Við þurfum ekki að eiga allt ...og aðeins meira

Þriðjudagur, 20. nóvember 2012
Þuríður Hjartardóttir

 

Nú hellast yfir okkur auglýsingar í öllum miðlum og bæklingar hrúgast inn um bréfalúguna, því jólin eru í nánd. Það er ekkert nýtt að seljendur keppist um að komast yfir þær fáu krónur sem við vinnum okkur inn. Við erum dugleg að fylgjast með nýjustu straumum í tísku og tækjum og látum okkur dreyma um að eignast dúnúlpu, prímaloft-jakka, loðskinnshúfu, jumpsuit-heilgalla, spjaldtölvu, snjallsíma, ryksugu-róbót, rafmagnsreiðhjól og allt sem hugurinn girnist. Það er ekki nóg að við látum okkur dreyma því eitthvað af þessu finnst á flestum heimilum. Enda skorar einkaneysla landans hátt í samanburði við aðrar þjóðir og alþjóðlegar merkjavörur þekkjum við manna best.

Jörðin er þó ekki nógu stór til að rýma ruslið eftir alla þessa neyslu. Við sjáum kannski ekki mikið rusl ennþá en það verður vaxandi vandamál, sem afleiðing ofurneyslunnar. Við erum heppin þar sem við erum bara önnur eða þriðja kynslóð ofurneytenda, því árið 1912 bjó fólk í torfbæjum og ferðaðist um á hestum. Við erum líka heppin því við erum lítil þjóð í stóru landi, ef allar þjóðir væru ofurneytendur þá værum við að drukkna í rusli og auðlindir jarðarinnar að þrotum komnar.

Hagsæld þjóða mælist í neyslu og okkur er sagt að sparsemi auki atvinnuleysi. Allt snýst um að þjónusta hvert annað og strauja greiðslukortið hægri, vinstri. Þess vegna erum við að drukkna í auglýsingum og markaðssetning verður æ lúmskari. Það er ábyrgðarhluti að segja fólki að hætta neyslu. Það er nú samt alveg óhætt að hægja aðeins á maskínunni og líta í eigin barm. Við þurfum ekki að eiga allt eins og nágranninn og helst aðeins meira!

Ég vil því vekja athygli á nýtnivikunni sem stendur yfir þessa daganna. Hugmyndin er að fá fólk til að skoða hvað það á og hvort ekki megi nýta betur dótið frekar en að henda því og kaupa nýtt. Gæti ég gengið aðeins lengur í skónum og jafnvel látið sóla þá aftur? Má ekki setja nýjan rennilás á úlpuna og nota einn vetur enn? Jafnvel setja árshátíðarkjólinn í hreinsun og nota hann sem jólakjól? Get ég ekki líka notað þennan farsíma lengur þó hann hafi ekkert apps?

Neytendur geta haft áhrif með ýmsu móti. Þeir geta valið vörur með vottuðu umhverfismerki t.d. svansmerkinu eða Evrópublóminu. Framleiðsla á vörum hefur nær alltaf neikvæð áhrif á umhverfið og því er umhverfisvænna að kaupa vandaðar vörur sem endast. Neytendasamtökin hafa um áraraðir birt gæðakannanir fyrir félagsmenn sína, margar þeirra sýna að ekki er alltaf samhengi milli verðs og gæða.

Sveinn Ásgeirsson fyrrum formaður Neytendasamtakanna flutti útvarpserindi í desember 1961 undir yfirskriftinni „Nýtt og úrelt“. Hann minnist þar á orð forstjóra mikillar verslunarsamsteypu í Ameríku „Það verður að hraða því sem mest að vörurnar verði úreltar. Það er hlutverk okkar að gera kvenfólk óánægt yfir því, sem það á. Við verðum að gera það svo óánægt að eiginmennirnir finni enga hamingju eða frið í hinum óhóflega sparnaði sínum.“ Sveinn sagði að það sem fyrst og fremst lægi að baki þessum hugsunarhætti er að „nýjar gerðir árlega skapa aukna sölumöguleika. Þegar nýjar vörur eiga í hlut þykir eðlilegra að auglýsingar verði áleitnari og seljendur ágengari. Og tæknilegum endurbótum á framleiðsluvörunum er þannig hagað, að þær skapi aukna atvinnu og meiri ánægju neytenda, og þær eru látnar koma fram smátt og smátt á kerfisbundinn hátt.“

Orð Sveins eru svo sannarlega ekki úrelt og enn eru þessi ummæli hans í fullu gildi: Menn skyldu minnast þess, að ef þeir kaupa í dag, það sem þeir ekki þarfnast, þá geta þeir ef til vill ekki keypt það, sem þá vantar nauðsynlega á morgun.

Skrifað í Nýtnivikunni 17.-25. nóvember 2012

Þuríður Hjartardóttir
Framkvæmdarstjóri Neytendasamtakanna