Verðmerkingar á kjöti

Þriðjudagur, 30. október 2012
Brynhildur Pétursdóttir

 

- eru neytendur sáttir?

Eftir að hætt var að verðmerkja kjöt og álegg í verslunum hafa margir neytendur lýst yfir óánægju með stöðu mála. Sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að banna forverðmerkingar var þó réttmæt enda er í alla staði óeðlilegt að framleiðendur sendi vörur á sama útsöluverði í allar verslanir.

Í dag er staðan þannig að mikill fjöldi kjötvara er staðlaður, svo sem álegg, pylsupakkar og þess háttar. Þetta þýðir að öll hangikjötsáleggsbréf frá sama framleiðanda eru á sama verði og svo framarlega sem verslanir passa að setja verðmiða við hverja vörutegund ættu neytendur ekki að lenda í vanda. Vandamálið snýr að kjötvörum, osti og fiski sem ekki er í staðlaðri þyngd því þar fáum við bara upplýsingar um kílóverðið. Til að sjá endanlegt verð þarf að bera vörurnar undir skanna, nema auðvitað að fólk sé þeim mun sleipara í hugarreikningi.

Kílóverðið er vissulega mjög mikilvægt því það gerir okkur kleift að bera saman verð á sambærilegum vörum. Mér, eins og svo mörgum öðrum, finnst hins vegar óþægilegt að sjá ekki líka endanlegt verð á pakkanum enda oft um dýrar vörur að ræða. Skannabrasið er einfaldlega of heftandi. Stundum nenni ég hreinlega ekki að bera hverja vöruna á fætur annarri undir skanna eða er bara ekki nógu vel klædd til að eyða löngum tíma í kælirýmum. Þá hef ég lent í því að muna ekki hvað fyrsta varan kostar þegar ég lýk við að skanna þá síðustu.

Það má færa rök fyrir því að þessi skortur á verðmerkingum slævi verðvitund neytenda. Við eigum að geta „skannað“ rekkana með augunum og séð hratt og örugglega hvað vörur kosta. Allar aðgerðir sem miða að því að hægja á okkur og flækja málin eru því af hinu illa.

Þar sem mikil óánægja hefur verið með nýja fyrirkomulagið skil ég hreinlega ekki hvers vegna verslanir verðmerkja ekki sjálfar þessar vörur. Á samkeppnismarkaði (og hér eru þrátt fyrir allt nokkrar matvörukeðjur) ættu seljendur að leita allra leiða til að koma til móts við kröfur neytenda og gera betur en keppinautarnir.

Seljendur halda því eflaust fram að vinnan við verðmerkingarnar kosti of mikið og hækki á endanum verð til neytenda. Ég blæs á slíkt tal. Verslanir finna þá einhverja aðra leið til að hagræða, t.d. mætti örugglega stytta opnunartímann víða. Þá má minna á að áður en strikamerkin komu til sögunnar þurfti að verðmerkja hverja einustu vöru. Mér þykir því ekki mikið þótt verslanir verðmerki þessa fáu vöruflokka sem ekki er hægt að pakka í staðlaða þyngd og komi þannig til móts við neytendur.  Hugsanlega hefði það verið betri og ódýrari lausn strax í upphafi en að kynna skannana til leiks. Reyndar skilst mér að kjötvörur séu vel verðmerktar í Iceland-versluninni, sem jafnframt hefur komið vel út úr verðkönnun ASÍ. Það er því greinilega hægt að veita þessa þjónustu án þess að kostnaðurinn fari út í verðlagið.

Kvörtunum til Neytendasamtakanna vegna verðmerkinga á kjöti hefur snarfækkað. Hvort það er til marks um að almenn sátt ríki nú um skannana eða það að neytendur hafi hreinlega gefist upp gagnvart kerfinu er ekki gott að segja. Mig grunar að margir séu enn ósáttir og hvet félagsmenn og aðra neytendur til að kvarta við verslanir ef svo er og hafa einnig samband við Neytendasamtökin.  Eins væri fróðlegt að vita hvort fólki finnist ásættanlegt að hafa ekki aðgang að vigt í grænmetis- og ávaxtadeildum til að geta áttað sig á endanlegu verði.

Brynhildur Pétursdóttir
leiðari Neytendablaðsins 3. tbl. 2012