Um ábyrgðarmenn og ábyrgð á lánveitingum

Fimmtudagur, 25. mars 2010
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Á tímum sem þessum þegar margir eru í greiðsluvandræðum og sjá ekki fram á að geta staðið í skilum eru ábyrgðarmenn uggandi um stöðu sína. Mjög stór hluti Íslendinga, um 75.000 manns samkvæmt nýjustu tiltæku tölum, eru í ábyrgð vegna fjárskuldbindinga annarra, og fyllilega eðlilegt að þessi hópur hafi áhyggjur.

Í fyrravor tóku loksins gildi lög um ábyrgðarmenn, og má raunar furðu sæta að slík lög hafi ekki verið sett fyrr þegar ljóst er að þau varða svo stóran hóp þjóðarinnar. Áður var þó í gildi samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og stjórnvöld stóðu að. Samkomulagið hefur skilað ágætis árangri og t.a.m. eru nokkur fordæmi þess að ábyrgðarskuldbinding hafi verið felld úr gildi vegna þess að lánveitandi uppfyllti ekki skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu. Hins vegar er auðvitað nauðsynlegt að hafa reglur um stöðu ábyrgðarmanna bundnar í lög.

Helstu efnisreglur samkomulagsins og nú laganna kveða á um greiðslumat við lántöku, og um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns fyrir gerð ábyrgðarsamnings og á meðan hann er í gildi. Þannig er skylt að greiðslumeta lántaka í öllum tilvikum eftir gildistöku laganna, en áður var þessi skylda bara til staðar ef höfuðstóll var hærri en 1.000.000 kr. Áður en ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð er lánveitanda svo skylt að upplýsa hann skriflega um þá áhættu sem felst í því og veita ýmsar upplýsingar um lánið, fjárhæð þess og skilmála, um niðurstöðu greiðslumats, hvert hægt sé að leita vegna ágreinings, o.s.frv. Þessar skyldur fara eftir ákvæðum samkomulagsins vegna ábyrgðarsamninga sem gerðar voru fyrir gildistöku laganna, en um nýrri samninga gilda ákvæði laganna.

Eftir að ábyrgðarsamningur hefur verið gerður er svo skylt að tilkynna ábyrgðarmanni m.a. um vanskil á láninu og um hver áramót á lánveitandi að senda ábyrgðarmanni yfirlit um stöðu lánsins. Ef lánveitandi vanrækir þessar skyldur á ábyrgðarmaður ekki að gjalda fyrir það og ef vanræksla er veruleg fellur ábyrgðin niður. Þá má ekki gjaldfella allt lánið gagnvart ábyrgðarmanni nema honum hafi áður verið boðið að greiða þær afborganir sem komnar voru í vanskil.

Það sem gerir lögin helst frábrugðin samkomulaginu er annars vegar það að lögin gilda líka um það þegar einstaklingar gangast í ábyrgð vegna skuldbindinga fyrirtækja í eigu annarra, en samkomulagið gilti bara um skuldir einstaklinga. Hins vegar er svo það að samkvæmt 8. gr. laganna má ekki gera aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður eða fjölskylda hans býr ef ábyrgðin felst í persónulegri ábyrgð. Jafnframt má alla jafna ekki krefjast gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef kröfu má rekja til persónulegrar ábyrgðar. Þessi regla laganna gildir þó bara um ábyrgðir sem stofnað er til eftir gildistöku laganna.

Á mannamáli þýðir þetta að ef maður er persónulega ábyrgur (þ.e. lofar að greiða skuldina án þess að sérstök eign sé veðsett vegna hennar) fyrir skuld einhvers annars er ekki hægt að svipta mann heimili eða krefjast gjaldþrotaskipta. Þar sem lánveitendur eru almennt hrifnir af beltum og axlaböndum má reikna með að þetta hafi einfaldlega þau áhrif að menn fá ekki að gangast í persónulega ábyrgð nema eiga margar fasteignir, og þar með er meginþorri fólks útilokaður frá því að gangast í persónulega ábyrgð.
Hins vegar gildir þessi regla ekki ef ábyrgðarmaður veðsetur eign sína til tryggingar vegna láns til annars manns. Því má reikna með að lánveitendur krefjist hér eftir veðsetningar á fasteignum ábyrgðarmanns, en þá mega þeir gera aðför í þeirri eign og jafnframt krefjast gjaldþrotaskipta hjá ábyrgðarmanni. Þannig hefur þessi regla, sem kemur þó vel út á pappír, hverfandi áhrif á áhættu lánveitenda.

Helstu rökin fyrir ábyrgðarmannakerfinu og ofnotkun þess hér á landi eru þau að með því móti eigi ungt fólk auðveldara með að nálgast lánsfjármagn ef foreldrar og aðrir ættingjar vilja aðstoða ungt fólk í að koma undir sig fótunum. Ýmsir gallar eru á þessari röksemdafærslu og ekki má ekki gleyma því að almennt gera aðilar samnings, þ.e. í þessu tilviki lántaki og lánveitandi, ekki samning nema hann sé báðum til hagsbóta. Það er vissulega lánastofnunum til hagsbóta að lána peninga enda veltur afkoma þeirra m.a. á vaxtatekjum. Þá er einnig stór hópur ungs fólks sem býr ekki að frændgarði stöndugra ábyrgðarmanna og hefur því verið í vandræðum með að fá fyrirgreiðslu, þrátt fyrir ábyrgðarmannakerfið. Áður en bankarnir hófu að selja ábyrgðir vegna námslána voru t.a.m. alls ekki allir sem áttu þess kost að fá námslán. Með reglum um ábyrgari lánveitingar ætti einnig að draga stórlega úr vanskilum ungs fólks og þar með ætti ekki að vera þörf á veitingu ábyrgða.

Því má segja að það sé mun eðlilegra til framtíðar að setja reglur um ábyrgar lánveitingar. T.a.m. þarf að vera til raunhæfur neyslustaðall sem greiðslumat getur byggt á en hingað til hefur það tíðkast að áætla fólki hlægilegar upphæðir í framfærslu þegar greiðslugeta er metin. Þá er það einnig eðlilegt að lánveitendur, en ekki bara lántakar og fjölskyldumeðlimir þeirra (þ.e. ábyrgðarmenn), beri einhverja áhættu af lánveitingum. Lánveitendum er sjálfum frjálst að velja hverjum þeir lána og það ætti að vera ákveðið á grundvelli tekna, eignastöðu og fjármálasögu viðkomandi lántaka en ekki því hvort afi hans eða amma eru stóreignafólk. Ekki þarf að fjölyrða um það að lánveitendur hafa á undanförnum árum farið langt fram úr sér í lánveitingum og ættu þá í það minnsta að sitja í súpunni ásamt lántökum (og þá ekki bara þeim lántökum sem tóku lán upp á fleiri milljarða).

Hvernig sem þessu máli er velt fram og tilbaka hlýtur niðurstaðan alltaf að vera sú að það eru lánveitandi og lántaki, en ekki afar, ömmur, frændur og frænkur, sem gera samning sín á milli. Eðlilegt er við gerð samninga að báðir aðila vegi og meti hvort samningur er þeim hagkvæmur og standi svo og falli með þeirri ákvörðun.

Eftir Hildigunni Hafsteinsdóttur, lögfræðing Neytendasamtakanna. Grein þessi birtist í örlítið styttri útgáfu í Morgunblaðinu 25. mars 2010.