Um innflutning á hráu kjöti

Fimmtudagur, 14. mars 2013
Jóhannes Gunnarsson

 

Nýlega kom fram í fréttum að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi sent íslenskum stjórnvöldum bréf vegna banns á innflutningi á hráu ófrosnu kjöti. Það er álit ESA að þetta bann gangi gegn frjálsu flæði vöru sem á að gilda á öllu EES-svæðinu. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart.

Er innflutt hrátt kjöt hættulegt?

Íslensk stjórnvöld hafa sent ESA rökstuðning fyrir þessu banni. Þar er lögð áhersla á slæma reynslu okkar síðustu tvær aldirnar eða svo á innflutningi á lifandi dýrum og dýrahúðum. Ekki er fjallað um hættuna af hráu kjöti í þessum rökstuðningi. Það verður því að segjast eins og er að þessi rökstuðningur virkar ekki mjög sannfærandi á undirritaðan frekar en þá sem fara með þetta mál hjá ESA.

Fyrir um 5 árum síðan stóð til að heimila innflutning á hráu kjöti með samþykkt nýrra matvælalaga. Þáverandi yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, sagði þá í fjölmiðlum að þeir dýrasjúkdómar sem borist hefðu til landsins á síðustu árum hefðu borist með fólki en ekki með matvælum eða dýrum. Halldór sagði einnig að aðrar þjóðir væru ekki síður hræddar við að sjúkdómar gætu borist milli svæða og landa með matvælum og því hafi ESB samþykkt umfangsmikla löggjöf og eftirlitskerfi til að koma í veg fyrir slíkt.

Hvað með farfuglana?

Áður en frumvarp til nýrra matvælalaga var afgreitt af Alþingi tók Jón Bjarnason við lyklavöldum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytinu. Hann breytti frumvarpinu þannig að áfram yrði bannað að flytja hrátt kjöt inn og þannig breytt voru matvælalögin samþykkt af Alþingi. Þetta taldi ráðherra nauðsynlegt til að vernda innlenda bústofna.

Miðað við ummæli fyrrverandi yfirdýralæknis væri kannski eðlilegast að allir þeir einstaklingar sem til landsins koma verði settir í sóttkví enda geta þeir borið með sér salmónellu- og saurgerlastofna sem aldrei hafa fundist hér. Á sama hátt hlýtur það að vera mjög ámælisvert að farfuglar fái óáreittir að koma til landsins. Ef hættan er svo mikil af hráu kjöti að loka verði landinu fyrir innflutningi á slíku kjöti þá skulum við ganga alla leið og fyrirbyggja smit sem getur borist í bústofn landsmanna á mun auðveldari hátt en með hráu kjöti.

Viljum flytja út en ekki inn

Við viljum flytja út landbúnaðarvörur, þar á meðal lambakjöt. Ekkert er óeðlilegt við það, enda bjóðum við upp á góðar landbúnaðarvörur og fyrir íslenskan landbúnað eru vissulega sóknarfæri á erlendum mörkuðum ef rétt er að málum staðið. En á meðan við lokum landinu fyrir innflutningi á hráu kjöti getum við ekki vænst þess að aðrar þjóðir leyfi okkur að selja kjötvörur á sínum mörkuðum. Það verður að vera gagnkvæmni þegar kemur að viðskiptum á milli landa. Þannig getur íslenskur landbúnaður orðið fyrir tjóni vegna innflutningsbanns á hráu kjöti.

Ávinningur fyrir neytendur?

En hver yrði ávinningur neytenda ef innflutningur á hráu kjöti yrði heimilaður. Vegna stöðu krónunnar eftir hrun og hárra tolla sem lagðir eru á þessar vörur þurfa innlendir framleiðendur varla að óttast að þeir standist ekki verðsamkeppni við þær innfluttu. Ástæða er til að minna á að þegar ákveðið var að heimila frjálsan og tollfrjálsan innflutning á tómötum, agúrkum og paprika frá Evrópu voru ýmsir sem spáðu því að nú myndi innlend framleiðsla leggjast af. Niðurstaðan varð allt önnur, verð á þessum vörum lækkaði, framleiðslan innanlands jókst og innlendir framleiðendur högnuðust, enda kom í ljós að íslenskir neytendur voru tilbúnir til greiða hærra verð innlendu vörurnar en þær innfluttu. Þetta mun einnig eiga við um hrátt kjöt. Framboð og úrval í verslunum á kjöti myndi hins vegar aukast og þar með valkostir neytenda.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna