Varasöm fæðubót

Þriðjudagur, 23. mars 2010
Ólafur Sigurðsson

 

Nokkur umræða hefur verið um skaðsemi efna í Herbalife. Rannsóknastofa Háskóla Íslands í Lyfjafræði hefur staðfest dæmi um lifrarskaða vegna þeirra. Rannsóknir hafa birst í viðurkenndum fagritum þar sem ströng gagnrýni fræðimanna er viðhöfð. Þær eru unnar eftir stöðluðum aðferðum og niðurstöður kynntar og gagnrýndar fyrir birtingu. Þessar aðferðir eru þekktar og viðurkenndar og á undanförnum áratugum hafa allmörg lyf horfið af markaði þegar slíkar rannsóknir sýna möguleika á hættulegum aukaverkunum.

Það sem vekur þó athygli varðandi kynningu á niðurstöðum Lyfjadeildar Háskólans í Læknablaðinu, er sú harkalega gagnrýni sérfræðings og fyrrverandi kennara Háskóla Íslands í fjölmiðlum undanfarið. Þar er vegið að starfsheiðri starfandi læknis og prófessors, sem hefur áunnið sér gott orð fyrir vönduð vinnubrögð og lengi sinnt rannsóknum á fæðubótarefnum og fjallað um þau í ræðu og riti og nú síðast í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Það hefur ekki verið vanþörf á umfjöllun um fæðubótarefni þar sem neysla þeirra hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og áratugi.

Óhætt er að segja að fjölmörg fæðubótarefni standi ekki undir fullyrðingum auglýsinga um hollustu og heilsu. Einnig hefur Rannsóknastofa Háskólans í lyfjafræði sýnt framá að mörg þeirra eru varasöm og jafnvel hættuleg. Þó eyða neytendur umtalsverðum fjármunum í þessi efni. Telja má líklegt að fjölmörg fæðubótarefni myndu ekki seljast nema vegna auglýsingaherferða og fullyrðinga sem standast ekki. Hefur sala á fjölmörgum fæðubótarefnum dregist saman vegna banns þar sem fullyrðingar standast ekki. Dæmi um slíkt gæti verið Blómafrjókorn og fleiri fæðubótarefni.

Fullyrðingar sölumanna fæðubótarefna hafa oft þurft nánari skoðunar við. Þá hafa vísindamenn hérlendis verið fengnir til að kanna hvort viðurkenndar rannsóknir standi að baki auglýstum fullyrðingum eða ekki. Einn færasti sérfræðingur okkar um þessi efni er án efa Magnús Jóhannsson læknir og prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Hefur hann og starfsfólk Háskólans ætíð sinnt fyrirspurnum leikra og lærðra um nýjustu rannsóknir á fæðubótarefnum.

Það er því óþolandi þegar starf þeirra er gert tortryggilegt. Það villir um fyrir neytendum. Ekki skal fullyrt um tilgang Jóns Óttar Ragnarssonar að öðru leyti en að benda á að hann er umboðsaðili fyrir sölu Herbalifes hérlendis. Í grein í Fréttablaðinu 13. mars sl. titlar hann sig sem doktor í næringarfræði og fyrrverandi yfirmann matvæla- og næringarbrautar Háskóla Íslands. Ekki getur Jón Óttar þess að hann sé söluaðili Herbalife. Best væri að fræðimenn setji ekki viðurkennd vinnubrögð og framsetningu þeirra í uppnám með þessum hætti. Það er ámælisvert og kemur neytendum ekki til hjálpar.

Herbalife gagnast ábyggilega ýmsum, en aðrir geta fundið til meins. Sölumenn Herbalife ættu að geta tekið undir það, því svo gildir um mörg önnur fæðubótarefni. Meira að segja er ofneysla á lýsi hættuleg og bæri að bregðast við því ef það væri raunin. Þá væri réttast að það sé gert í samvinnu við söluaðila. En í þessu tilfelli stillir Jón Óttar Ragnarson sér upp gegn viðvörunum um hættuleg eitrunaráhrif og fullyrðir að Herbalife geti læknað lifrarbólgur! Minnir þetta helst á þegar fram komu viðvaranir um Blómafrjókornin á sínum tíma. Þau ollu ofnæmi hjá einstaklingum sem höfðu frjókornaofnæmi. Þá kom fram söluaðili sem sagði að þau gætu einmitt læknað frjókornaofnæmi! Þessi vinnubrögð hjálpa ekki neytendum.

"Mörg náttúruefni eru þekkt að því að geta valdið lifrarskaða. Nýleg íslensk könnun á aukaverkunum náttúruefna sýndi að lifrarskaði var oftast tengdur notkun Herbalife." Þetta er orðrétt úr skýrslu rannsóknarhópsins á Lyfjadeild Háskóla Íslands. Neytendasamtökin hafa því farið fram á það við Matvælastofnun að söluaðilum Herbalife verði gert að setja viðeigandi varúðarsetningar á umbúðir vörunnar, á sama hátt og gert er vegna aukaverkana lyfja. Neytendur verða að fá réttar upplýsingar á skýran hátt.

Eftir Ólaf Sigurðsson, höfundur er matvælafræðingur og situr í stjórn Neytendasamtakanna.