Þingsályktunartillaga um umferðarljósamerkingar á matvæli

Fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 13. febrúar 2014

Umsögn um þingsályktunartillögu um umferðarljósamerkingar á matvæli, 212. mál.

Í greinargerð með þessari tillögu kemur m.a. fram að „skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun“. Jafnframt er vísað í norræna könnun þar sem m.a. 1.000 Íslendingar voru meðal svarenda og var niðurstaðan sú að yfirgnæfandi meirihluti kaus myndir og merki í stað texta. Það er því ljóst hvaða matvælamerkingar henta neytendum best.

Einnig kemur fram í greinargerð að Skráargatið sem nú hefur verið tekið upp hér á landi er hollustumerki, þ.e. að eingöngu hollust vörurnar í hverjum vöruflokki má merkja með því merki. „Umferðarljósamerkingar eru ekki hollustumerki heldur merkingar um næringargildi matvæla og eru merkin notuð á allar tegundir matvæla.“

Neytendasamtökin taka undir þessi rök og greinargerðina með tillögunni í heild sinni og hvetja því eindregið til samþykktar tillögunnar. Jafnframt telja samtökin mikilvægt að verði tillagan samþykkt þá verði gert skylt að nota þessar merkingar á öll matvæli þar sem líklegt er að framleiðendur á óhollum vörum myndu ella ekki merkja vörur sínar með umferðarljósmerkingum.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður