Þingsályktunartillaga um Skráargatið, 508. mál

mánudagur, 4. apríl 2011

 

Nefndasvið Alþingis
Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Akureyri, 4. apríl 2011

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um hollustumerkið Skráargatið, 508. mál.

Neytendasamtökin fagna framkominni þingsályktunartillögu enda hafa samtökin ítrekað lagt til við stjórnvöld að Skráargatið verði innleitt hér á landi.
Ástæðan fyrir því að Neytendasamtökin hafa lagt áherslu á innleiðingu Skráargatsins er að merkið auðveldar neytendum að velja hollan mat.  Settar eru ákveðnar kröfur um magn sykurs, fitu, salts og trefja og einungis hollasta/hollustu matvörurnar í hverjum flokki fá að bera merkið.
Þótt gefnar séu út opinberar ráðleggingar um matæði getur verið erfitt að fylgja þeim. Upplýsingar á umbúðum eru oft villandi eða þeim ábótavant. Sem dæmi er ekki skylt að gefa upp saltinnihald á unnum vörum nema á kjötvörum og upplýsingar um viðbættan sykur koma sjaldnast fram. Vandséð er hvernig fólk á að geta borið ábyrgð á eigin heilsu ef það hefur ekki aðgang að svo mikilvægum upplýsingum.
Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er offita að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál Íslands og samkvæmt upplýsingum frá OECD eru Íslendingar orðnir fjórða feitasta þjóð Evrópu. Þótt hollustumerkið Skráargatið leysi ekki allan vanda er innleiðing þess mjög mikilvægt skref fyrir neytendur. Neytendasamtökin styðja þessa ályktun eindregið og vonast til að merkið verið innleitt hér á landi hið fyrsta.

 

Virðingarfyllst,
f. h. Neytendasamtakanna
______________________________________
Brynhildur Pétursdóttir