Svindlað á neytendum?

mánudagur, 21. nóvember 2011

 

Kílóverð á fiski er einnig fyrir vatn og umbúðir

Kvartanir neytenda um óeðlilega rýrnun á frystum fiski við afþíðingu og eldun berast reglulega til Neytendasamtakanna. Því ákváðu samtökin í maí sl. að láta gera úttekt á gæðum frosins fisks í stórmörkuðum og var Matís fengið til að sjá um framkvæmdina. Niðurstöður liggja nú fyrir og gefa þær til kynna að víða er pottur brotinn.

Helstu niðurstöður
Þyngd fiskvara: Fyrir þau sýni sem könnuð voru náði nettóþyngd fisks ekki merktri þyngd. Kaupendur eru því að borga fyrir umbúðir, íshúð og hrím í umbúðum á sama kílóverði og fyrir fiskinn.

Íshúð var aðeins til staðar á sumum sýnanna. Íshúðin var í samræmi við upplýsingar á umbúðum tveggja sýnanna en var meiri en gefið er upp á umbúðum á einu sýni.

Raunhæfur verðsamanburður neytenda á þessari vöru er í raun útilokaður þegar frosinn fiskur sem er í boði er ýmist án íshúðar eða með mismikilli íshúð og íshúðin vigtuð með.

Nýting fisksins við suðu var á bilinu 69-79%. Þegar íshúð og vatnstap við afþíðingu var tekið með í reikninginn varð nýtingin 50-79%. Þegar nýtingin er aðeins 50% þýðir það að aðeins helmingurinn af keyptum fiski endar á diski neytandans.

Notkun aukefna og salts: Magn fosfata í frysta fiskinum var undir hámarksgildi sem sett er í reglugerð. Í einu sýni greindist þrífosfat og er það vísbending um að fosfati hafi verið bætt í fiskinn við vinnslu í þeim tilgangi að binda vatn í fiskholdinu. Salt í sjö sýnum var á bilinu 0,1-0,4% og má telja það náttúrulegt salt í fiskholdinu. Í tveimur sýnum var salt á bilinu 0,7-2,0% og bendir allt til að þessi sýni hafi tekið upp salt, t.d. við kælingu í ískrapa með salti. Þegar salt nær 2% er í raun um léttsaltaða vöru að ræða.

Merkingar á geymsluþoli og næringargildi fyrir sumar vörurnar voru ekki í samræmi við reglugerðir um matvæli.

Framkvæmdin
Kannaður var frystur og pakkaður fiskur í frystiborðum stórmarkaða. Farið var í fjóra stórmarkaði; Krónuna, Bónus, Nóatún og Hagkaup. Alls voru 9 sýni keypt í fyrri áfanga (júlí) og 7 sýni af sömu fiskvörum fundust í seinni áfanga úttektarinnar (nóvember). Fjögur sýni voru af ýsu, tvö af þorski og eitt af laxi og lúðu og á einu sýni var fisktegund ekki merkt. Mælingum og aðferðum við rannsóknina er lýst í skýrslunni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið styrkti úttektina að huta.

Geymsluaðferð
Frystur fiskur er framleiddur með tvennum hætti. Fersk flök eru sett í plastumbúðir fyrir frystingu (blokkir) og plastfilman ver fiskinn fyrir þornun. Önnur leið er að lausfrysta flök eða bita og hver biti frystur án umbúða. Eftir lausfrystingu er bitunum rennt í gegnum vatnsbað. Oftast er lausfrystur fiskur íshúðaður en íshúðin sem myndast ver flökin fyrir þornun og er oftast 6-10% af heildarþyngd. Vel íshúðaður fiskur er gæðamerki, það er ekki fyrr en neytandinn er látinn borga fyrir vatnið sem íshúðin fær neikvæða merkingu.

Merkingar
Það er ekki fjallað sérstaklega um íshúð eða hrím í íslenskri löggjöf. Neytendasamtökin telja eðlilegt að íshúð sé skilgreind sem hluti af umbúðum enda er hún nauðsynleg til geymslu á fiski og ver hann gegn þornun og þránun. Að mati samtakanna á nettóþyngd frosins fisks því að vera án íshúðar. Í skýrslu Matís kemur fram að samkvæmt viðurkenndum viðmiðum eigi íshúð ekki að telja með sem hluta af nettóþyngd matvæla.

Næstu skref
Skýrsla Matís sýnir vel að fótur er fyrir þeim ótal mörgu kvörtunum sem Neytendasamtökunum berast. Hins vegar er ekki skýrt í lögunum að íshúð skuli dregin frá þyngd vörunnar því hún flokkist sem umbúðir. Í smíðum er ný reglugerð Evrópusambandsins um merkingar á matvælum þar sem fram mun koma að nettóþyngd vöru skuli vera tilgreind án íshúðar. Innleiðing reglugerðarinnar mun hins vegar taka tíma og því er mikilvægt að gerðar verði breytingar á lögum og/eða reglugerð þannig að skýrt verði að íshúð beri ekki að telja með í nettóþyngd vörunnar. Neytendur eiga rétt á því að fá skýrar upplýsingar um hvað varan er þung og hvað þeir greiða fyrir vöruna í raun og veru.

Sjá skýrslu Matís (PDF)