Skýrsla um viðbótartryggingar

Miðvikudagur, 24. maí 2006

Norræn skýrsla um viðbótartryggingar á Norðurlöndum hefur verið gefin út af Norrænu ráðherranefndinni. Efni skýrslunnar var unnin frá janúar 2005 til mars 2006 þar sem  markaður fyrir viðbótartryggingar er skoðaður. Skýrslan heitir “Tillægsforsikringer i Norden” TemaNord  2006:524.

Fram kemur í skýrslunni að norrænir neytendur kaupi viðbótartryggingu í u.þ.b. 1/3 allra kauptilvika þar sem viðbótartrygging er í boði.  Má því ætla að teknar séu viðbótartryggingar í um 3-3,5 milljónum tilvika á Norðurlöndum og gróflega áætlað er um að ræða árlega heildarveltu yfir 12 milljarða króna, svo ljóst er að markaðurinn er töluvert stór. Viðbótartryggingar eru seldar á smásölustigi ásamt þeirri vöru sem tryggingin tengist. Greitt er fyrir viðbótartrygginguna samtímis og varan er greidd. Viðbótartryggingar eru fyrst og fremst seldar í tengslum við heimilistæki og flestar tegundir raftækja m.a. farsíma.

Viðbótartryggingar eru seldar eða þeim miðlað (þ.e. til þeirra er stofnað í nafni tryggingafélagsins) af afgreiðslufólki því sem starfar í smásöluversluninni, þar sem varan er keypt. Allar nauðsynlegar upplýsingar um viðbótartrygginguna, gildissvið hennar og gildistíma í hlutfalli við kvörtunarrétt samkvæmt kaupalögum, tengsl hennar við aðrar tryggingar neytandans o.s.frv. skulu þannig vera veittar af starfsfólki verslunarinnar. Fyrir að miðla viðbótartryggingu þiggur smásöluverslunin umboðslaun frá tryggingafélaginu.

Í hversu miklum mæli viðbótartryggingar veita neytandanum raunverulegt hagræði, er úrslitaþátturinn frá neytendarsjónarmiði.  Þ.e. með tilliti til þeirrar verndar sem neytandanum er þegar tryggð með reglum kauparéttar um vörugalla, ábyrgð seljandans/framleiðandans auk þeirrar innbústryggingar sem lang stærsti hluti heimila á Norðurlöndum hefur. Það er jafnframt úrslitaþáttur að neytandanum sé tryggður nauðsynlegur grundvöllur til að meta við tilteknar aðstæður hvort það sé hagræði af því að kaupa viðbótartryggingu.

Í skýrslunni er markaðsumhverfið skilgreint með tilliti til viðbótartrygginga við vörukaup á Norðurlöndum. Borið er saman bótasvið viðbótartrygginga við reglur kauparéttar og bótasvið innbústryggingar og gerð er grein fyrir neytendavernd þegar viðbótartrygging er tekin. Þá koma fram tillögur um úrbætur til að tryggja norrænum neytendum nægilega vernd við kaup á viðbótartryggingum.