Rýnt í gjaldskrár bankanna

Fimmtudagur, 5. febrúar 2015

Kvartanir vegna hækkana á gjöldum og nýrra þjónustugjalda bankanna berast reglulega til Neytendasamtakanna, en samtökin hafa fylgst með verðlagi bankaþjónustu um áraraðir. Nýlega hefur athyglin beinst að nýjum gjöldum fyrir þjónustu í útibúum og tilhneigingu banka til að beina viðskiptamönnum í rafræna sjálfsafgreiðslu. Bankarnir hafa þá spurt hvort allir viðskiptavinir eigi að bera kostnaðinn vegna þeirra sem ekki nýta hagkvæmustu leiðirnar í bankaþjónustu.

Verðskrár bankanna eru margar blaðsíður með gjaldaliðum í hundraðatali þannig að erfitt er fyrir neytendur að átta sig á hvaða viðvik eru gjaldfærð og hver ekki, en ljóst er að fleiri og fleiri viðvik bankans eru orðin að gjaldliðum. Það er svo álitamál hvað er sjálfsögð þjónusta og hvort ekki sé þegar rukkað fyrir hana með vaxtamuni á inn- og útlánum.

Neytendasamtökin hafa því rýnt í verðskrár þriggja banka, Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbanka á 7 ára tímabili. Eingöngu voru skoðaðir algengir þjónustuliðir fyrir neytendur og atriði sem mikið hefur verið kvartað til samtakanna vegna, eins og kostnaður vegna geymsluhólfa og gjafakorta.

Á síðustu sjö árum hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 50% og þar hafði hrunið árið 2008 mikið að segja en vísitalan hækkaði „aðeins“ um 15% á síðustu fjórum árum. Þó einhver gjöld hafi hækkað minna og jafnvel sum staðið í stað, hafa alltof mörg gjöld hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs.

Sjá skýrslu: