Uppeldi á gervihnattaöld

Miðvikudagur, 1. október 2008
Brynhildur Pétursdóttir

 

Uppeldi barna hefur eflaust aldrei verið auðvelt en ég er ekki frá því að nú á tímum sé það jafnvel orðið enn erfiðara enda kemur margt til. þegar ég var ung voru stundum sýnd tónlistarmyndbönd í sjónvarpinu. Þá voru söngvarar fullklæddir og þeir áttu það jafnvel til að taka nokkur dansspor. Í dag er annað hvert tónlistarmyndband með hálfberu fólki, aðallega hálfberu kvenfólki þótt karlmenn láti stundum skína í bringuna. Fetturnar og bretturnar eru á stundum þannig að fólk virðist vera að gera eitthvað allt annað en að syngja og textarnir eru eftir því.

Miðað við það sem sést á skjánum er nauðsynlegt fyrir söngkonur að fækka fötum, þær verða að vera gullfallegar, grannar og fleðulegar og mjaka sér girndarlega upp við hitt kynið, nú eða bara hvað sem fyrir verður. Sem ábyrgt foreldri verð ég auðvitað að setjast niður með börnum mínum og útskýra að útlitið sé ekki allt og kvenfólk þurfi ekki að dilla rassinum framan í næsta mann til að ná frama eða árangri.

Ef aðeins boðskapur tónlistarmyndbanda væri eina vandamálið. Einfalt atriði eins dagskrár sjónvarpsstöðvanna getur hæglega komið foreldrum í vandræði. Of oft er bannað efni sýnt snemma kvölds en það sem kalla mætti fjölskyldumyndir eða þættir eru jafnvel sýndir seint og um síðir. Bannaðir þættir byrja jafnvel fyrir kl 21:00. Síðasta vetur var danski þátturinn Forbrydelsen og bandarískur þáttur sem heitir Criminal minds (ég sá óvart einn þátt sem fjallaði að mestum hluta um afskorin eyru og fingur) sýndir um níuleytið en svo er íþróttaþáttur sýndur eftir tíufréttir! Þá er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna Aðþrengdar eiginkonur byrja ekki fyrr en að verða hálfellefu en þá eru flestar íslenskar aðþrengdar eiginkonur við það að sofna.

Er til of mikils mælst að gróft efni sem klárlega er bannað börnum sé sett seint á dagskrá en saklausara efni sýnt fyrr á kvöldin? Þá er grundvallaratriði að merkingar séu réttar. Þá á ég við gul og rauð merki efst í hægra horni. Tölvuleikjaframleiðendur eiga hrós skilið fyrir PEGI merkjakerfið sem segir til um eðli leikjanna og aldurstakmörk.

Fréttirnar eru kapítuli útaf fyrir sig. Ég held nefnilega að börn séu næmari fyrir fréttaflutningi en við gerum okkur grein fyrir. Þau vita að það sem er sagt í fréttum á sér stað í raunveruleikanum. Ég man þegar fréttir af fuglaflensufaraldrinum voru alla að æra. Þá kom mér nokkuð á óvart hvað dóttir mín hafði miklar áhyggur af þessum sjúkdómi. Svo mun einnig hafa verið um fleiri börn. Nýleg heimsendafrétt varð einnig dóttur vinkonu minnar mikið áhyggjuefni.

Á tímabili hafði ég ekki kveikt á sjónvarpsfréttum því ég vissi aldrei hvaða mynd birtist næst á skjánum. Aðvörun fyrir viðkvæmar sálir í upphafi fréttar hjálpar lítið ef fólk er á þönum í eldhúsinu og situr ekki límt við skjáinn. Mér sýnist þó að ástandið hafi aðeins skánað en fréttir eru langt í frá upplífgandi. Við getum kannski leitt hjá okkur allar hörmungarnar en hvernig melta börn þessar upplýsingar?

Eflaust er nauðsynlegt að segja fréttir af jarðskjálftum, stríðsátökum, hungursneyð, sjálfsmorðsárásum, rútuslysi í Austurríki, kynferðisofbeldi, fíkniefnabrotum, líkamsárásum og fleira í þessum dúr. Ég velti fyrir mér hvort ekki megi skella sakleysislegri fréttum, jafnvel jákvæðum og fræðandi fréttum í fréttatímann kl 19:00 og óhugnanlegri fréttir væru síðan fluttar í seinni fréttum sem yrði þá svokallaður hryllingsfréttatími. Ítarlegar lýsingar á grófu kynferðisbroti eiga t.d. ekkert erindi í sjö-fréttir sjónvarps eins og ég varð vitni að um daginn.

Hversu oft hefur ekki komið krúttleg dýragarðsfrétt í lok seinni fréttatíma? Þá eru börnin mín farin í háttinn og frétta því aldrei af litlu pöndunni sem fæddist fyrir tímann en er öll að ná sér á strik. Þau heyrðu hins vegar fréttina um sjálfsmorðsárás í Afganistan og mér er engin sérstök þægð í því.

Brynhildur Pétursdóttir
Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu 1. október 2008