Um tryggingaskýrslu Neytendasamtakanna

Fimmtudagur, 6. nóvember 2003
Jóhannes Gunnarsson

 

Nýlega gáfu Neytendasamtökin út vandaða skýrslu um tryggingamarkaðinn sem vakið hefur mikla athygli. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Mikil samþjöppun hefur orðið á tryggingamarkaði á síðustu árum og ber hann greinileg merki fákeppni.
  • Iðgjöld hafa hækkað að meðaltali um 70% og lögbundnar bifreiðatryggingar um meira en helming.
  • Hagnaður tryggingafélaga hefur á undanförnum árum verið um 10 prósent og arðsemi eigin fjár á á bilinu 10-20 prósent.
  • Eigið fé hefur þrefaldast á fimm árum.
  • Tjónasjóðir félaganna hafa vaxið ört og liggja nú 38,3 milljarðar króna í þeim.

Fyrst lækkun, síðan eilífar hækkanir

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart. Gunnar Felixson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, hefur einn tryggingamanna tjáð sig opinberlega um skýrsluna. Gunnar hefur bent réttilega á að sumt í skýrslunni hafi komið fram áður. Það er eðlilegt því í skýrslunni er litið til síðustu ára og þar hafa tryggingafélögin alltaf komið við sögu og aðallega vegna verðhækkana.

Þó má ekki gleyma að fyrir nokkrum árum lækkuðu öll tryggingafélögin iðgjöldin mikið eitt árið. Ástæðan var einföld, það brast á samkeppni erlendis frá og tryggingafélögin þrjú lækkuðu öll verðið, enda gátu þau gengið í varasjóði (bótasjóðina). Gunnar hefur raunar sagt að þar hafi verið um óraunhæfa lækkun að ræða. Tryggingamiðstöðin hafi neyðst til að taka þátt í þessu þar eð hin tryggingafélögin tvö lækkuðu verðið niður fyrir erlenda keppinautinn. En tilgangurinn helgaði meðalið, það þurfti að bola óvelkomnum aðila út af markaðnum.

Athyglin sem skýrsla Neytendasamtakanna hefur vakið bendir því til þess að ekki sé vanþörf á að rifja upp ýmsar staðreyndir og setja þær í samhengi við stöðuna nú.

Eitt hefur Gunnar viljað leiðrétta í skýrslunni. Hann segir að Tryggingamiðstöðin hafi lækkað iðgjöld á bifreiðatryggingum síðustu tvö árin. Vissulega væri það góðs viti ef tryggingafélögin lækkuðu iðgjöldin eftir allar hækkanirnar. Því miður sjást slíkar lækkanir þó ekki í vísitölum Hagstofu Íslands sem birtar eru sem viðauki í skýrslu Neytendasamtakanna. Þvert á móti hafa iðgjöldin haldið áfram að síga upp á við eftir stóru stökkin árin 1999 og 2000. Vonandi verða þó lækkanir leiðarljósið hjá tryggingafélögunum í náinni framtíð, heildarafkomam og afkoman í bifreiðatryggingum gefur svo sannarlega tilefni til þess.

Bótasjóðirnir eru of miklir

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, hefur gert athugasemdir við umfjöllun í skýrslunni um umframfjármuni í tjónasjóðum tryggingafélaganna. Ályktunin í skýrslunni er þó byggð á athugun Fjármálaeftirlitsins á árinu 1999 um bótasjóði fyrir lögbundnar ökutækjatryggingar á árunum 1991-1996. Þar kom fram að búast mætti við að tveir milljarðar króna yrðu ekki greiddir út vegna ábyrgðartryggingatjóna. Þessi athugun gaf góðar vísbendingar um verklag og starfshætti tryggingafélaganna um ákvarðanir um stærð bótasjóða.

Í skýrslunni er dregin varfærnisleg ályktun af tölum Fjármálaeftirlitsins. Þó er tekið tillit til hversu fyrirferðarmiklar ábyrgðartryggingar bifreiða eru í starfsemi tryggingafélaganna. Það er því eðlilegt að álykta að í tjónasjóðum liggi nú að minnsta kosti fjórir til fimm milljarðar umfram það sem eðlilegt getur talist, eins og fram kemur í skýrslunni.

Auka þarf gagnsæi á tryggingamarkaði

Annars er engin ástæða fyrir Fjármálaeftirlitið að láta Neytendasamtökin gera slíka útreikninga. Eftirlitið hefur einstaka stöðu til að sannreyna tjónasjóðina. Fjármálaeftirlitinu er tryggður aðgangur að öllum gögnum tryggingafélaganna um þetta og að mínu mati er nauðsynlegt að það nýti sér þær heimildir sem það hefur til að kanna bótasjóðina ítarlega. Fjármálaeftirlitið þarf að birta sem fyrst niðurstöður slíkrar athugunar og efna með því loforð sem það gaf fyrir nokkrum árum.

Fjármálaeftirlitið og Neytendasamtökin eiga að leggjast á eitt til að auka gagnsæi á tryggingamarkaðnum. Fjármálaeftirlitið, eins og forveri þess Vátryggingaeftirlitið, hefur í skýrslum lagt áherslu á öflugri miðlun upplýsinga um starfsemi tryggingafélaganna. Neytendasamtökin hafa, eins og Evrópusamtök neytenda, beitt sér fyrir að samanburður milli tryggingafélaga verði auðveldaður og aukinn, meðal annars til að auka samkeppni á þessum fákeppnismarkaði.

Neytendasamtökin og yfirvöld; samstaða er nauðsynleg

Eins og skýrsla Neytendasamtakanna ber með sér fer því fjarri að eðlileg samkeppni ríki á tryggingamarkaði. Með fækkun tryggingafélaga hefur dregið úr samkeppni, iðgjöld hafa hækkað og tjónasjóðir félaganna hafa aukist óeðlilega mikið, enda hafa tryggingafélögin og eigendur þeirra hag af því. Gallinn er bara sá að þetta er allt gert á kostnað neytenda.

Neytendur í landinu sætta sig ekki við þetta. Því er nauðsynlegt að yfirvöld og eftirlitsstofnanir þess taki höndum saman við Neytendasamtökin til að koma á eðlilegu ástandi á þessum markaði, að minnsta kosti skárra en því sem nú er.