Breyting á innheimtulögum (víðtækara eftirlit o.fl.),

Föstudagur, 12. október 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík. 9. október 2012

Efni: Umsögn um frumvarp um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008 (víðtækara eftirlit o.fl.), 103. mál.

Neytendasamtökin fagna því að ofangreint lagafrumvarp sé til meðferðar en vilja koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Um b-lið 1. gr. og c-lið 7. gr.: Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að eftirlit Lögmannafélags Íslands (hér eftir LMFÍ) nái einnig yfir lögaðila sem eru dótturfélög eins eða fleiri lögmanna/lögmannsstofa að því gefnu að starfsemin falli undir eftirlit LMFÍ.

Neytendasamtökin eru mjög efins um slíka tilhögun og telja hana valda óþarfa ruglingi, þar sem gera má ráð fyrir að einhver innheimtufyrirtæki séu einmitt rekin með því formi, og falli þá undir eftirlit LMFÍ meðan önnur fyrirtæki sem stunda sams konar starfsemi falli undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Telja má jafnframt að þau fyrrnefndu yrðu þá undanþegin þeirri skyldu að sækja um innheimtuleyfi, sbr. 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga. Um LMFÍ og úrskurðarnefnd lögmanna er fjallað í lögum nr. 77/1998 um lögmenn. Ekki er að finna þar, né í samþykktum LMFÍ, neinar heimildir til álagningar stjórnvaldssekta, sambærilegar þeim sem Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa hafa. Í innheimtulögum, eða frumvarpi því sem hér er til skoðunar, er heldur ekki að finna neinar sérstakar heimildir til handa LMFÍ í tengslum við fyrirhugað eftirlit. Að mati samtakanna er svo ekki í frumvarpinu eða greinargerð með því að finna neina nánari útlistun á því hvernig LMFÍ muni sinna þessu hlutverki sínu eða að hvaða marki það kunni að aukast með fyrirhugaðri lagabreytingu.

Þá telja Neytendasamtökin að það geti reynst örðugt fyrir LMFÍ annars vegar og Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu hins vegar að „samræma verklagsreglur sínar um eftirlit“ í skilningi 3. mgr. 15. gr. innheimtulaga, sbr. c-lið 7. gr. frumvarpsins þar sem heimildir og staða þessara aðila eru svo ólíkar sem raun ber vitni.

Neytendasamtökin telja nægilega flókið að eftirlit með innheimtulögum heyri undir þrjá aðila, en það væri að æra óstöðugan þyrftu neytendur að kanna sérstaklega eignarhald innheimtufyrirtækja áður en metið er hvert beina skal kvörtun. Samtökin leggjast því gegn ákvæði b-liðar 1. gr. og hvetja Alþingi til að beita sér fyrir því að valdmörk milli eftirlitsaðila verði eins skýr og kostur er, sé þess á annað borð þörf að skipta eftirlitinu upp. Jafnframt telja samtökin það algert grundvallaratriði að þeir aðilar sem fara með eftirlit samkvæmt innheimtulögum njóti sambærilegra valdheimilda þannig að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem eftirlit er með. Því mælast samtökin til þess að eftirlit LMFÍ verði mun afmarkaðra og nái aðeins til „hefðbundinna“ lögmannsstarfa fremur en innheimtufyrirtækja.

Um c-lið 2. gr.: Ekki verður betur séð en hér sé um að ræða tvítekningu tveggja setninga, og þyrfti því að laga textann í samræmi við það. Neytendasamtökin gera þó ekki efnislegar athugasemdir við orðalag þessa ákvæðis.

Um a-lið 3. gr.: Neytendasamtökin telja afar brýnt að sú breyting sem hér er lögð til, þ.e. að ekki skuli senda innheimtuviðvörun fyrr en eftir eindaga gangi í gegn.

Samtökunum berast iðulega erindi þar sem tilvísun núgildandi 7. gr. til gjalddaga veldur misskilningi. Sem dæmi má nefna að einhver fjarskiptafyrirtækjanna eru með reikninga sína á gjalddaga 20. hvers mánaðar, en eindaga 1. eða 2. í mánuðinum á eftir. Fæstir greiða svo reikninga sína fyrr en um mánaðamót og líta þá í raun á eindagann sem gjalddaga. Í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laganna sameina svo þessi fyrirtæki greiðsluseðil og innheimtuviðvörun, en kostnaður vegna innheimtuviðvörunar er svo, í það minnsta í einhverjum tilvika, lagður á greiðsluseðilinn mjög fljótt, eða tveimur dögum eftir eindaga. Í þeim tilvikum hafa fyrirtækin svo engan kostnað haft af sendingu viðvörunar, enda hún sameinuð greiðsluseðli, og innheimt seðilgjöld hjá neytendum sjálfum vegna hans.

Þetta fyrirkomulag er í sjálfu sér löglegt þar sem eindagi er tíu dögum eða meira eftir gjalddaga, sbr. 3. mgr. 7. gr. innheimtulaga (samkvæmt orðalagi 3. mgr. 7. gr. væri raunar heimilt að leggja kostnað vegna innheimtuviðvörunar á fyrir eindaga að því gefnu að það sé gert tíu dögum eftir gjalddaga), en veldur gríðarlegum ruglingi og reiði hjá neytendum sem í raun telja sig vera að greiða mjög stuttu eftir gjalddaga og telja því kostnað vegna innheimtuviðvörunar ekki eiga rétt á sér. Jafnframt kannast fæstir í þeirri stöðu við að hafa fengið innheimtuviðvörun, enda er hún felld inn í greiðsluseðil en ekki send sem sérstakt bréf. Sem dæmi má nefna að 1. september 2012 bar upp á laugardag, í einhverjum tilvikum var kostnaði vegna innheimtuviðvörunar bætt við greiðsluseðla ef greiðsla hafði ekki átt sér stað kl. 21.00 að kvöldi mánudagsins 3. september, eða á þeim tíma sem ekki er óeðlilegt að almennir launamenn greiði reikninga sína, enda útborgun launa í mörgum tilfellum átt sér stað fyrr þann sama dag, og ákveðin viðskiptavenja að setja eindaga ekki á reikninga fyrr en einhverjum dögum eftir mánaðamót/útborgun launa.

