Breyting á lögum um þjóðfána Íslendinga

mánudagur, 18. maí 2015

Nefndasvið Alþingis
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 18. maí 2015

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu), 685. mál.

Neytendasamtökin fagna því að leitast sé við að eyða óvissu um hvenær vara telst vera „íslensk að uppruna“ og hafa áður kallað eftir því að settar verði reglur er þetta varðar og hugtakið skilgreint með skýrum hætti. Algengt er að íslenskir neytendur velji frekar vörur sem framleiddar eru hér á landi og hafa kannanir m.a. sýnt að þeir eru í mörgum tilvikum tilbúnir að greiða meira fyrir innlendar vörur heldur en sambærilegar vörur sem eru innfluttar. Hvort vara sé réttilega merkt sem íslensk að uppruna getur því verið mikið hagsmunamál fyrir neytendur og fyrirtæki. Til að tryggja að neytendur taki upplýsta ákvörðun er því mikilvægt að skýrt sé kveðið á um hvenær vara teljist vera íslensk að uppruna og að neytendur geti treyst því að þær upplýsingar séu réttar. Mikilvægt er að skilgreiningar og hugtakanotkun sé skýr og að mati Neytendasamtakanna eru sum skilyrði frumvarpsins nokkuð matskennd.

Að því sögðu gera Neytendasamtökin eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um 2. málslið a-liðar 2. gr. Neytendasamtökin taka undir að vara skuli teljast íslensk að uppruna ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Neytendasamtökin telja þó að skýra þurfi nánar við hvað sé átt við með hugtakinu „að uppistöðu til“.

Um 3. málslið a-liðar 2. gr. Neytendasamtökin telja að rétt væri að skoða hvort aðrir möguleikar hentuðu betur en viðmið um framleiðslutíma. Þar mætti t.a.m. hafa til hliðsjónar hvort umbreyting vörunnar úr hráefni í neytendavöru byggi á íslensku vinnuafli og íslenskri orku ásamt því hvort að einhver virðisaukning eigi sér stað. Að mati samtakanna væri því hægt að breyta ákvæðinu á þá leið að vara teljist íslensk að uppruna ef viss virðisaukning hafi átt sér stað í framleiðslu hér á landi. Jafnframt er mikilvægt að skilgreina með skýrum hætti í lögunum hvað sé átt við með hugtakinu „framleiðsla“. Einnig verður hugtakið framleiðsla samkvæmt„íslenskri hefð“ að teljast nokkuð matskennt og þörf á að skilgreina það nánar.

Um 4. málslið a-liðar 2. gr. Að mati samtakanna ætti ekki að telja hönnunarvöru, líkt og henni er lýst í frumvarpinu, sem íslenska að uppruna ef um er að ræða erlent hráefni og erlenda framleiðslu. Neytendasamtökin benda þó á að merkja mætti slíka hönnunarvöru fremur sem „íslenska hönnun.“ Jafnframt virðist ákvæðið nokkuð víðtækt og matskennt, og gera má ráð fyrir að erfitt sé að hafa eftirlit með því.

Um 5. málslið a-liðar 2. gr. Neytendasamtökin taka undir að hugverk teljist íslenskt að uppruna ef það er samið af íslenskum aðila.

Að lokum benda Neytendasamtökin á þann kost að samhliða merkingu með hinum almenna þjóðfána mætti einnig merkja að hvaða leyti vörur eru íslenskar, enda gætu slíkar merkingar verið til þess fallnar að forða ruglingi hjá neytendum. Hægt væri að hafa nokkra flokka merkinga sem skýra þá nákvæmlega hvað sé íslenskt við vöruna hverju sinni, t.a.m. vara framleidd á Íslandi úr erlendu hráefni, vara framleidd á Íslandi úr íslensku hráefni o.s.frv.

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við framangreint frumvarp að svo stöddu.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður
Ívar Halldórsson, lögfræðingur

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/1159.html.