Villta vestrið í húsnæðismálum

Þriðjudagur, 11. nóvember 2014
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Undanfarin misseri hefur verið mikið rætt og ritað um skelfilegt ástand á húsnæðismarkaði, og þá ekki síst þegar kemur að leigumarkaðnum. Leigumarkaðurinn hér á landi einkennist af því að vera óreiðukenndur einstaklingsmarkaður sem lýtur takmörkuðu eftirliti og er lítt kortlagður, auk þess sem umframeftirspurn virðist viðvarandi. Allir eru sammála um að eitthvað þurfi að gera og margar skýrslur hafa verið skrifaðar og nefndir skipaðar til að leysa vandann. Einhverra hluta vegna hefur samt ekki mikið gerst.

Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna hefur nú verið starfandi í rúm þrjú ár og fyrstu átta mánuði þessa árs bárust um 1430 erindi, sem er nærri jafnmikið og allt árið 2013. Erindin eru afar margvísleg og spanna í raun allt það sem upp getur komið í tengslum við gerð, framkvæmd og lok leigusamnings. Á þessum þremur árum hefur Leigjendaaðstoðin einnig sent frá sér ítarlegar umsagnir um núgildandi lagaumhverfi leigumarkaðarins, auk erinda og ábendinga um það sem betur má fara.

Í landi þar sem séreignarstefnan hefur, til góðs eða ills, lifað góðu lífi er kannski ekki hægt að reikna með því að heilbrigðum leigumarkaði verði komið á í einu vetfangi. Engum getur þó dulist að séreignarstefnan hefur beðið ákveðið skipbrot og mikilvægt er, sérstaklega fyrir ungt fólk, að eiga val um aðra möguleika. Sé um heilbrigðan markað og örugga leigu að ræða, eins og víðast tíðkast í Evrópu, getur leiga nefnilega verið góður valmöguleiki, en á íslenskum markaði er hún frekar tímabundið neyðarúrræði sem enginn virðist velja sér. Þess í stað leitar fólk allra leiða til að kaupa sér fasteignir, jafnvel þó margir hafi hreinlega ekki efni á því, nema vera svo heppnir að njóta aðstoðar ættingja, enda fasteignaverð hátt og fjármögnun afar óhagstæð.

Enginn reiknar með því að á morgun verði hér sprottin upp mýmörg leigufélög, sem lúti ströngu eftirliti hvað varðar heilbrigða starfshætti, eða því að fólk geti flutt inn í leigufélagsíbúð í kringum tvítugt, og stækkað eða minnkað við sig eftir þörfum, og búið þannig við búsetuöryggi ævina á enda. Slíkt er þó vissulega verðugt langtímamarkmið að stefna að, en tekur tíma. Fram að því er þó ýmislegt sem hægt er að gera strax.

Í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála koma fram ýmsar tillögur sem lagt er til að hrint verði í framkvæmd nú í haust. Þessar tillögur eru raunar fæstar byltingarkenndar og hafa komið fram í umræðunni áður. Engu að síður gætu þær klárlega stuðlað að mun heilbrigðari leigumarkaði og því afar spennandi að fylgjast með hvað gerist á komandi vetri.
Meðal þess sem lagt er til er að vaxtabætur og húsnæðisbætur verði sameinaðar í eitt húsnæðisbótakerfi sem taki þá mið af efnahag en ekki búsetuformi. Einnig er lagt til að húsaleigulög verði endurskoðuð og að ráðist verði í sérstakt átak til að fjölga íbúðum leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Einnig er lagt til að fjármagnstekjuskattur af leigutekjum, sé ekki um leigu í atvinnuskyni að ræða, verði lækkaður og eins að sett verði ákveðið frítekjumark á slíkar tekjur. Þetta er raunar ótrúlega mikilvægt atriði og ætti að vera einfalt að hrinda því í framkvæmd strax. Leigjendaaðstoðin fær í dag inn á borð til sín mýmörg dæmi þess að leigusalar vilji bara gefa upp ákveðinn hluta leigutekna og sá hluti sé þá gefinn upp í samningi aðila og restin sé undir borðið. Þetta leiðir svo jafnframt til ákveðinnar skekkju þegar leiguverð er skoðað, enda er í þeirri skoðun aðeins tekið tillit til þinglýstra leigusamninga, sem segja þá aðeins hálfa söguna. Þá er algengt að leigusalar vilji ekki að samningum sé þinglýst og fari þá jafnframt fram á að leigjendur telji ekki leigugreiðslur fram til skatts. Leigjendur fallast gjarnan á það enda hafa þeir kannski litlu að tapa, þar eð húsaleigubætur fást ekki greiddar nema tekjur séu afar lágar. Það er því afar þarft verkefni, ekki síst til að auka gagnsæi og eftirlit með þessum markaði, að stuðla að því að sem flestum leigusamningum sé þinglýst. Lækkun skatta, og í raun helst alger niðurfelling þeirra sé aðeins um eina leiguíbúð að ræða, ætti að stuðla að því. Þá má jafnvel dirfast að leyfa sér að vona að lægri skattar leiði til lægra leiguverðs!

höf. Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Leiðari í Neytendablaðinu 3.tbl.2014