Greiðslugeta heimilanna

Föstudagur, 19. febrúar 2010

Þegar skuldastaða íslenskra heimila er skoðuð er einkennandi hversu skuldugir tekjulægstu hóparnir eru. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Kjartan Broddi Bragason hagfræðingur hefur unnið fyrir Neytendasamtökin um greiðslugetu heimilanna.  Þessa niðurstöðu þarf að skoða nánar og grípa til viðeigenda ráðstafana að mati Neytendasamtakanna.
Margar aðrar athyglisverðar niðurstöður/ábendingar koma fram hjá skýrsluhöfundi og eru nefndar hér nokkrar:  

  1. Dreifing skulda heimilanna er mjög jöfn á milli tekjuhópa og bendir það til að tekjulægri heimili eiga erfitt með að lifa samkvæmt eðlilegum lágmarksneyslustöðlum okkar samfélags – hætta er á að félagsleg vandamál geta orðið því samfara sé horft til lengri tíma.
  2. Svigrúm viðskiptabankanna til að laga skuldastöðu heimilanna er ótvírætt til staðar. Er verið að nota það svigrúm að fullu og er verið að nota það svigrúm á þann hátt að aukin jöfnuður verði meginforsenda þeirra aðgerða?
  3. Stór hluti umræðunnar sem fram hefur farið beinist að aðgerðum viðskiptabankanna þriggja. Meira en helmingur skulda heimilanna er í eigu annarra aðila á fjármagnsmarkaði. Einkum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Taka þarf tillit til þess þegar rætt er um þessa hluti og fá fram almenna umræðu um hvort og þá hvernig þessir aðilar geta tekið á sig auknar niðurfærslur/afskriftir.
  4. Á Íslandi er lítið, einhæft og einangrað hagkerfi. Hér eru á milli 15-20.000 manns án atvinnu  og á hverju ári bætast við fleira ungt og efnilegt fólk. Þetta vandamál, eitt og sér, er meira en ærið fyrir okkar hagkerfi. Verði skuldastöðu heimilanna ekki komið í rétt horf, er sú hætta til staðar að endurreisn efnahagslífsins dragist verulega á langinn og má þá jafnvel búast við umtalsverðum atgervisflótta. Má þá benda á að lækkun skulda og þar með greiðslubyrði hefur í för með sér kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna.

Skýrsluna í heild má lesa hér: