar til þess að reglurnar séu ekki alveg nægilega vel kynntar eða þeim nægilega framfylgt. Hins vegar er ljóst að reglurnar eru mjög ófullkomnar að því leyti að þær taka ekki til þeirra sem þurfa nauðsynlega og í lögmætum og eðlilegum tilgangi að nálgast óverulegar upphæðir í erlendri mynt án þess þó að geta framvísað farseðli.

Í spurningum og svörum um reglur er varða gjaldeyrismál, sem birtast á heimasíðu Seðlabanka Íslands er svo spurt að því hvort erlendur aðili geti keypt krónur af innlendu fjármálafyrirtæki. Svarið er stutt og laggott: Nei. Það virðist samt ekki vera farið eftir þessu, því Neytendasamtökin hafa staðfest dæmi um erlenda ferðamenn sem hafa ekki lent í neinum vandræðum með að skipta 100 dollara seðlum í íslenskar krónur í Landsbanka í Austurstræti. Þá spyr maður sig einnig hvernig þessu er framfylgt í hraðbönkum því þar geta ferðamenn tekið út gjaldeyri með kreditkortum sínum án nokkurrar fyrirhafnar.

Ósanngjarnar reglur?

Séu dæmisögurnar hér að ofan skoðaðar má halda því fram að þessar reglur séu ekki í öllum tilvikum sanngjarnar og eðlilegar. Þannig má efast um áhrif þess á íslenskt hagkerfi að tólf ára barn skipti dósapeningunum sínum í danskar krónur. Annað eins hefur nú verið látið óátalið!

Einnig virðist í raun sem nokkurt misræmi sé í því, sbr. dæmisögurnar hér að ofan, hvernig reglunum er framfylgt. Því hvetur undirrituð til þess að losað sé um hömlur á gjaldeyrisviðskiptum, í það minnsta þegar um mjög óverulegar fjárhæðir er að ræða.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna.