Frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti

Föstudagur, 2. apríl 2004

 

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 2. apríl 2004

Efni:  Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., 333. mál, greiðsluaðlögun.

Neytendasamtökin hafa lengi hvatt til þess að sett verði sérstök lög um greiðsluaðlögun. Á ráðstefnu sem samtökin héldu fyrir um áratug var þetta réttarúrræði kynnt sérstaklega, en það hafði þá rutt sér til rúms á hinum Norðurlöndunum. Í framhaldinu var unnin ákveðin vinna við kynningu jafnframt því sem mótuð var sú stefna Neytendasamtakanna að vinna að lögfestingu svipaðra ákvæða um greiðsluaðlögun hér og gilda á hinum Norðurlöndunum.

Frá því að ofangreind stefna Neytendasamtakanna var mótuð hefur átt sér stað mikil skoðun á þessu kerfi á hinum Norðurlöndunum og hefur reynslan af því verið góð.

Neytendasamtökin telja eðlilegt að hér á landi verði lögfest svipuð lagaákvæði og á hinum Norðurlöndunum en aðlöguð að íslenskum veruleika. Telja samtökin að mörgu leyti heppilegra að sett verði sérstök lög um greiðsluaðlögun frekar en að lögfesta ákvæði um greiðsluaðlögun sem kafla í lögum um gjaldþrotaskipti. Neytendasamtökin mæla þó ekki á móti því að löggjöf um greiðsluaðlögun verði lögfest með þeim hætti sem hér er lagt til.

Neytendasamtökin fagna því frumvarpi sem hér er lagt fram og mæla eindregið með samþykkt þess. Neytendasamtökin gera þó eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

2. tl. 3. mgr. a. liðs (64. gr. )
Samkvæmt ákvæðinu verður skuldari að vera fjár síns ráðandi til að geta fengið heimild til greiðsluaðlögunar.  Neytendasamtökin telja að hafi skuldari verið sviptur fjárræði á grundvelli II. kafla lögræðislaga, t.d. vegna alvarlegra veikinda, sé sanngjarnt að fjárráðamaður geti fyrir hans hönd sótt um greiðsluaðlögun.

Gera samtökin því þá tillögu að 2. tl. 3.mgr. a.liðs (64. gr. ) orðist á eftirfarandi hátt:
  2.      að skuldari sé fjár síns ráðandi; fjárráðamaður getur þó sótt um greiðsluaðlögun fyrir hönd skuldara sem sviptur hefur verið fjárræði, sbr. II. kafla lögræðislaga nr. 71/1997. 

1. tl. 2. mgr. d.liðs (67. gr.)
Samkvæmt ákvæðinu skal héraðsdómari synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef krafa um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans hefur komið fram á síðustu fimm árum áður en beiðni hans um heimild til greiðsluaðlögunar var sett fram og krafan hefur hvorki verið afturkölluð né henni hafnað með úrskurði. Ef beiðni um greiðsluaðlögun er lögð fram áður en úrskurðað hefur verið um gjaldþrotaskipti telja Neytendasamtökin eðlilegt að tekin sé afstaða til þess hvort efni séu til að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Gera samtökin því þá tillögu að þessi töluliður verði felldur niður.

Neytendasamtökin gera ekki aðrar athugasemdir við lagafrumvarpið og mæla eindregið með lögfestingu þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson formaður