Vanræksla á dýrum látin viðgangast

sunnudagur, 30. desember 2012
Brynhildur Pétursdóttir

Allt frá árinu 2001 hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af ábúanda á Stórhóli í Álftafirði vegna slæmrar meðferðar á sauðfé. Of margt fé hefur verið á bænum, smölun hefur ekki verið sinnt sem skyldi, látið er hjá líða að bólusetja lömb, féð er vanfóðrað, fóðrið lélegt og umgengni í fjárhúsum slæm. Hræ hafa fundist inni í fjárhúsum og fé hefur jafnvel verið geymt úti yfir vetrartímann.

Ef einungis er stiklað á stóru síðustu fjögur árin kemur í ljós að eftirlit, sveitarstjórn og dómstólar hafa haft í nógu að snúast vegna þessa eina býlis. Í júní 2009 gerðu eftirlitsmenn alvarlegar athugasemdir við ástandið á bænum. Féð var vanfóðrað og hræ af lömbum og kindum fundust í fjárhúsum og utanhúss. Matvælastofnun (Mast) kærði í kjölfarið ábúendur fyrir slæman aðbúnað og vanfóðrun. Málinu lauk með dómsátt; ábúandinn viðurkenndi sekt og var gert að greiða 80.000 kr. Honum var þó ekki meinað að stunda áfram búskap.

Í júlí 2009 ákvað sveitarstjórn að svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds vegna ítrekaðra brota á lögum um dýravernd og á lögum um búfjárhald. Þá voru um 1.300 kindur á bænum en býlið er talið rúma um 600 kindur. Þegar til kastanna kom reyndist ekki lagagrundvöllur til að meina ábúendum að stunda sauðfjárrækt.

Í janúar 2010 framkvæmdi lögreglan vörslusviptingu á 160 kindum því ekki hafði verið fækkað í bústofni eins og um var samið. Í desember 2010 fór Mast aftur fram á vörslusviptingu en rétt áður en til hennar kom flutti ábúandinn 190 kindur á annan bæ. Mast ítrekaði kröfu um vörslusviptingu í janúar 2011 enda hafi ábúandinn flutt mest allt féð aftur heim. Í apríl 2011 framkvæmdi lögreglan loksins vörslusviptingu fjár og þurfti í framhaldinu að lóga nokkrum dýrum vegna hors.

Í ágúst 2011 var ábúandi aftur kærður fyrir vanrækslu og slæma meðferð dýra. Dómur féll nú í október. Sýknað var í nær öllum ákæruliðum sem snúa að vanrækslu, slæmri meðferð fjár og vanfóðrun fjár á Stórhóli. Hins vegar var sakfellt fyrir svipaða ákæruliði vegna fjár sem geymt var á annarri jörð og einnig var ábúandi sakfelldur fyrir að hafa trassað að láta bólusetja lömb. Ekki þótti ástæða til að banna bóndanum að stunda áfram sauðfjárbúskap eins og ákæruvaldið hafði farið fram á.

Eftir lestur dómsins féllust mér hendur því ég fæ ekki séð hvernig ákæruvaldið á að geta sannað alvarlega vanrækslu ábúandans nema vakta býlið dag og nótt. Þannig þótti t.d. ekki sannað að kindurnar væru vanfóðraðar þrátt fyrir framburð dýralæknis og búfjáreftirlitsmanns þar um. Ekki þótti heldur sannað að gæðum heysins væri ábótavant, eins og eftirlitsmenn héldu fram, því sýni var ekki sent í rannsókn. Þá er tekið fram í dómnum að ekki sé hægt að útiloka að fóðrið sem gefið var dagana fyrir og eftir heimsókn eftirlitsmanna hafi uppfyllt gæðakröfur. 

Það er alveg ljóst að ábúendur á Stórhóli eiga ekki að sinna búfjárhaldi. Mér er því fyrirmunað að skilja hvers vegna svona alvarlegt mál fær að velkjast í kerfinu um árabil. Það er ólíðandi gagnvart dýrunum sem okkur ber að vernda. Það er ósanngjarnt gagnvart skattgreiðendum sem bera kostnaðinn af eftirliti og málarekstri auk þess að standa undir beingreiðslum til ábúandans. Það er ósanngjarnt gagnvart öllum þeim sauðfjárbændum sem stunda búskap með prýði og síðast en ekki síst er óþolandi að neytendur geti ekki treyst því að kjötið sem þeir kaupa úti í búð sé framleitt á forsvaralegan hátt.

Brynhildur Pétursdóttir
leiðari Neytendablaðsins 4. tbl. 2012