Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán.

Föstudagur, 8. janúar 2016

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

 

Reykjavík, 6. janúar 2016

Umsögn við frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (erlend lán, varúðarreglur), 384. mál.

Neytendasamtökin áttu þess kost að gera athugasemdir við „drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu (lán í erlendum gjaldmiðlum)“ meðan slík drög voru á vinnslustigi í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þá sendu samtökin jafnframt umsögn, og viðbótarathugasemdir við 561. mál á 144. löggjafarþingi. Þar eð frumvarp það sem hér er til skoðunar er töluvert breytt frá fyrri skjölum gera samtökin eftirfarandi athugasemdir, en að nokkru leyti er um að ræða ítrekun áður fram kominna athugasemda:

Opinbert eftirlit með því að farið sé að lögum um vexti og verðtryggingu: Í fyrstnefndum drögum var að finna tillögur um töluverðar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu hvað varðaði ákvæði um eftirlit, viðurlög og málsmeðferð. Var þar m.a. gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi færu að ákvæðum laganna, en samkvæmt núgildandi lögum um vexti og verðtryggingu er engu sérstöku stjórnvaldi falið eftirlit með þeim, og því verður að telja að það séu aðeins dómstólar sem hafa það með höndum. Neytendasamtökin töldu þessa tillögu mjög til bóta, enda æskilegt að slíkt eftirlit sé til staðar, en í frumvarpinu virðist þó hafa verið fallið frá þessum tillögum. Er hér með hvatt til þess að þetta atriði verði tekið til endurskoðunar.

Um 8. gr.: Þessi grein fjallar sérstaklega um greiðslumat vegna fasteignalána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum, en lagt er til að bætt verði við lög um neytendalán nr. 33/2013 ákvæði um greiðslumat vegna slíkra lána. Nú er til meðferðar þingsins frumvarp til laga um fasteignalán til neytenda, 383. mál, og verði það að lögum mun það leiða til þess að lög um neytendalán gildi ekki lengur um fasteignalán. Virðist því eðlilegra að þessu ákvæði verði skipaður staður í þeim lögum en gert er ráð fyrir sams konar ákvæði í 21. gr. frumvarps til laga um fasteignalán. Neytendasamtökin teldu þó eðlilegt að sams konar ákvæði væri í lögum um neytendalán, sem væri þá ætlað að gilda um lán önnur en fasteignalán.

Um greiðslumat: Með 3. gr. frumvarpsins er enn gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands geti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sett lánveitendum reglur um erlend lán þar sem m.a. má kveða á um hámark útlána til aðila sem ekki eru varðir fyrir gengisáhættu. Í 8. gr. frumvarpsins er svo að finna ákvæði um greiðslumat vegna fasteignalána sem eru tengd erlendum gjaldmiðlum, en rétt er að árétta að til stendur að tveir aðskildir lagabálkar gildi um neytendalán annars vegar og fasteignalán hins vegar, en samkvæmt a-lið 7. gr. frumvarpsins virðist sem ávallt beri að framkvæma greiðslumat, óháð fjárhæð eða tegund láns, sé lánið tengt erlendum gjaldmiðlum. Í 8. gr. frumvarpsins eru í þremur stafliðum talin upp skilyrði þess að heimilt sé að veita fasteignalán tengd erlendum gjaldmiðlum. Þessi ákvæði eru að nokkru leyti matskennd, t.a.m. er í b-lið talað um „verulegar“ gengisbreytingar og „verulegar“ hækkanir á vöxtum, auk þess sem í c-lið er talað um „viðeigandi“ fjárhagslegar tryggingar. Að mati Neytendasamtakanna er mikilvægt að skýra þessi hugtök nánar, auk þess sem rétt væri að setja skýr töluleg viðmið um það hvað teljist „verulegt“ í þessu samhengi. Jafnframt teldu samtökin eðlilegt að samsvarandi reglur giltu um annars konar lán en fasteignalán, en á undangengnum árum eru það ekki síst bílalán tengd erlendum gjaldmiðlum sem reynt hefur á. Verður því að telja líklegt að meira verði um slíkar lántökur í framtíðinni fremur en fasteignalán tengd erlendum gjaldmiðlum.

Um upplýsingagjöf um árlega hlutfallstölu kostnaðar o.fl. fyrir lántöku: Í lögum um neytendalán er nú að finna ýmis ákvæði sem stuðla eiga að því að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun við töku verðtryggðra lána og geri sér betur grein fyrir því í hverju verðtrygging felst. Þannig er í 3. mgr. 21. gr. kveðið á um að miða skuli útreikning ÁHK við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og jafnframt er í 25. gr. kveðið á um skyldu lánveitanda til að veita upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra á greiðslukjör auk þess sem Neytendastofu er falið ákveðið hlutverk við upplýsingagjöf hvað þetta varðar. Neytendasamtökin telja ljóst að sé lán tengt erlendum gjaldmiðlum geti ekki síður verið um sveiflur að ræða hvað varðar upphæð höfuðstóls og greiðslubyrði. Dæmin hafi þannig sýnt að gengi íslensku krónunnar sveiflast ekki síður en verðbólgan. Þá er, í 14. gr. frumvarps til laga um fasteignalán til neytenda, gert ráð ráð fyrir að lánveitanda sé skylt að veita neytanda upplýsingar um sögulega gengisþróun þeirra gjaldmiðla sem lán er tengt. Að mati samtakanna er þetta af hinu góða enda eðlilegt að lánveitendur veiti sambærilegar upplýsingar um þróun gengis og áhrif á endurgreiðslur og höfuðstól eins og þegar um er að ræða verðtryggð lán eða lán með breytilegum vöxtum. Hins vegar telja samtökin að jafnframt ætti að setja sambærilegt ákvæði í lög um neytendalán.

Um uppgreiðslu láns sem veitt er í öðrum gjaldmiðli eða tengt gengi annars gjaldmiðils: Í ljósi þeirra sveiflna sem orðið hafa á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu í gegnum tíðina, má gera ráð fyrir að upphæðir lána sem tengd eru gengi erlendra gjaldmiðla geti tekið umtalsverðum sveiflum á lánstíma. Með hliðsjón af því telja Neytendasamtökin mikilvægt, hvort sem um neytenda- eða fasteignalán er að ræða, að réttur til uppgreiðslu sé ávallt til staðar án gjaldtöku sé um lán „tengd erlendum gjaldmiðlum“ að ræða. 

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir og telja þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu til bóta, auk þess sem tekið virðist tillit til þessa frumvarps í frumvarpi um fasteignlán til neytenda. 

 

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/145/s/0520.html