Drög að reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda

Þriðjudagur, 18. mars 2014

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
b/t Halldórs Runólfssonar
Skúlagötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík 18. mars 2014

Efni: Umsögn um drög að reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við drögin:

1.
Samkvæmt því sem fram kemur í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1169/2011 verður í framtíðinni skylt að merkja kjöt og mjólkurvörur með upprunalandi. Íslensk stjórnvöld töldu heimilt til að upplýsa neytendur, að setja í reglur að geta þurfi upprunalands á grænmeti og kartöflum við sölu til neytenda, og er þessu ákvæði haldið inni í drögunum að nýrri íslenskri reglugerð. Neytendasamtökin telja eðlilegt að ganga skrefinu lengra og bæta ávöxtum við, enda vilja neytendur þessar upplýsingar. Markmiðið hlýtur jafnframt að vera að tryggja upplýst val neytandans þannig að öll matvæli séu merkt með upplýsingum um upprunaland.

2.
Í VI. viðauka áðurnefndrar reglugerðar er fjallað um viðbætt prótein og viðbætt vatn. Þar er m.a. ákvæði um að sé íbætt vatn meira en 5% í kjötafurðum, unnum kjötvörum og lagarafurðum skuli í heiti matvælanna tilgreint að í þeim sé viðbætt vatn. Neytendasamtökin minna á að skv. rannsókn sem MATÍS vann fyrir samtökin á nautahakki eru kartöflutrefjar einnig notaðar til að binda vatn í matvælum. Auk þess sem bindiefni vatns skuli ávallt vera tilgreint er það skoðun Neytendasamtakanna að alltaf skuli koma fram, við sölu til neytenda, þegar íbætt vatn er í matvælum, jafnvel þó magn þess sé undir 5%, og að einnig skuli hlutfallsins skýrt getið.

3.
Samkvæmt þessum nýju reglum þarf ekki lengur að upplýsa um pökkunardag / framleiðsludag á matvælum. Neytendasamtökin mótmæla þessu enda ljóst að með þessu verður dregið úr möguleikum neytenda sjálfra að meta hve gömul varan er í raun. Fram kemur í athugasemdum að gildandi reglur leiði til þess að framleiðendur freisti þess að dagsetja vörur fram í tímann. Í stað þess að taka frá neytendum mikilvægar upplýsingar til að meta vöruna er að mati Neytendasamtakanna eðlilegra að herða eftirlit og viðurlög við þess háttar brotum.

4.
Einnig er lagt til að heimilt verði að dreifa matvælum sem komin eru fram yfir „best fyrir” merkingu. Að mati Neytendasamtakanna er hér um að ræða skref aftur á bak hvað varðar neytendavernd. Neytendasamtökin geta því aðeins fallist á þetta að tryggt sé að þessar vörur séu aðgreindar frá öðrum vörum sem ekki eru komnar fram yfir „best fyrir” merkingu, þannig að aldrei fari framhjá neytendum að um „útrunna“ vöru sé að ræða.

5.
Öðru hvoru berast Neytendasamtökunum kvartanir um að þegar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir neytendur til að tryggja rétta meðhöndlun/eldun séu slíkar upplýsingar í sumum tilvikum á tungumálum sem fæstir hér á landi skilja til hlítar (franska/þýska). Því leggja Neytendasamtökin áherslu á að tryggt sé að slíkar upplýsingar séu á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku.

6.
Í VI. viðauka áðurnefndrar reglugerðar er kveðið á um að í ákveðnum tilvikum skuli merkja matvæli sem hafa verið fryst og þídd fyrir sölu með tilgreiningunni „þídd”, Neytendasamtökin telja jafnframt afar mikilvægt að þegar við á séu matvæli einnig merkt með aðvörun um að þau megi ekki frysta að nýju, enda ekki víst að neytendur geri sér að öðrum kosti grein fyrir því hvenær óhætt er að endurfrysta matvæli. 

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður