Þingsályktunartillögur er varða aðild að ESB

mánudagur, 15. júní 2009

 

Nefndasvið Alþingis
Utanríkismálanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík 15. júní 2009

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um tillögur til þingsályktunar er varða aðild að Evrópusambandinu (38. og 54. mál).

Á síðasta þingi Neytendasamtakanna sem haldið var 19.-20. september sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu: „Þing Neytendasamtakanna telur tímabært að við látum reyna á það með aðildarviðræðum hvort hægt sé að ná viðunandi samningum í málum er varða sjávarútveg og landbúnað. Ljóst er að hagmunir heimilanna í þessu máli eru það miklir að ekki er ástæða til bíða lengur að láta reyna á þessa þætti með aðildarviðræðum. Það yrði að sjálfsögðu þjóðin sem tæki lokaákvörðun um ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningar liggja fyrir.”

Að mati Neytendasamtakanna hafa neytendur mikilla hagsmuna að gæta varðandi aðild að ESB. Evrópufræðasetrið á Bifröst vann á síðasta ári skýrslu fyrir Neytendasamtökin undir heitinu „Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?”. Niðurstaða skýrslunnar var m.a. sú að verðlag hér á landi, sérstaklega á matvælum, myndi lækka verulega auk þess sem vextir myndu lækka töluvert. Sjá nánar fréttatilkynningu og skýrslu á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Í ljósi þess ástands sem hér hefur skapast í kjölfar bankahrunsins telja Neytendasamtökin brýnt að leitað verði eftir aðildarviðræðum eins fljótt og kostur er.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Hlekkur á þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar er: www.althingi.is/altext/137/s/0038.html.
Hlekkur á þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er: www.althingi.is/altext/137/s/0054.html.