Samtökin telja þar af leiðandi rétt að breyta niðurlagi 5. gr. reglugerðar nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.s.frv. til samræmis þannig að „eða eindaga ef síðar er“ verði bætt við. Jafnframt er mikilvægt að 3. mgr. 7. gr. innheimtulaga sé breytt til samræmis við 1. mgr., á þann hátt að við hana bætist „eða eindaga ef síðar er“, enda hlýtur það að vera mjög ósanngjarnt í garð neytenda geti fyrirtæki stillt gjalddögum sínum upp á þann hátt að gjald vegna innheimtuviðvörunar bætist við strax í kringum eindaga, sé eindagi settur á þann tíma sem eðlilegt er að launafólk greiði reikninga sína.

Er því að mati samtakanna eðlilegt að hafa skýlausa reglu um það í lögunum að aðilum sem innheimta vegna eigin starfsemi og sameina greiðsluseðil og innheimtuviðvörun sé ekki heimilt að leggja á gjald vegna innheimtuviðvörunar fyrr en a.m.k. tíu dögum eftir eindaga. Eins og a-liður 3. gr. er nú settur fram í frumvarpinu má hins vegar ætla að breytingin, þ.e. að miða skuli við eindaga ef hann er síðar en gjalddagi, gildi ekki um aðila sem stunda sjálfir innheimtu eigin krafna, enda er að finna annars konar efnisreglu í 3. mgr. 7. gr. Slíkt er varla tilgangurinn með ofangreindu frumvarpi og því mikilvægt að skoða lögin og reglugerðina betur í samhengi hvað þetta varðar.

Um b-lið 7. gr. og 2. mgr. 12. gr.: Hér er kveðið á um að eftirlit með innheimtu aðila vegna eigin starfsemi og innheimtu opinberra aðila verði í höndum Neytendastofu, en frá gildistöku innheimtulaga hefur í raun enginn aðili farið með slíkt eftirlit. Undanfarið hafa Neytendasamtökin í auknum mæli fengið kvartanir vegna innheimtuhátta aðila sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi, en í þeim hópi eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, enda algengast að stærri fyrirtæki sjái sjálf um frum- og milliinnheimtu krafna. Þá falla svokölluð smálánafyrirtæki einnig undir þessa skilgreiningu, enda teljast þau ekki fjármálafyrirtæki í lagalegum skilningi og falla því ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Telja Neytendasamtökin því ákaflega mikilvægt að Neytendastofu verði falið eftirlit með þessum stóra hópi, enda hafa mál vegna þessarar innheimtu verið afar örðug úrlausnar þar sem enginn eftirlitsaðili hefur verið til staðar.

Hins vegar velta samtökin fyrir sér hvort vísað sé til valdheimilda Neytendastofu með nægilega skýrum hætti í b-lið 7. gr., sbr. og 2. mgr. 12. gr. Þannig teldu samtökin heppilegra að kveðið væri á um heimildir Neytendastofu með sama hætti og heimildir Fjármálaeftirlitsins, fremur en að látið sé nægja að vísa til annarra laga eins og gert er í b-lið 7. gr.

Að endingu vilja samtökin koma á framfæri athugasemd vegna ummæla sem fram koma í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið. Þar segir m.a.: „Fjármálaráðuneytið telur að lögfesting frumvarpsins geti leitt til einhverrar aukningar í verkefnum hjá Neytendastofu vegna fyrirhugaðs eftirlits stofnunarinnar með innheimtu fyrir eigin starfsemi og innheimtu opinberra aðila. Á hitt ber þó að líta að Neytendastofa annast nú þegar eftirlit samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og að erindi vegna innheimtu aðila á eigin kröfum hafa verið fátíð á umliðnum árum.“ Neytendasamtökin vilja benda á að ástæðan fyrir því að „erindi vegna innheimtu aðila á eigin kröfum hafa verið fátíð“ er sú að enginn opinber aðili hefur tekið við slíkum erindum. Neytendasamtökin fá, eins og áður sagði, fjölmörg slík erindi, bæði vegna innheimtu fyrirtækja á eigin kröfum og eins vegna innheimtu svokallaðra smálánafyrirtækja. Hins vegar hafa samtökin ekki getað beint þessum erindum áfram innan stjórnsýslunnar þar sem enginn aðili hefur verið þess bær að fjalla um þau. Það felur ekki í sér að þau séu, eða verði, fátíð. Samtökin telja því afar brýnt, sé ætlunin að stuðla að markvissu og skilvirku eftirliti með innheimtu slíkra aðila, að nægilegum fjármunum sé varið til verksins, en að mati samtakanna mun lagabreytingin fela í sér talsverða aukningu verkefna hjá Neytendastofu. Sé hins vegar ekki til staðar nægur mannafli til að sinna þeim verkefnum má ætla að eftirlit stofnunarinnar með innheimtu opinberra aðila og innheimtu vegna eigin starfsemi fari fyrir lítið.

Með framangreindum fyrirvörum telja samtökin afar brýnt að frumvarp þetta verði að lögum hið fyrsta og hvetja því eindregið til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir