Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum

Þriðjudagur, 12. maí 2015

Nefndasvið Alþingis
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 12. maí 2015

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1933, með síðari breytingum (verðsamráð í mjólkuriðnaði), 292. mál.

Neytendasamtökin hafa hvatt til þess að innlendur mjólkuriðnaður falli að öllu leyti undir samkeppnislög. Þannig var svohljóðandi einróma samþykkt á síðasta þingi Neytendasamtakanna sem haldið var í lok septembermánaðar sl: „Neytendasamtökin fordæma þá stefnu stjórnvalda að koma í veg fyrir samkeppni á búvörumarkaði. Stjórnvöld ættu frekar að stuðla að heilbrigðri samkeppni en að hindra eðlilega virkni markaðarins. Það hefur sýnt sig með óteljandi dæmum að eitt helsta hagsmunamál neytenda er heilbrigð samkeppni og gangi hún í berhögg við pólitísk markmið eiga hagsmunir almennings að ráða - ekki hagsmunir framleiðenda. Þess vegna krefjast Neytendasamtökin að Alþingi afnemi allar undanþágur sem mjólkuriðnaðurinn býr við gagnvart samkeppnislögum.“

Neytendasamtökin minna jafnframt á að í skjóli þessarar undanþágu hefur átt sér stað gríðarlegur samruni í mjólkurvinnslu sem hefur gert Mjólkursamsöluna nánast einráða á þessum markaði. Það er því nauðsynlegt að mjólkuriðnaðurinn falli að öllu leyti undir samkeppnislög. Það myndi m.a. veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að skipta Mjólkursamsölunni upp, komist það að þeirri niðurstöðu að það yrði til að efla samkeppni og um leið að bæta stöðu neytenda á þessum markaði.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0354.html.