Gjaldtökur fjármálafyrirtækja, aðgerðir viðskiptaráðherra

Þriðjudagur, 8. janúar 2008

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur kynnt nýja skýrslu nefndar sem hann skipaði og skoða átti ýmsa gjaldtöku hjá fjármálafyrirtækjum, m.a. seðilgjöld, svo kallaðann FIT-kostnað (gjaldtaka sé farið fram yfir á reikningi) og uppgreiðslugjald.

Í framhaldi af skýrslu nefndarinnar mun ráðherra gefa út tilmæli um að seðilgjöld verði bönnuð nema sérstaklega sé samið um annað. Jafnframt tilkynnti ráðherra að von væri á lagafrumvarpi um breytingar á lögum um neytendalán. Þar verði í fyrsta lagi tryggt að FIT-kostnaður verði hóflegur og endurspegli þann kostnað sem viðkomandi fjármálafyrirtæki verður fyrir vegna yfirdráttar sem er án heimildar. Í öðru lagi að settar verði takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda, en Neytendasamtökin hafa ítrekað gagnrýnt þessa gjaldtöku harðlega og raunar bent á að þessi gjaldtaka hindri eðlilega samkeppni. Þá hefur viðskiptaráðuneytið þegar hafið vinnu við að bæta lagaumhverfið sem fjármálafyrirtæki starfa eftir.

Neytendasamtökin fagna þessum aðgerðum viðskiptaráðherra, enda er verið að taka á málum sem Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir. Að mati Neytendasamtakanna á gjaldtaka fjármálafyrirtækja alltaf að vera í samræmi við kostnað fyrirtækjanna.

Loks er minnt á að viðskiptaráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp til innheimtulaga. Í frumvarpinu er lagður skýr lagagrunnur við slíka starfsemi auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að setja þak á innheimtukostnað. Hér er um mál að ræða sem Neytendasamtökin hafa undanfarin 20 ár barist fyrir og því hvetja samtökin alþingismenn til að samþykkja þetta frumvarp.